Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kortavelta heldur áfram að aukast

Vöxtur var í kortaveltu milli ára í október líkt og síðustu mánuði. Erlenda kortaveltan bar upp vöxtinn og jókst um ríflega 100% milli ára enda útlit fyrir talsverðan ferðahug í landanum um þessar mundir. Þessar tölur gefa góð fyrirheit um einkaneysluna sem mun að öllum líkindum halda áfram að vaxa það sem eftir lifir árs


Samkvæmt nýbirtum kortaveltugögnum frá Seðlabankanum nam innlend kortavelta um 102 ma.kr. í október. Það samsvarar 31% aukningu frá sama mánuði í fyrra og 16% aukningu frá sama mánuði árið 2019. Ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga jókst kortavelta hins vegar um 24% frá sama mánuði í fyrra. Kortavelta einstaklinga hefur aukist í hverjum mánuði á þennan mælikvarða frá því í mars síðastliðnum.

Kortavelta erlendis ber uppi vöxtinn

Enn mælist mikill munur á þróun kortaveltu innanlands og utanlands, líkt og hefur verið raunin undanfarna mánuði. Erlenda kortaveltan hefur tekið við af innlendu kortaveltunni sem hélt nánast velli í hápunkti faraldursins. Nú í október jókst kortavelta innanlands um 14% á meðan kortavelta erlendis jókst um 104% að raunvirði frá sama mánuði 2020. Satt að segja er þetta vöxtur sem ekki hefur sést áður enda um óvenjulegar aðstæður að ræða þar sem erlend kortavelta lá nánast niðri stóran hluta síðasta árs.

Á sama tíma og Seðlabankinn birti tölur fyrir október voru tölur fyrir septembermánuð uppfærðar. Kom í ljós að vöxtur kortaveltu innanlands í september var meiri en áður var haldið fram. Það má því segja að neysla Íslendinga sé að glæðast með hverjum mánuðinum og þá sérstaklega á erlendri grundu. Það sést greinilega í tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV) þar sem velta í flokknum Ferðaskrifstofur og skipulagðar ferðir var ríflega tífalt meiri í október en á sama tíma í fyrra og greinilegt að ferðahugur landans er mikill um þessar mundir.

Vöxtur einkaneyslu í kortunum?

Þessar tölur gefa góð fyrirheit um stöðu einkaneyslu hér á landi þar sem kortaveltan gefur alla jafna góða vísbendingu um þróun einkaneyslunnar. Einkaneysla dróst saman um 3% í fyrra að raunvirði frá árinu á undan en á fyrri helmingi þessa árs hefur hún aukist um 5%. Það verður því áhugavert að sjá þróunina á einkaneyslunni á þriðja ársfjórðungi en Hagstofan mun birta þjóðhagsreikninga fyrir þann ársfjórðung í lok þessa mánaðar. Miðað við kortaveltutölur undanfarna mánuði má ætla að einkaneyslan haldi áfram að vaxa það sem eftir lifir árs.

Aðrir hagvísar benda einnig til þess að einkaneysluvöxtur sé í vændum. Væntingavísitala Gallup mælist há, atvinnuleysi fer minnkandi og kaupmáttur launa hefur vaxið töluvert á þessu ári þrátt fyrir verðbólgu. Þá er eignastaða flestra heimila sterk ásamt því að sparnaður jókst töluvert í faraldrinum. Við teljum að vegna þessa að neysluvilji almennings sé töluverður og þar með eigi einkaneyslan talsvert inni eftir hápunkt faraldursins.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband