„Fuglinn getur átt góða daga, þótt hann sé settur í lokað búr, eða fjaðrir hans séu stýfðar, en hann er þá sviptur frelsinu og vængirnir verða honum þá gagnslausir, en enginn getur sagt, hve langt flug hann hefði getað þreytt, ef hann hefði verið látinn sjálfráður.“
— Bríet Bjarnhéðinsdóttir
Þessi tilvitnun er úr fyrsta fyrirlestrinum sem íslensk kona flutti opinberlega. Það var árið 1887 og nefndist fyrirlesturinn „Fyrirlestur um hagi og rjettindi kvenna“. Þar fjallaði Bríet Bjarnhéðinsdóttir um réttindi kvenna í samfélaginu ásamt því að fjalla um launamun kynjanna.
Tilvitnunin fangar nokkuð vel kjarnann í þeirri baráttu sem háð hefur verið í gegnum tíðina – baráttu fyrir jafnrétti. Í anda þeirrar hugsjónar hefur Íslandsbanki lagt sitt af mörkum til jafnréttisbaráttunnar, þar sem bankinn hefur tekið sér stöðu sem leiðandi hreyfiafl. Framlag bankans til jafnréttisbaráttunnar birtist á fjölbreyttan hátt í starfsemi hans. Þar hefur bankinn ekki aðeins horft inn á við heldur einnig haft áhrif út á við – á samfélagið í heild.
Íslandsbanki hefur sett sér metnaðarfull markmið í þágu kynjajafnréttis og vinnur markvisst að því að tryggja jafna þátttöku kynja í öllum starfseiningum bankans. Þetta nær til deilda, nefnda, ráða og stjórna, sem og stjórnendastöðugilda. Þá er einnig sérstök áhersla lögð á að hlutfall eins kyns fari ekki yfir 60% í stjórnendateymi bankans.
Íslandsbanki hefur hlotið viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar sjö ár í röð og stendur þar í stafni íslensks fjármálakerfis. Í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna hefur bankinn sett sér jafnréttisáætlun sem felur meðal annars í sér markmið um launajafnrétti.
Við ráðningar eru starfsauglýsingar bankans kynhlutlausar og í tilfellum þar sem tveir jafnhæfir einstaklingar sækja um, er ráðið það kyn sem hallar á innan viðkomandi einingar. Þá hefur bankinn einnig sett sér sérstök markmið um að fjölga konum í deildum þar sem kynjahalli hefur verið áberandi, svo sem í fjárfestingarbanka og upplýsingatækni.
Með aðgerðum sínum hefur Íslandsbanki sýnt að jafnrétti er ekki aðeins hugsjón, það er ákvörðun.
