Íslandsbanki semur um villuveiðigátt Defend Iceland

Íslandsbanki hefur skrifað undir samning um notkun villuveiðigáttar fyrirtækisins Defend Iceland.


Íslandsbanki er á meðal fyrstu fyrirtækja til að taka í notkun villuveiðigátt Defend Iceland, en í henni leiða saman krafta sína öryggissérfræðingar úr mörgum áttum og með ólíkan bakgrunn til að koma í veg fyrir alvarleg innbrot í net-, tölvu- og hugbúnaðarkerfi fyrirtækja og stofnana. 

Árni Geir Valgeirsson, forstöðumaður á upplýsingatæknisviði Íslandsbanka:

„Íslandsbanki leggur mikla áherslu á netöryggismál og verndum gagna. Samningurinn við Defend Iceland er góð viðbót við þær þegar yfirgripsmiklu netvarnir sem til staðar eru í bankanum. Um leið fögnum við tækifærinu til að geta, í krafti stærðar bankans, verið hreyfiafl til góðra verka með því að taka þátt í samfélagslegu verkefni sem miðar að því að gera innviði landsins traustari og betri.“ 

Theódór Ragnar Gíslason, framkvæmdastjóri og stofnandi Defend Iceland:

„Það er mikið gleðiefni að fá Íslandsbanka í lið með okkur. Hjá Defend Iceland trúum við því að villuveiðigáttir eins og okkar séu langbesta leiðin til að koma í veg fyrir að tölvuglæpamenn geti valdið tjóni hjá fyrirtækjum og stofnunum. Íslandsbanki hefur lengi sett netöryggismál á oddinn og það er ánægjulegt að hann sér þetta sömu augum. Til að verkefni eins og þetta gangi upp þarf leiðandi fyrirtæki til að leggja línuna og taka þátt. Við fögnum innilega þátttöku Íslandsbanka og hlökkum til að starfa með þeim í framtíðinni.“ 

Villuveiðigáttir (e. bug bounty platform) eru leið fyrirtækja að lögmætri þjónustu sérfræðinga þar sem hermdar eru aðferðir tölvuhakkara til að leita með markvissum hætti að veikleikum í upplýsingatæknikerfum þeirra. Með þessu er flýtt fyrir þéttingu varna í tölvukerfum fyrirtækja svo fyrirbyggja megi tjón og öryggisrof.

Frekari upplýsingar um Verjum Ísland/ Defend Iceland er að finna hér: https://defendiceland.is

Mynd:

Theódór Ragnar Gíslason framkvæmdastjóri og stofnandi Defend Iceland og Árni Geir Valgeirsson forstöðumaður á upplýsingatæknisviði Íslandsbanka.