Íslandsbanki er góð fyrirmynd fyrir innlendan markað og fær framúrskarandi einkunn í UFS mati Reitunar. Bankinn fær 90 stig sem er mesti fjöldi UFS stiga sem Reitun hefur gefið að svo stöddu. Meðaltal innlendra aðila er nú 63 stig af 100 mögulegum.
Horft er til þriggja meginþátta við UFS mat, umhverfisþátta, félagsþátta og stjórnarhátta. Hæst skorar bankinn í félagsþáttum, eða 97 stig, en í umsögn Reitunar kemur fram að bankinn standi vel að mannauðsmálum og vinnustaðagreiningar sýni háa starfsmannaánægju. Viðskiptaánægja og tengsl við samfélagið eru metin vera í góðum farvegi og hlýtur hann hæstu stig fyrir flokkinn. Þá fær bankinn 88 stig í stjórnarháttum og 85 stig í umhverfisþáttum.
Einn af stærri áhættuþáttum fyrir fjármálafyrirtæki er hvernig UFS þættir eru innleiddir inn í eignastýringa-og lánastarfsemi. Í úttekt Reitunar kemur fram að bankinn vinnur vel að því. Íslandsbanki hefur skuldbundið sig að vinna eftir viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi (e. UN PRB), er þátttakandi í PCAF samstarfi um mælingu á kolefnisspori lána-og eignasafns og í áhættuskýrslu bankans fyrir árið 2020 er sérstakur kafli um sjálfbærni-og loftlagsáhættu sem fylgir alþjóðlegum TCFD viðmiðum. UFS áhættumat fyrir lánveitingar hefur verið þróað áfram og er miðað að því að styðja við viðskiptavini á þeirra sjálfbærnivegferð.Meðal þeirra þátta sem Íslandsbanki hefur ráðist í við innleiðingu er birting á sjálfbærum fjármálaramma haustið 2020. Bankinn hefur ráðist í sjálfbærnitengdar skuldabréfaútgáfur og aukið vöruframboð sem samrýmast sjálfbærnimarkmiðum bankans. Þannig má sem dæmi nefna að viðskiptavinum bjóðast hagstæðari kjör á sjálfbærum fyrirtækjalánum, vistvænum bílalánum, grænum húsnæðislánum og ýmsir grænir fjárfestingakostir. Eigin rekstur bankans hefur verið kolefnisjafnaður að fullu frá árinu 2019 en bankinn vinnur nú auk þess að metnaðarfullu markmiði um ná kolefnishlutleysi í allri starfsemi fyrir árið 2040.