Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kortavelta erlendis sækir í sig veðrið

Vöxtur var í bæði innlendri og erlendri kortaveltu í maí. Virðist sem Íslendingar séu farnir að ferðast á ný enda ganga bólusetningar hér á landi vel og líklegt þykir að erlendra kortaveltan muni aukast mikið á næstu mánuðum. Ef marka má kortaveltutölur sem og aðra hagvísa á borð við kaupmátt launa og væntingavísitöluna er þess að vænta að einkaneysla muni vaxa talsvert að nýju í ár.


Samkvæmt nýlegum kortaveltutölum frá Seðlabankanum nam heildarvelta innlendra greiðslukorta  93,3 ma.kr. í maímánuði. Það samsvarar 18,9% aukningu frá sama mánuði í fyrra. Ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga jókst kortavelta landsmanna hins vegar um 14,5% frá sama mánuði í fyrra.

Á síðustu þremur mánuðum hefur vöxtur innlendrar kortaveltu milli ára verið gríðarlegur. Það á sér nokkuð eðlilegar skýringar þar sem fyrstu bylgju COVID-19 fór að gæta hér á landi í marsmánuði í fyrra. Samkomubann var sett á um miðjan mánuðinn sem hafði gríðarleg áhrif á kortaveltutölur í framhaldinu þar sem mikil óvissa ríkti sem og samkomutakmarkanir.

Undanfarið ár hefur verið mikill munur á þróun kortaveltunnar innanlands og utanlands. Kortavelta innanlands hélt velli í faraldrinum á meðan kortavelta erlendis dróst verulega saman. Nú er hins vegar orðin breyting þar á og kortavelta erlendis farin að sækja í sig veðrið á nýjan leik. Á meðan velta innanlands jókst um tæp 10% að raunvirði á milli ára var vöxtur í erlendri kortaveltu 67,5% á sama tíma. Ef miðað er við maímánuð 2019 þegar allt var með eðlilegum hætti dróst veltan hins vegar saman um 40%. Virðist sem Íslendingar séu í einhverjum mæli farnir að ferðast utan landsteinanna á nýjan leik enda hafa bólusetningar hér á landi gengið vel. Þegar þetta er skrifað hafa um 78% landsmanna fengið bólusetningu að hálfu eða fullu leyti og stefnt er að því að allir landsmenn 16 ára og eldri hafi fengið boð um bólusetningu.

Mun erlend kortavelta taka við?

Áhugavert verður að fylgjast með þróun kortaveltunnar næstu mánuði. Líklegt er að hægja muni á vexti innlendrar kortaveltu á sama tíma og vöxtur erlendrar kortalveltu verður líklega verulegur. Ef Íslendingar verða ferðaglaðir í sumar mun neyslan færast út fyrir landsteinanna í meiri mæli. Önnur ástæða er að innlend kortalvelta náði sér aftur á strik um sumarmánuðina í fyrra og teljum við líklegt að ársbreytingar í innlendu veltunni verði því með eðlilegri hætti á næstu mánuðum. Aftur á móti verður að teljast líklegt, þar sem að erlend kortavelta lá nánast í dvala stærstan hluta síðasta árs, að nú þegar Íslendingar fari í einhverjum mæli að ferðast utan landsteinanna verði vöxturinn mikill á næstu mánuðum.

Það er í raun ótrúlegt hversu stöðug innlend kortavelta reyndist í miðjum COVID-19 faraldri þrátt fyrir efnahagssamdrátt og sóttvarnaraðgerðir. Samkvæmt gögnum Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) voru fólk og fyrirtæki fljót að aðlagast breyttum aðstæðum og sést það til að mynda í mikilli aukningu í netverslun í faraldrinum. Nú eru horfur á eðlilegri tíma og verður forvitnilegt að sjá hvort innlend kortavelta haldi velli en mögulega mun hún tímabundið dragast eitthvað saman þegar erlenda kortaveltan tekur að aukast.

Vöxtur einkaneyslu í kortunum

Kortavelta gefur allgóða vísbendingu um þróun einkaneyslu hér á landi. Í fyrra skrapp einkaneysla saman um 3,3% en á fyrsta fjórðungi þessa árs óx hún um tæp 1% þrátt fyrir að samanburðartímabilið í fyrra hefði að mestu verið laust við áhrif faraldursins á neysluhegðun. Miðað við kortaveltutölur síðustu mánaða má ætla að einkaneyslan muni vaxa töluvert hraðar á öðrum ársfjórðungi en þeim fyrsta.

Þrátt fyrir að atvinnuleysi mælist 9% samkvæmt nýjustu tölum Vinnumálastofnunar hefur kaupmáttur launa vaxið töluvert á sama tíma. Það veldur því að þau sem ekki hafa misst vinnu eða tekjur af rekstri eru mörg hver vel í stakk búin fjárhagslega. Við teljum að það muni styðja við einkaneysluna um þessar mundir.

Væntingavísitalan segir sömu sögu. Brún landsmanna virðist hafa lést töluvert upp á síðkastið ef marka má mælingar Gallup á vísitölunni. Vísitalan hefur ekki mælst hærri í þrjú og hálft ár og væntingar til næstu 6 mánaða hafa aldrei mælst hærri. Virðist sem landinn sé bjartsýnn á að faraldrinum fari nú senn að ljúka og að bjart sé yfir nánustu framtíð.

Í nýlegri þjóðhagsspá Greiningar spáðum við því að einkaneysla muni vaxa að nýju í ár og að vöxturinn verði 2,9% á þessu ári. Miðað við nýjustu kortaveltutölur sem og aðra hagvísa teljum við líklegt að sú spá sé nærri lagi og jafnvel að hún sé í hóflegri kantinum. Á næsta ári spáum við svo að einkaneysla vaxi um 3,5% og 3,4% árið 2023.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband