Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki hf. selur eignarhluti í Borgun hf.


Íslandsbanki hefur í dag lokið sölu á 63,5% hlut bankans í Borgun hf. til Salt Pay Co Ltd. Samhliða sölu Íslandsbanka kaupir Salt Pay Co einnig eignarhlut Eignarhaldsfélagsins Borgunar slf. og mun í kjölfar kaupanna fara með 95,9% hlutafjár í Borgun.

Kaupverðið er trúnaðarmál en salan mun hafa óveruleg áhrif á rekstur bankans. Leiðrétt fyrir rekstri Borgunar hefðu þóknanatekjur samstæðu Íslandsbanka fyrir árið 2019 dregist saman um 13%, rekstrargjöld lækkað um 13% og kostnaðarhlutfall lækkað um fjögur prósentustig. Salan hefur jákvæð áhrif á eiginfjárhlutföll bankans og lausafjárhlutföll lækka lítillega, en eru þó enn vel yfir markmiðum bankans og kröfum eftirlitsaðila.

Formlegt söluferli á hlut bankans í Borgun hófst í upphafi árs 2019, sbr. tilkynningu Íslandsbanka dags. 11. janúar 2019 og var kaupsamningur undirritaður 11. mars síðastliðinn. Um var að ræða opið og gagnsætt söluferli í umsjón svissneska ráðgjafarfyrirtækisins Corestar Partners og fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka.

Íslandsbanki óskar Borgun og nýjum eigendum velfarnaðar í framtíðarrekstri félagsins.

Um Borgun:
Borgun hf. var stofnað árið 1980 og gaf út fyrsta kreditkortið á Íslandi. Stöðugildi hjá fyrirtækinu eru nú tæplega 130 og skiptist starfsemin í þrennt. Í fyrsta lagi kortaútgáfa en fyrirtækið gefur út greiðslukort fyrir Íslandsbanka og Aur. Í öðru lagi í færsluhirðingu en starfsemin fer einkum fram í sex löndum; Íslandi, Bretlandi, Ungverjalandi, Tékklandi, Slóvakíu og Króatíu. Og í þriðja lagi í útlán, en þau fara m.a. fram með vöru- og þjónustukaupalánum í gegnum fjölda seljenda. Í kjölfar kaupanna munu Ali Mazanderani og Daniela Mastrorocco taka sæti í stjórn Borgunar.

Um Salt Pay Co.
Salt Pay er alþjóðlegt greiðslumiðlunarfyrirtæki með starfsemi í fjórtán löndum. Fyrirtækið sérhæfir sig í vörum og þjónustu er tengjast vildarþjónustu og CRM lausnum. Núverandi starfsemi Salt Pay styður því vel við starfsemi Borgunar.
Forsvarsmenn Salt Pay hafa víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja í greiðslumiðlun og fjártækni.

Nán­ari upp­lýs­ing­ar veita


Mar­grét Lilja Hrafn­kels­dótt­ir

Fjárfestatengsl


Senda póst
8444033

Edda Her­manns­dótt­ir

Markaðs- og samskiptastjóri


Senda póst
8444005