Landsmenn straujuðu greiðslukort sín fyrir ríflega 110 ma.kr í október samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Það samsvarar 12% aukningu frá sama mánuði í fyrra og ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga jókst kortavelta um 3% á milli ára. Vöxturinn á milli ára hefur ekki verið svo hægur á þennan mælikvarða síðan í febrúar 2021.
Kortavelta erlendis í methæðum
Kortavelta jókst um 3% að raunvirði í október miðað við sama mánuð í fyrra, sem er minni vöxtur en verið hefur uppi á síðkastið. Vöxturinn er vegna aukningar í kortaveltu erlendis sem kemur ekki á óvart þar sem metfjöldi Íslendinga ferðaðist erlendis í mánuðinum. Horfur eru á hægari neysluvexti á komandi fjórðungum.
Líkt og raunin hefur verið undanfarið skrifast vöxturinn milli ára fyrst og fremst á stóraukna veltu erlendis. Raunar skrapp kortavelta innanlands saman um nær 3% að raunvirði á milli ára en á sama tíma jókst kortavelta erlendis um nær 29%. Ef litið er til síðustu mánaða er aðeins farið að hægja á vextinum en í krónum talið er veltan erlendis í methæðum.
Metfjöldi utanlandsferða í október
Það að kortavelta erlendis haldi uppi vextinum kemur okkur ekki á óvart. Líkt og við fjölluðum um hér fóru nærri 72 þúsund Íslendingar í utanlandsferðir í október sem er metfjöldi í einum mánuði. Næstum fimmti hver borgari ferðaðist út fyrir landsteinanna í mánuðinum þó trúlega sé eitthvað um að fólk hafi farið fleiri en eina ferð í október.
Kortavelta Íslendinga á erlendri grundu hefur verið í örum vexti líkt og sést á myndinni og þó vöxturinn sé að hægja á sér hefur kortaveltan í krónum talið náð nýjum hæðum á undanförnum mánuðum. Vaxandi ferðagleði er helsta skýringin á því en ætla má að vöxtur í viðskiptum við erlendar netverslanir spili þar einnig stóra rullu. Þessi mikli vöxtur í kortaveltu erlendis á væntanlega sinn þátt í gengisþróun krónu undafarna mánuði. Frá sumarbyrjun hefur krónan veikst um nærri 9% gagnvart körfu helstu viðskiptamynta og er gengi hennar núna svipað á þann kvarða og það var í mars í fyrra.
Blússandi einkaneysla
Á fyrri helmingi ársins óx einkaneyslan um 11% frá sama tíma í fyrra og þar af var vöxturinn 13,5% á öðrum fjórðungi sem er jafnframt hraðasti vöxtur einkaneyslu í 17 ár. Ætla má að almenningur hafi verið að njóta fyrsta sumarsins án sóttvarnartakmarkana auk þess sem mörg heimili stóðu mjög vel í gegnum faraldurinn og söfnuðu talsverðum sparnaði.
Útlit er fyrir að það hægi talvert á einkaneysluvextinum á lokafjórðungi ársins. Nýbirtar kortaveltutölur benda til þess auk þess sem væntingar landsmanna hafa mælst fremur lágar á undanförnum mánuðum og kaupmáttur launa hefur rýrnað á suma mælikvarða.
Væntingar almennings hafa væntanlega litast talsvert af þróun verðbólgu undanfarna fjórðunga og efnahagsástandi í viðskiptalöndum okkar sem mörg hver sjá fram á erfiðan vetur. Ef rýnt er nánar í kaupmátt launa hefur hann vissulega rýrnað miðað við vísitölu neysluverðs en samkvæmt bæði vísitölu neysluverðs án húsnæðis og samræmdri vísitölu neysluverðs hefur kaupmáttur launa aukist undanfarið ár. Það er líklega ein af ástæðum þess að seigt hefur verið í einkaneyslunni uppi á síðkastið.
Í þjóðhagsspá okkar frá því í september spáðum við því að hægja myndi á einkaneysluvexti á lokafjórðungi ársins en þrátt fyrir það muni einkaneyslan vaxa um nærri 9% á milli ára. Á næsta ári spáðum við tæplega 2% vexti og að heimilin myndu ganga talsvert á sparnað sinn. Við erum enn þeirrar skoðunar að það verði líkleg niðurstaða.