Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki hf. selur eignarhluti í Borgun hf.

Íslandsbanki hefur í dag undirritað kaupsamning um sölu á 63,5% hlut Íslandsbanka í Borgun hf. til Salt Pay Co Ltd. Samhliða sölu Íslandsbanka kaupir Salt Pay Co einnig eignarhlut Eignarhaldsfélagsins Borgunar slf. og mun í kjölfar kaupanna fara með 95,9% hlutafjár í Borgun.


Kaupverðið er trúnaðarmál en salan  mun hafa óveruleg áhrif á rekstur bankans. Leiðrétt fyrir rekstri Borgunar hefðu þóknanatekjur samstæðu Íslandsbanka fyrir árið 2019 dregist saman um 13%, rekstrargjöld lækkað um 13% og kostnaðarhlutfall lækkað um fjögur prósentustig. Salan hefur jákvæð áhrif á eiginfjárhlutföll bankans og lausafjárhlutföll lækka lítillega, en eru þó enn vel yfir markmiðum bankans og kröfum eftirlitsaðila.

Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands veiti samþykki fyrir virkum eignarhlut kaupanda. Íslandsbanki mun frá og með deginum í dag flokka Borgun sem eign haldin til sölu til afhendingardags.

Formlegt söluferli á hlut bankans í Borgun hófst í upphafi árs 2019, sbr. tilkynningu Íslandsbanka dags. 11. janúar 2019. Um var að ræða opið og gagnsætt söluferli í umsjón svissneska ráðgjafarfyrirtækisins Corestar Partners og fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka.

Um Borgun:

Borgun hf. var stofnað árið 1980 og gaf út fyrsta kreditkortið á Íslandi. Stöðugildi hjá fyrirtækinu eru nú ríflega 130 og skiptist starfsemin í þrennt. Í fyrsta lagi kortaútgáfa en fyrirtækið gefur út kreditkort fyrir Íslandsbanka og Aur. Í öðru lagi í færsluhirðingu en starfsemin fer einkum fram í sex löndum; Íslandi, Bretlandi, Ungverjalandi, Tékklandi, Slóvakíu og Króatíu. Og í þriðja lagi í útlán, en þau fara m.a. fram með vöru- og þjónustukaupalánum í gegnum fjölda seljenda.

Um Salt Pay Co.

Salt Pay er alþjóðlegt greiðslumiðlunarfyrirtæki með starfsemi í fjórtán löndum. Fyrirtækið sérhæfir sig í vörum og þjónustu er tengjast vildarþjónustu og CRM lausnum. Núverandi starfsemi Salt Pay styður því vel við starfsemi Borgunar.

Salt var stofnað af frumkvöðlum sem eru á bak við nokkur af helstu greiðslumiðlunarkerfi heims.Hugmyndafræðin fyrirtækisins er að einfalda líf viðskiptavina með betri þjónustu.

Nánari upplýsingar veita


Edda Hermannsdóttir

Markaðs- og samskiptastjóri


Senda póst
8444005

Margrét Lilja Hrafnkelsdóttir

Fjárfestatengsl


Senda póst
8444033