Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslendingar drekkja ekki sorgum sínum yfir veðrinu

Það er aldeilis ekki þannig að við drekkjum sorgum okkar yfir veðrinu heldur er líklegra að við gleðjumst í góðra vina hópi þegar sólin skín og sumar er í lofti.


Íslenska veðrið hefur ekki beint verið að leika við okkur þetta sumarið, sérstaklega sunnan- og vestanlands þar sem um 85% landsmanna búa. Samkvæmt Veðurstofu Íslands var júlímánuður víða sá úrkomusamasti um áratugaskeið og var meðalhiti í Reykjavík aðeins 10,6 stig.  Einnig var hægt að telja fjölda sólardaga á fingrum annarrar handar en í Reykjavík skein sólin aðeins í 90 klukkustundir í júlí. Sum fyrirtæki tóku meira að segja upp á því að hleypa starfsfólki sínu fyrr úr vinnu þegar sólin lét sjá sig, sem var eiginlega aldrei.

Í fyrrasumar var tíðarfar í júlí nokkuð betra. Úrkoma var víðast hvar minni en í meðalári, meðalhiti í Reykjavík var 11,7 gráður og sólskinsstundir í Reykjavík voru 188. Þegar tíðarfar í júlí 2015 og 2016 er skoðað kemur í ljós að júlí 2016 var með besta móti en meðalhiti var þá 12,5 stig í Reykjavík, úrkoma eilítið yfir meðaltali en sólskinsstundir voru 240. Í júlí 2015 voru sólskinsstundirnar 226 og meðalhiti 11,3 gráður. Það er því óhætt að segja að júlímánuður hefur tekið að þróast til verri vegar þegar kemur að veðri.

Hefur veðurfar áhrif á drykkju?

Í gegnum tíðina hefur íslendingum ekkert þótt leiðinlegt að setjast niður í góðra vina hópi og fá sér ískaldan bjór eða gott rauðvínsglas og jafnvel grilla. En skiptir máli hvernig veðrið er þegar neysla áfengra drykkja er annars vegar?  Drekkjum við sorgum okkar ef við erum að drukkna í rigningu og vosbúð?

Þegar sölutölur hjá ÁTVR fyrir júlí eru skoðaðar kemur í ljós að á þessu ári dróst salan saman um 4% frá sama mánuði í fyrra á sama tíma og sólskinsstundirnar voru um 50% færri og meðalhiti 1 gráðu lægri í Reykjavík. Sala á áfengi í júlí í fyrra dróst síðan saman um 11% frá sama mánuði árið 2016. Í júlí í fyrra var hitinn 1 gráðu lægri en á árinu 2016 og sólskinsstundirnar 20% færri. Á síðustu tveimur árum hefur því sala í júlí á áfengi hjá ÁTVR dregist verulega saman. Þegar júlímánuður var með skásta móti árið 2016 jókst sala á áfengi  hins vegar um 4% frá fyrra ári. Það má því álykta að sólin hafi áhrif á drykkju íslendinga, þegar sólskinsstundir eru fleiri og hitinn hærri kaupa fleiri áfengi og öfugt. Það er þess vegna aldeilis ekki þannig að við drekkjum sorgum okkar yfir veðrinu heldur er líklegra að við gleðjumst í góðra vina hópi þegar sólin skín og sumar er í lofti.

Sala á lagerbjór dregst mest saman

Það er áhugavert að skoða sölutölur ÁTVR eftir áfengistegundum. Langalgengasta áfengistegund sem keypt er í ríkinu er lagerbjór, eða um 70% af allri sölu. Sumarið 2016 jókst sala af bjór um 3,5% frá fyrra ári en síðastliðin tvö ár hefur sala dregist saman. Nú í júlí dróst salan saman um 6,5% frá sama mánuði í fyrra og einnig dróst hún saman um tæp 11% í júlí í fyrra frá sama mánuði árið 2016.

Sömu sögu má segja um rauðvín, en um 9% af allri sölu ÁTVR er rauðvín sem er næstmesta selda varan hjá ÁTVR. Sala á rauðvíni í júlímánuði dróst saman um 3,5% frá sama mánuði í fyrra og hafði salan þá einnig dregist saman um tæp 10% frá júlí árinu áður. Það mætti þá kannski draga þá ályktun að fólk drekki minna af léttum bjór og rauðvíni þegar sólin lætur ekki sjá sig.

Hafa verður þó í huga að þessi samanburður er einungis til gamans gerður og ekki er um hávísindalega rannsókn að ræða. Til að mynda hefur sólin talsvert látið sjá sig í öðrum landshlutum líkt og á Austurlandi, en við teljum það ekki skekkja niðurstöður sölutalna ríkisins að miklu leyti.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Sérfræðingur í greiningu Íslandsbanka


Senda tölvupóst