Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki styrkir 14 frumkvöðlaverkefni um 50 milljónir króna

Fyrir valinu verða verkefni sem stuðla að ákveðnum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.


Íslandsbanki styrkir fjórtán frumkvöðlaverkefni um eina til fimm milljónir króna í árvissri úthlutun Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka. Heildarupphæð styrkjanna, sem afhentir voru í dag, nemur 50 milljónum króna.

Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka hefur að markmiði að hvetja til nýsköpunar og þróunar og styðja frumkvöðlaverkefni sem stuðla að þeim fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem Íslandsbanki hefur valið að leggja sérstaka áherslu á. Það eru Menntun fyrir alla, Jafnrétti kynjanna, Nýsköpun og uppbygging og Aðgerðir í loftslagsmálum. Þá er rekstur sjóðsins í samræmi við samfélagsstefnu Íslandsbanka, sem sett hefur sér að vera hreyfiafl til góðra verka í samfélaginu.

Frá stofnun hefur sjóðurinn styrkt margvísleg verkefni um 215 milljónir króna. Umsóknum hefur fjölgað nokkuð milli ára, voru 90 á síðasta ári en 132 í ár. Fjölbreyttir hópar af landsbyggð og höfuðborgarsvæði standa að verkefnunum, en 27 prósent teymanna voru eingöngu skipuð konum, 15 prósent bara skipuð körlum og 58 prósent blönduð. Umsóknartímabil sjóðsins í ár var frá 27. september til 1. nóvember.

Okkur finnst sérlega ánægjulegt að sjá umsóknum fjölga svo milli ára en í fjölguninni endurspeglast sú gróska sem er til staðar í frumkvöðlastarfi hér á landi. Verkefni með uppruna á landsbyggðinni koma líka sterk inn en af þessum fjórtán sem fá úthlutun eru sex af landsbyggðinni, þó að skipting umsókna hafi verið 100 af höfuðborgarsvæðinu og 32 utan þess, eða tæpur fjórðungur. Þá gaman að sjá ákveðið jafnræði kynjanna í umsóknum en af þeim sem fengu úthlutun eru öll blönduð, utan eitt sem eingöngu er skipað konum. Mælistikan sem við leggjum á verkefnin er hins vegar hvort þau styðji við þau fjögur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem Íslandsbanki horfir til.

Una Steinsdóttir
Framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka

Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka er fjármagnaður með 0,1% mótframlagi Íslandsbanka af innstæðum Vaxtasprota sparnaðarreikninga á ársgrundvelli. Stjórn sjóðsins skipa Ari Kristinn Jónsson, fyrrverandi rektor Háskólans í Reykjavík, Ragnheiður H. Magnúsdóttir, stofnandi englafjárfestingafélagsins Nordic Ignite og ráðgjafi hjá Möggum og Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.  

Verkefnin sem Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka styrkti í ár eru: