Íslandsbanki hefur í dag gefið út fyrsta skuldabréf bankans sem telur til víkjandi eiginfjárþáttar 1 (e. Additional Tier 1). Útgáfan er liður í bestun á efnahagsreikningi bankans og er að fjárhæð 750 milljónir sænskra króna með innköllunarheimild af hálfu útgefanda eftir 5 ár. Töluverð umframeftirspurn var eftir útgáfunni sem seld var til fjárfesta í Skandinavíu og á meginlandi Evrópu.
Útgáfan ber 475 punkta álag ofan á þriggja mánaða millibankavexti í sænskum krónum og felur í sér tímabundna niðurfærslu (e. temporary writedown) lækki hlutfall almenns eiginfjár þáttar 1 (e. CET 1) niður fyrir 5,125%. Búist er við að útgáfan fái lánshæfismatseinkunnina BB- frá S&P Global Ratings. Stefnt er að skráningu skuldabréfanna í Kauphöllina á Írlandi þann 28. september 2021.
Ráðgjafi bankans í ferlinu var UBS Investment Bank. Umsjónaraðilar útboðsins voru Danske Bank A/S, Skandinaviska Enskilda Banken AB (Publ) og UBS Investment Bank.