Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Jólaneysla landsmanna vex áfram

Neysla íslenskra heimila virðist heldur hafa sótt í sig veðrið í nýliðnum jólamánuði. Neyslan beinist í auknum mæli að innlendum vörum og þjónustu. Horfur eru á að heimilin verði til þess að dempa hagsveifluna á komandi fjórðungum.


Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans nam velta innlendra greiðslukorta alls tæplega 101 ma.kr. í desember síðastliðnum. Jafngildir það 2,7% aukningu frá jólamánuðinum 2018. Velta debetkorta skrapp saman um ríflega 3% á milli ára en velta kreditkorta óx hins vegar um tæp 9% á sama tíma.

Að teknu tilliti til verðlags- og gengisbreytinga jókst velta innlendra greiðslukorta um 1,8% í desembermánuði frá sama mánuði árið 2018. Aukning innanlands var 0,8% en vöxtur í veltu utan landsteinanna var hins vegar 7,2%. Það er hraðasti vöxtur á milli ára á þennan kvarða frá apríl síðastliðnum. Nýliðið jólahald landsmanna virðist því á heildina litið hafa verið lítið eitt myndarlegra en jólin 2018 og sér í lagi má halda því fram að öllu meira hafi verið keypt af gjöfum og jólafötum erlendis frá.

Umtalsverð breyting hefur orðið á samsetningu neyslu íslenskra heimila ef marka má þróun kortaveltunnar. Allt frá árinu 2012 fram á 3. fjórðung ársins 2018 óx kortavelta utan landsteinanna mun hraðar en kortavelta innanlands. Það skýrist að stærstum hluta af vaxandi ferðagleði landsmanna og örum vexti í viðskiptum við alþjóðlegar netverslanir.

Eftir fall krónu á haustdögum 2018 hefur þessi þróun hins vegar snúist við. Vöxtur í kortaveltu út fyrir landsteinana hefur verið mjög hægur og að stundum hefur veltan skroppið saman að raungildi á milli ára á meðan kortavelta tengd neyslu innanlands hefur vaxið hóflega, en þó stöðugt. Að mati okkar er þetta til marks um að íslensk heimili beini neyslu sinni í auknum mæli að innlendum vörum og þjónustu. Aðrir hagvísar á borð við fjölda utanlandsferða styðja við þessa ályktun, en landsmenn drógu úr slíkum ferðum um 8,5% í fyrra frá árinu áður. Þessi þróun er að hinu góða að því leyti að hún dregur úr áhrifum hægari einkaneysluvaxtar á þá geira sem selja landsmönnum þjónustu sína og neysluvörur.

Einkaneysla vex jafnt og þétt

Ef marka má kortaveltuna virðist einkaneysla hafa sótt nokkuð í sig veðrið að nýju á lokafjórðungi síðasta árs. Raunvöxtur kortaveltu mældist 2,0% á fjórðungnum og hefur hann ekki verið hraðari frá 4. ársfjórðungi 2018. Aðrir hagvísar sem gefa tóninn fyrir þróun einkaneyslu benda þó til þess að heimilin fari fremur fetið í neyslunni þessa dagana. Til að mynda lækkaði Væntingavísitala Gallup nokkuð á lokafjórðungi síðasta árs og heldur hægði á kaupmætti launa. Á heildina litið má þó segja að þróunin beri þess merki að íslensk heimili vilji hafa vaðið fyrir neðan sig með að eyða ekki um efni fram án þess þó að verið sé að stíga neyslubremsuna í botn.

Við höfum áður bent á að neysla íslenskra heimila muni væntanlega mýkja hagsveifluna talsvert á komandi fjórðungum öfugt við það sem oftast hefur verið í íslensku hagkerfi þegar gefið hefur á bátinn. Í þjóðhagsspá okkar frá september síðastliðnum var því spáð að einkaneyslan myndi vaxa hægt og bítandi þetta árið en meiri kraftur færast í vöxtinn að nýju eftir því sem birtir til í efnahagshorfum og herðir að nýju á fjölgun á vinnumarkaði og kaupmáttarvexti. Þessi skoðun okkar stendur óhögguð eftir síðustu tölur, enda virðast æ fleiri íslensk heimili vera að temja sér ráðdeild og langtímahugsun í neysluhegðun sinni.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband