Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki hættir að gefa plastvörur til barna

Íslandsbanki mun hætta að gefa plast- og gjafavörur til barna- og unglinga á vormánuðum til að sporna við mengun og sóun. Þetta er liður í innleiðingu á fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna inn í stefnu bankans.


Íslandsbanki mun hætta að gefa plast- og gjafavörur til barna- og unglinga á vormánuðum  til að sporna við mengun og sóun. Þetta er liður í innleiðingu á fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna inn í stefnu bankans. Þau markmið eru; aðgerðir í loftslagsmálum, jafnrétti kynjanna, menntun fyrir alla og nýsköpun. Nýr og umhverfisvænn Georgs sparibaukur mun líta dagsins ljós og leysa af hólmi plastbaukinn. Upphaflegu skilaboð Georgs voru tengd umhverfismálum og má búast við fleiri slíkum skilaboðum frá þessu vingjarnlega lukkudýri bankans.

Í stað gjafavöru verður enn meiri áhersla lögð á upplifun í útibúum og í gegnum stafrænar leiðir bankans. Georg og félagar er app sem hefur notið mikilla vinsælda og munu fleiri myndbönd með Georg bætast í hópinn. Krakkabankinn hefur einnig slegið í gegn að undanförnu en skemmtanir hafa verið haldnar á laugardögum þar sem útibú bankans í Norðurturni hefur fyllst af börnum þegar galdramenn, rapparar og leikarar hafa stigið á stokk.

Starfsfólk bankans hefur unnið saman að innleiðingu stefnunnar og hvernig vinna megi með heimsmarkmiðin fjögur í daglegum störfum. Þetta er því aðeins hluti af þeim verkefnum sem framundan eru í tengslum við umhverfismál.

Edda Hermannsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka:

„Það hefur enginn farið varhluta af umræðu um plastnotkun og áhrifum þess á umhverfið. Hjá okkur eru tugir þúsunda gjafavara og þar af mest plast. Þessi ákvörðun er í takt við nútímasamfélag þar sem fyrirtæki eiga að huga að umhverfismálum í rekstri sínum. Við erum stolt af því að hafa innleitt heimsmarkmiðin í okkar daglegu störf og viljum við sýna það í verki. Íslandsbanki er stór vinnustaður í íslensku atvinnulífi og viljum við vera jákvætt hreyfiafl til góðra verka“.