Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kortavelta landsmanna í örum vexti í aðdraganda jóla

Kortavelta í nóvember var fimmtungi meiri að raunvirði en á sama tíma í fyrra. Áfram mælist hraður vöxtur í kortaveltu utan landsteinanna sem endurspeglar bæði vaxandi ferðagleði og aukna kaupgleði landsmanna í erlendum netverslunum. Kortaveltutölur benda til þess að Kórónukreppan sé að baki hjá þorra heimila og að einkaneysla sé nú orðin talsvert meiri en hún var fyrir faraldur.


Heildarvelta innlendra greiðslukorta í nóvembermánuði nam 99,7 ma.kr. samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Í krónum talið er hér um að ræða ríflega 22% hækkun á milli ára en eins og flestum er væntanlega í fersku minni litaði Covid-19 faraldurinn talsvert lokafjórðung síðasta árs.

Ef horft er til ársbreytingar kortaveltunnar þegar búið er að taka tillit til verðlagsbreytinga og gengisþróunar krónu er aukningin að raunvirði milli ára 19,9%. Mikill munur er á þróuninni innanlands og erlendis líkt og verið hefur síðustu mánuði þótt aukningin sé almennt veruleg. Þannig jókst kortavelta hjá innlendum verslunum og þjónustuveitendum um 11% milli ára á þennan kvarða en utan landsteinanna varð hins vegar 89% aukning frá nóvembermánuði í fyrra.

Veltan orðin talsvert meiri en fyrir faraldur

Það kemur líklega fáum á óvart að umtalsverð veltuaukning mælist milli ára í ljósi þess að áhrif faraldursins á innlend umsvif hafa verið töluvert minni undanfarna fjórðunga en var stóran hluta síðasta árs. Þess vegna er forvitnilegt að bera þróunina upp á síðkastið saman við tímabilið fyrir faraldur.

Sé veltan frá ársbyrjun 2020 borin saman við viðkomandi mánuð árið 2019 að raunvirði sést verulegur viðsnúningur í neyslu heimilanna á þennan kvarða. Frá því faraldurinn braust út og allt fram á síðasta vor var að jafnaði um talsverðan samdrátt að ræða frá því fyrir faraldur. Frá júní síðastliðnum má hins vegar greina ólíka þróun þar sem umsvif heimilanna hafa nær alfarið verið umtalsvert meiri á þennan mælikvarða, að ágústmánuði undanskildum. Í októbermánuði var kortavelta til að mynda ríflega 11% meiri að raunvirði en í sama mánuði 2019 og í nóvember sl. var aukningin á þennan mælikvarða nærri 14%.

Ýmsar skýringar eru efalítið á þessari athyglisverðu þróun. Hagur heimilanna hefur almennt farið batnandi og eflaust margir átt uppsafnaðan sparnað sem nýttur hefur verið í vaxandi mæli undanfarið. Þá hefur jólaverslun verið að færast framar á lokafjórðung ársins, ekki síst með ört vaxandi vinsældum ýmissa tilboðsdaga í nóvembermánuði.

Aukin ferðagleði litar kortatölurnar

Síðast en ekki síst hefur ferðagleði landsmanna aukist talsvert á nýjan leik með útbreiddri bólusetningu og slökun á landamærahömlum víða í nágrannalöndunum. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu og Isavia lögðu tæplega 34 þúsund Íslendingar land undir fót um Leifsstöð í nóvembermánuði. Var það nokkur fækkun frá októbermánuði (rúm 39 þúsund) en engu að síður var nóvember næststærsti ferðamánuður landsmanna á erlenda grundu frá því faraldurinn skall á.

Vaxandi ferðagleði landans ásamt líflegri verslun við erlendar netverslanir endurspeglast svo í hinum öra vexti kortaveltu utan landsteinanna sem við nefndum að ofan. Í nóvembermánuði náði slík velta nýju hámarki frá því fyrir faraldur en alls var hún 18,4 ma.kr. Á sama tíma hefur velta erlendra korta hér á landi skroppið jafnt og þétt saman frá því í sumar og hefur því sigið á ógæfuhliðina í gjaldeyrisflæði vegna kortaveltu. Mestur varð afgangur af kortaveltujöfnuði, þ.e. veltu erlendra korta hér á landi að frádregnum veltu innlendra korta erlendis, ríflega 10 ma.kr. í ágústmánuði. Í nóvember var hins vegar tæplega 8 ma.kr. halli á kortaveltujöfnuðinum. Náði því kortavelta tengd erlendum ferðamönnum og öðrum erlendum aðilum ekki að vinna upp kaupgleði landsmanna erlendis í mánuðinum.

Kórónukreppan að baki hjá þorra heimila?

Nú þegar kortaveltutölur fyrir tvo mánuði af þremur á lokafjórðungi ársins liggja fyrir gefa þær sterka vísbendingu um býsna myndarlegan einkaneysluvöxt í árslok. Þó ber að hafa í huga eins og fyrr er nefnt að líklega hefur jólaverslunin verið að færast framar og kann veltuþróunin í desember að endurspegla það. Við teljum þó líklegast að einkaneysluvöxtur á síðasta fjórðungi yfirstandandi árs muni reynast mikill og ef eitthvað er slá við þeim tæplega 9% vexti á milli ára sem Hagstofan mældi á 2. ársfjórðungi.

Við spáðum í þjóðhagsspá okkar í september síðastliðnum að einkaneysluvöxtur í ár yrði 4,8% á þessu ári. Framangreindar tölur benda til þess að það sé hóflega áætlað og gæti vöxturinn reynst nær 6% miðað við nýjustu tölur. Það er því ljóst að neysla landsmanna er að sækja hratt í sig veðrið að nýju og virðist samdráttur síðasta árs ekki einungis hafa gengið til baka heldur er einnig um að ræða talsverðan vöxt frá árinu 2019. Má því segja að hjá þorra heimila virðist Kórónukreppan ekki aðeins að baki heldur nýtt vaxtarskeið hafið af talsverðum krafti.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband