Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kortavelta orðin meiri en fyrir faraldur

Kortavelta jókst um ríflega 10% að raunvirði í janúar á milli ára. Nú er kortaveltan orðin meiri en fyrir faraldur og ef tölur undanfarins árs eru bornar saman við árið 2019 var vöxturinn hraðastur í september-desember 2021.


Samkvæmt nýbirtum kortaveltugögnum Seðlabankans nam velta innlendra greiðslukorta um 82 ma.kr. í janúar síðastliðnum. Það samsvarar um 13% aukningu frá sama mánuði í fyrra og ríflega 2% aukningu frá sama mánuði árið 2020. Ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga jókst kortavelta um ríflega 10% á milli ára.

Það kemur líklega fáum að óvart að aukning mælist í veltu á milli ára þar sem áhrif faraldursins voru með mesta móti árið 2020 og með tímanum lærði almenningur í meiri mæli að lifa með faraldrinum. Vegna þessa gefur það oft betri mynd að bera saman veltuna við árið 2019, áður en faraldurinn skall á. Eins og sést á myndinni hér að neðan hefur veltan aukist talsvert síðastliðna mánuði í samanburði við árið 2019. Mest var aukningin á tímabilinu september-desember þegar hún var á bilinu 9-14%. Þegar janúarmánuður er borinn saman við janúar árið 2020 er vöxturinn um 3% að raunvirði sem er þó heldur minni vöxtur en síðustu mánuði. Er líkleg ástæða þess Omikron bylgjan sem stóð sem hæst í janúarmánuði. Það má því sannarlega segja að kortaveltan hafi tekið við sér á nýjan leik á nýliðnu ári og er orðin talsvert meiri en fyrir faraldur.

Kortavelta erlendis ber uppi vöxtinn

Líkt og síðustu mánuði mælist gífurlega mikill munur á þróun kortaveltu innanlands og erlendis. Í janúar jókst kortavelta innanlands einungis um tæp 2% á meðan kortavelta erlendis jókst um 76% að raunvirði frá sama mánuði 2021. Auðvitað er um afar óvenjulegar aðstæður að ræða þar sem kortavelta erlendis lagðist nánast tímabundið af í upphafi faraldursins.

Ef hins vegar janúarmánuður er borinn saman við sama mánuð árið 2020 er raunvöxtur innlendrar kortaveltu 5% en erlenda kortaveltan dregst saman um 7%. Þetta er jafnframt þróunin sem hefur verið uppi á teningnum síðastliðna mánuði. Þrátt fyrir að erlenda kortaveltan beri upp vöxtinn um þessar mundir hefur veltan þó enn ekki náð sama skriði og fyrir faraldurinn. Aðra sögu má segja um veltuna innanlands sem hefur náð vopnum sínum á nýjan leik og mælist nú meiri en fyrir faraldurinn.

Útlit er fyrir að álíka vöxtur verði á næstu mánuðum, þ.e. að erlenda kortaveltan haldi áfram að bera uppi vöxtinn í samanburði við fyrra ár. Ferðagleði landsmanna hefur nefnilega aukist töluvert undanfarna mánuði. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu og Isavia lögðu ríflega 219 þúsund Íslendingar land undir fót um Keflavíkurflugvöll á nýliðnu ári sem er 70% aukning frá fyrra ári. Nú í janúar fóru um 15 þúsund Íslendingar í gegnum Keflavíkurflugvöll. Er það töluverð fækkun miðað við síðustu mánuði þó vöxturinn á milli ára sé um 150%. Ætla má að Omikron bylgjan sem stóð sem hæst í janúar með hertum sóttvarnaraðgerðum sé helsta ástæða þessa. Nú hafa hins vegar flest lönd sem Íslendingar ferðast til ýmist aflétt öllum aðgerðum í tengslum við faraldurinn eða ráðgera slíkt á komandi vikum og horfir því fram á betri tíma í þeim efnum.

Vöxtur einkaneyslu á árinu

Vöxtur einkaneyslu hefur verið töluverður á nýliðnu ári. Á fyrstu 9 mánuðum ársins óx einkaneysla um 5,4% en tölur fyrir lokafjórðung ársins birtast um næstu mánaðamót og ætla má að vöxturinn verði svipaður í heildina ef ekki meiri. Kortavelta gefur góða vísbendingu um þróun einkaneyslunnar og útlit er því fyrir að einkaneysluvöxtur sé áfram í kortunum. Auk þess benda aðrir hagvísar til þess sama: Atvinnuleysi hefur minnkað umtalsvert, væntingavísitalan mælist há og kaupmáttur launa heldur áfram að vaxa. Í þjóðhagspá Greiningar sem birt var í lok janúar spáum við því að vöxtur einkaneyslu muni koma til með halda áfram jafnt og þétt á næstu árum. Við spáum ríflega 4% vexti einkaneyslu á þessu ári, 3,5% árið 2023 og rúmlega 3% árið 2024.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband