Hagstofan birti í gærmorgun vísitölur launa og kaupmáttar launa fyrir júnímánuð. Launavísitalan hækkaði um 0,2% á milli mánaða en frá sama mánuði fyrir ári síðan hefur vísitalan hækkað um 6,7%. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hefur því COVID-faraldurinn og þau áhrif sem hann hefur haft á efnahags- og atvinnulífið ekki enn sett mark sitt á launaþróun.
Kaupmáttarvöxtur á kostnað starfa?
Ólíkt fyrri samdráttarskeiðum heldur kaupmáttur launa áfram að vaxa þessa dagana og útlit er fyrir að svo verði áfram. Atvinnuleysi gæti aftur á móti orðið meira og þrálátara á komandi tíð en Íslendingar hafa átt að venjast. Aðila vinnumarkaðar bíður það úrlausnarefni hvort breyta eigi áherslum í átt til þess að vernda störf fremur en kaupmátt launa næstu misserin.
Kaupmáttur launa rýrnaði um 0,3% í júnímánuði frá mánuðinum á undan. Undanfarna 12 mánuði hefur kaupmáttur launa hins vegar aukist um 4,0%. Undanfarið hefur kaupmáttur launa vaxið allmyndarlega og má sem dæmi nefna að á 2. fjórðungi ársins nam kaupmáttarvöxturinn 4,1% frá sama fjórðungi árið 2019. Svo hraður hefur kaupmáttarvöxturinn ekki verið í rúm 2 ár og kann það að koma ýmsum á óvart í þeim hvassa mótbyr sem hagkerfið hefur siglt upp á síðkastið.
Ástæða þessa kaupmáttarvaxtar er að stærstum hluta sú að Lífskjarasamningarnir svonefndu, ásamt samningum sem siglt hafa í kjölfarið á svipuðum nótum, hafa skilað stórum hluta vinnumarkaðar talsverðri hækkun launa í prósentum talið frá vordögum 2019. Á sama tíma hefur verðbólga haldist hófleg þrátt fyrir að gengi krónu hafi fallið um u.þ.b. 7% á tímabilinu. Er það nýlunda í hagsögu Íslands og að okkar mati meðal annars til marks um aukinn trúverðugleika Seðlabankans og virkari samkeppni á smásölumarkaði en áður var reyndin.
Ráðdeild á góðæristíma kemur sér vel í kreppu
Allsterk fylgni er milli þróunar einkaneyslu og kaupmáttar launa til lengri tíma litið. Stundum hefur þó sambandið þarna á milli slitnað. Gott dæmi um þetta er hinn hraði einkaneysluvöxtur útrásaráranna 2004-2007 sem að verulegum hluta var fjármagnaður með aukinni skuldsetningu heimilanna. Þegar svo fjármálahrunið dundi yfir á seinni árshelmingi 2008 skrapp einkaneysla mun meira saman en sem nam falli kaupmáttar þar sem mörg heimili voru á sama tíma að glíma við erfiðan efnahag. Góðu heilli hefur slík skuldsett einkaneysla lítið látið á sér kræla síðustu ár og á það eftir að reynast mörgum heimilum drjúgur styrkur þegar skóinn kreppir um þessar mundir.
Kaupmátt eða störf?
Fleira hefur þó áhrif á einkaneyslu en þróun kaupmáttar launa. Má þar nefna þróun eignaverðs og áhrif þess á auð heimilanna, væntingar almennings um horfur í efnahagsmálum, fólksfjöldaþróun, vaxtastig sem gerir sparnað meira eða minna eftirsóknarverðan samanborið við neyslu í nútíð og síðast en ekki síst atvinnustigið í landinu. Þegar atvinnuleysi eykst minnka ráðstöfunartekjur þeirra sem vinnuna missa umtalsvert enda atvinnuleysisbætur snöggt um lægri en jafnvel lægstu laun. Þannig má trúlega skrifa einhvern hluta þess samdráttar sem varð í einkaneyslu fyrir áratug síðan á allsnarpa aukningu atvinnuleysis. Atvinnuleysishlutfallið náði tímabundnu hámarki í kring um 9% á mælikvarða Hagstofunnar á vordögum 2009 og náði ekki einhvers konar jafnvægisgildum að nýju fyrr en undir miðjan síðasta áratug.
Samspil atvinnuleysis, kaupmáttar og einkaneyslu verður líklega með talsvert öðrum hætti á komandi fjórðungum en raunin hefur oftast verið á íslenskum samdráttarskeiðum. Hingað til hefur raunin gjarnan verið sú að kaupmáttur launafólks hefur rýrnað tímabundið vegna verðbólguskots og hóflegrar hækkunar launa í kjölfar þess að gengislækkun krónu hefur sett punktinn aftan við góðærisskeið.
Að þessu sinni virðist hins vegar sem kaupmáttur launa muni almennt standa allvel af sér COVID-skellinn. Þjóðhagsspá Greiningar sem út kom í maí síðastliðnum hljóðar þannig upp á ríflega 2% kaupmáttarvöxt á yfirstandandi ári og ríflega 1,5% vöxt kaupmáttar launa að jafnaði næstu tvö ár. Líkt og undanfarið hefur verið skýrist sá kaupmáttarvöxtur af samspili allmyndarlegra samningsbundinna launahækkana og hóflegrar verðbólgu.
Illu heilli eru hins vegar horfur á að atvinnuleysi verði öllu meira á komandi fjórðungum en raunin var eftir hrunið 2008-2009. Að stórum hluta, sér í lagi næsta kastið, er ástæðan einfaldlega sú hversu snöggur skellurinn er nú og að hann dynur beint á mjög mannaflsfrekri atvinnugrein, ferðaþjónustunni. Hins vegar má einnig segja að í staðinn fyrir að sú leið sé farin að dreifa áhrifum tekjumissis í útflutningsgeiranum fremur jafnt yfir launþega líkt og fólst í kaupmáttarrýrnun eftir verðbólguskot fortíðar verði núna líklega allskörp skil milli tveggja hópa:
Annars vegar njóta þeir sem áfram hafa vinnu svipaðs kaupmáttar og verið hefur. Hins vegar stækkar ört sá hópur sem verður fyrir umtalsverðri skerðingu ráðstöfunartekna vegna atvinnumissis og tekur því í ríkari mæli á sig byrðina af efnahagsáfallinu nú en áður var. Viðvarandi útbreitt atvinnuleysi hefur reynst mikill bölvaldur víða og fylgir því tapaður mannauður, rýrnun lífskjara, aukin félagsleg vandamál og samfélagslegt ósætti, svo nokkuð sé nefnt. Hér á landi höfum við hins vegar borið gæfu til þess að sleppa að mestu við þennan bölvald fram að þessu. Það er því verðugt umhugsunar- og úrlausnarefni fyrir aðila vinnumarkaðar hvort rétt sé að feta þá braut sem mörkuð hefur verið eða hvort betur færi á að taka atvinnustigið tímabundið fram yfir kaupmáttarvöxt launa þar til glaðna fer til í hagkerfinu að nýju.