Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kórónukreppa litar kortaveltu

Kortaveltutölur bera með sér að framgangur COVID-19 faraldursins hefur sterk áhrif á einkaneyslu. Samdráttur í einkaneyslu þetta árið verður væntanlega fyrst og fremst í neyslu utan landsteinanna. Horfur eru á að neyslusamdrátturinn verði allnokkur í ár en einkaneysla gæti glæðst allhratt á næsta ári.


Samdráttur í kortaveltu einstaklinga í október var sá mesti að raungildi frá því í apríl síðastliðnum þegar fyrsta COVID-19 bylgjan stóð sem hæst. Kortavelta í októbermánuði dró dám af harðandi sóttvarnaraðgerðum í mánuðinum. Alls nam velta innlendra korta 78,1 ma.kr. Að teknu tilliti til verðlags- og gengisþróunar skrapp veltan saman um 11,6% frá sama mánuði ári fyrr. Líkt og undanfarið skrapp kortavelta utan landsteinanna verulega saman, eða um ríflega helming að teknu tilliti til gengisbreytinga. Innlend velta gaf hins vegar einnig lítillega eftir á milli ára, en það hefur ekki gerst síðan í apríl sl.

Neyslan fylgir faraldrinum

Áhugavert er að bera saman þróun kortaveltunnar og framgang COVID-19 faraldursins sem hefur mikið til ráðið ferðinni varðandi efnahagsþróun hérlendis sem á heimsvísu, bæði beint og óbeint. Eins og sést á myndinni hér að neðan er sterkt samband á milli þróunar nýgengis smita og kortaveltu. Eftir mikinn samdrátt í neyslu heimilanna þegar fyrsta smitbylgjan stóð sem hæst gáfu þau talsvert í kortaútgjöldin á nýjan leik um leið og smitum var farið að fækka og sóttvarnaraðgerðir höfðu verið mildaðar. Talsvert sló svo í bakseglin að nýju þegar bylgja númer tvö fór að rísa og takmarkanir á landamærunum voru hertar. Þriðja bylgjan og tilheyrandi sóttvarnaraðgerðir hafa svo væntanlega hægt enn meira á neyslu heimilanna í október, en sem kunnugt er reis bylgjan sú einna hæst eftir miðjan síðasta mánuð.

Vitaskuld eru fleiri áhrifaþættir en þróun faraldursins sjálfs sem lita kortaveltuna þessa dagana. Afleiðingar faraldursins á efnahags- og atvinnulífið eru í vaxandi mæli að koma fram þessa dagana. Atvinnuleysi hefur farið vaxandi jafnt og þétt og mældist 9,9% í októbermánuði. Þá hefur dregið heldur úr kaupmáttarvexti með hægari hækkun launa og vaxandi verðbólgu. Einnig hafa væntingar almennings til þróunar á komandi fjórðungum lækkað og vilja því væntanlega ýmsir hafa vaðið fyrir neðan sig í neysluútgjöldum þar til horfur fara að batna á nýjan leik.

Neyslan innan landhelgi í ár

Góðu heilli hefur samdráttur einkaneyslu verið til muna krappari í kaupum á vörum og þjónustu utan landsteinanna en innanlands. Áhrifin á innlenda verslun, þjónustu og framleiðslustarfsemi sem þrífst á neyslu landsmanna eru því talsvert vægari en ætla mætti af þeim samdrætti sem orðið hefur á einkaneyslunni það sem af er ári. Á fyrri helmingi ársins varð t.d. að jafnaði nærri 40% samdráttur í kortaveltu erlendis að raungildi en kortavelta innanlands stóð að jafnaði í stað á milli ára á sama kvarða. Einkaneysla á fyrri helmingi ársins skrapp saman um 4% samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Kortaveltutölur í júlí-október sýna svipaða þróun. Undanfarna 4 mánuði hefur kortavelta utan landsteina að jafnaði dregist saman um 53% frá sama tímabili 2019 en velta á heimaslóðum vaxið um tæp 5% þrátt fyrir fyrrnefndan samdrátt hennar í októbermánuði. Áfram má gera ráð fyrir að þessi þróun liti tölurnar. Borgarferðir til jólainnkaupa verða líklega ansi fáar þetta árið og fréttir af metsölu í innlendum netverslunum á nýliðnum „Degi einhleypra“ gefa líklega tóninn um það sem koma skal á þeim vettvangi í kring um Föstudaginn svarta (Black Friday) og aðventuna. Innlend verslun mun því á heildina litið líklega sigla þokkalega lygnan sjó á næstunni þrátt fyrir áhrif faraldursins.

Neyslusamdráttur talsverður í ár

Þótt framangreind þróun sé jákvæð í þeim skilningi að gefa innlendri verslun og þjónustu meiri meðbyr en ella nægir hún hvergi nærri til þess að vega upp þann mikla samdrátt sem orðinn er í veltu erlendra korta hér á landi frá því faraldurinn skall á. Þokkalegt jafnvægi var á kortaveltu milli landa yfir hásumarið en að júlí- og ágústmánuðum slepptum hefur verið talsverður halli á kortaveltujöfnuðinum frá því í mars. Sú staða mun líklega ekki batna að ráði fyrr en ferðageta og -vilji á heimsvísu glæðist með hjaðnandi heimsfaraldri. Nýjustu fréttir gefa þó vonarglætu um að slíkt kunni að vera í kortunum fyrr en seinna.

Á heildina litið endurspegla kortaveltutölurnar samdrátt í einkaneyslu þetta árið sem fyrst og fremst á sér stað í neyslu utan landsteinanna. Vaxandi atvinnuleysi og óvissar horfur munu áfram hafa áhrif á neysluna í vetur en væntingar heimilanna gætu þó glæðst eftir nýjustu fréttir af bóluefnum. Við spáðum í september síðastliðnum að einkaneysla myndi skreppa saman um 3,3% þetta árið. Líklega var sú spá í bjartsýnni kantinum miðað við þróunina undanfarna mánuði. Hins vegar gæti spá okkar um 1,7% einkaneysluvöxt á næsta ári að sama skapi reynst heldur hófleg, sér í lagi ef Kórónuveiran lýtur fyrr í lægra haldi fyrir bólusetningu og öðrum gagnaðgerðum en búist var við.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband