Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki hf. : Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2015

Hagnaður bankans eftir skatta var 5,4 ma. kr. á fyrsta ársfjórðungi 2015 samanborið við 8,3 ma. kr. á sama tímabili 2014 en þá voru tekjur af einskiptisliðum umfangsmeiri.


Helstu niðurstöður

1F 2015

  • Hagnaður bankans eftir skatta var 5,4 ma. kr. á fyrsta ársfjórðungi 2015 samanborið við 8,3 ma. kr. á sama tímabili 2014 en þá voru tekjur af einskiptisliðum umfangsmeiri.
  • Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 11,8% á fjórðungnum samanborið við 19,3% á sama tímabili 2014. 
  • Eiginfjárhlutfallið er sterkt, var 28,4% (2014: 29,6%) og eiginfjárhlutfall A (Tier 1) var 25,7% (2014: 26,5%).
  • Hreinar vaxtatekjur voru 6,2 ma. kr. á fyrsta ársfjórðungi 2015 (1F14 6,6 ma. kr.), sem er lækkun um 6,8%. Vaxtamunur var 2,7% á fjórðungnum (1F14: 3,0%).
  • Hreinar þóknanatekjur voru 2,9 ma. kr. (1F14: 2,9 ma. kr.). 
  • Stjórnunarkostnaður lækkaði um 1.5% eða raunlækkun um 2.6%. Kostnaðarhlutfall var 55,3% á fjórðungnum (1F14: 55,1%). Bankaskattur og einskiptiskostnaður er undanskilinn við útreikning kostnaðarhlutfalls. 
  • Vogunarhlutfall var 19,7% við lok tímabilsins, sem telst hóflegt í alþjóðlegum samanburði.
  • Hlutfall lána með varúðarafskrift og lána með vanskil umfram 90 daga var 3,0% (2014: 3,5%).
  • Heildareignir voru 926 ma. kr. (2014: 911ma. kr.). 

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

„Við erum ánægð með afkomu bankans á fyrsta ársfjórðungi sem var umfram væntingar okkar. Kostnaður heldur áfram að lækka enda mikilvægt að styrkja enn frekar arðsemi af reglulegri starfsemi. Góður árangur í rekstri bankans hefur skilað því að lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings mat bankann, fyrstan hér á landi frá árinu 2008, í fjárfestingarflokk með stöðugum horfum. Sú niðurstaða er til þess fallin að skila bankanum hagstæðari kjörum í komandi skuldabréfaútgáfum bankans. 

Íslensk fyrirtæki eru nú í auknum mæli að nýta sér áhættustýringarvörur til að lágmarka rekstraráhættu og skapa sér fyrirsjáanlegt fjárhagslegt umhverfi. Þetta sýnir sig í auknum vexti í sölu áhættustýringarvara hjá Mörkuðum, sem er enn eitt batamerkið á fjármálamarkaðinum. 

Aukning í nýjum húsnæðislánum var tæp 60% á fjórðungnum miðað við sama tímabil í fyrra. Við sjáum vaxandi eftirspurn eftir fyrstukaupalánum hjá viðskiptavinum sem eru að festa kaup á sinni fyrstu íbúð.

Þjónusta í útibúum hefur breyst nokkuð síðustu ár en viðskiptavinir leita í auknum mæli eftir ráðgjöf en framkvæma einfaldari færslur með öðrum dreifileiðum, svo sem netbanka og appi. Nýtt útibú sem opnað var í vikunni mætir þessum breyttu áherslum en þar voru útibúin í Lækjargötu og Eiðistorgi sameinuð í eitt útibú á Granda. Það er einnig í samræmi við áætlanir bankans um hagræðingu um leið og áhersla er lögð á að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu sem tekur mið að þörfum þeirra.

Símafundur á ensku

Einnig er markaðsaðilum boðið upp á símafund kl. 13.00 á ensku. Farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum og afkomu bankans. Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með að senda póst á ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila 2 tímum fyrir fundinn.

Öll gögn má nálgast á vef fjárfestatengsla, www.islandsbanki.is/fjarfestatengsl

Hér má sjá upptöku þar sem Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóra Íslandsbanka, segir frá því markverðasta í rekstri bankans á fyrsta ársfjórðungi.

Nánari upplýsingar