Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íslandsbanki fjárfestir í Payday

Íslandsbanki og Payday hafa skrifað undir samstarfssamning ásamt því að Íslandsbanki hefur fjárfest í félaginu.


Payday býður upp á þjónustu sem einfaldar reikningagerð, launagreiðslur, bókhald og skil á virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum og mun Íslandsbanki kynna þá lausn fyrir viðskiptavinum sínum auk þess að bjóða aðstoð við að tengjast þjónustunni.

Fjárfestingin og samstarfið milli Íslandsbanka og Payday er þáttur í aukinni áherslu bankans á samstarf við félög á sviði fjártækni. Miklar breytingar á bankastarfsemi eiga sér stað um allan heim og telur bankinn að fjártæknifélög eins og Payday muni leika stærra hlutverk í víðtækari bankaþjónustu en áður. Íslandsbanki vill stuðla að betri þjónustu við viðskiptavini sína og þetta samstarf er liður í þeirri vegferð að opna bankann og vera virkur þátttakandi í stækkandi vistkerfi fjártækninnar.

Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabanka Íslandsbanka:

„Íslandsbanki hefur verið í hópi þeirra fyrirtækja sem styðja við bakið á nýsköpun. Næstu ár munu færa okkur fjölmargar nýjar lausnir fyrir einstaklinga og fyrirtæki í gegnum fjártækni og opna bankaþjónustu. Við ætlum okkur að vera í fararbroddi og taka virkan þátt í þessari vegferð. Payday er fyrirmyndardæmi um frábæra lausn sem er einföld í notkun og aðgengileg. Lausnin einfaldar utanumhald smærri fyrirtækja sem gerir þeim mögulegt að nýta kraftana í að vaxa enn frekar. Íslandsbanki ætlar sér að vera #1 í þjónustu og samstarfið við Payday gerir okkur kleift að gera það enn betur en áður.“

Björn Hr. Björnsson, framkvæmdastjóri Payday:

„Samningurinn felur í sér tækifæri fyrir báða aðila og er liður í þeirri sókn sem Payday hefur verið í frá stofnun fyrirtækisins. Það er hagur fyrir fyrirtækið að fara í samstarf við aðila sem nýtur trausts og virðingar á markaði. Ljóst er að samstarfið mun gera Íslandsbanka kleift að þjónusta sína viðskiptavini enn betur og fela í sér frekari sóknartækifæri fyrir Payday og enn frekari þróun á viðskiptalausnum Payday.“