Íslandsbanki og lífeyrissjóðir fjármagna byggingu Ölfusárbrúar

Áætlaður heildarkostnaður á verkinu eru 17,9 milljarðar króna og eru verklok áætluð haustið 2028. Gert er ráð fyrir að tíu þúsund bifreiðar fari um brúna á degi hverjum.


Íslandsbanki hefur, ásamt Birtu lífeyrissjóði, Lífeyrissjóði verzlunarmanna og LSR, skrifað undir samning við ÞG Verk um framkvæmdafjármögnun á byggingu nýrrar Ölfusár­brúar.

Áætlaður heildarkostnaður á verkinu eru 17,9 milljarðar króna og eru verklok áætluð haustið 2028. Gert er ráð fyrir að umferð verði hleypt á brúna haustið 2028 og að jafnaði fari um tíu þúsund bifreiðar um hana á degi hverjum þegar hún verður komin í notkun. Ný Ölfusárbrú er mikilvæg framkvæmd á einum fjölfarnasta vegkafla hringvegarins og kemur til með að létta álagi á núverandi brú, sem byggð var fyrir 80 árum og annar illa því mikla umferðarálagi sem á henni er. 

Íslandsbanki er stoltur af því að leiða fjármögnun Ölfusárbrúar, eins stærsta innviðaverkefnis sem ráðist hefur verið í á Suðurlandi, en brúin verður mikil samgöngubót fyrir svæðið og samfélagið í heild. Íslandsbanki hefur haldið á lofti merki þess að þörf sé á að huga að þeirri fjárfestingarþörf sem hefur myndast um innviði landsins og lagt áherslu á mikilvægi samvinnuverkefna við fjármögnun þeirra. Íslandsbanki vill leggja sitt af mörkum til þess að brýn verkefni, líkt og ný Ölfusárbrú, komist til framkvæmda.

Verkið er bæði umfangsmikið og krefjandi, og það er ánægjulegt að styðja viðskiptavin bankans til margra ára, ÞG Verk, í jafn þýðingarmiklu verkefni.

Mynd: Tölvuteiknuð mynd tekin af vefsíðu Vegagerðarinnar.