Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ísland dýrasti áfangastaður Evrópu

Verðlag á Íslandi var 84% hærra en að meðaltali í aðildarríkjum ESB árið 2017.


Verðlag á Íslandi var það hæsta í Evrópu og 84% hærra en að meðaltali í aðildarríkjum ESB árið 2017. Verðlag hér á landi var nokkuð hærra en í Noregi og Sviss sem skipa annað og þriðja sæti á lista þeirra þjóða með hæsta verðlagið innan ESB árið 2017. Ísland er því eitt dýrasta land Evrópu um þessar mundir  og að öllum líkindum einn dýrasti áfangastaður heims fyrir ferðamenn, þrátt fyrir gengisveikingu krónunnar síðan 2017.

Vorum með umtalsvert samkeppnishæfara verðlag fyrir ferðamenn árið 2010

Á árinu 2010 var verðlag í Noregi og í Danmörk á sömu vöru- og þjónustuflokkum hærra en á Íslandi og var Ísland í þriðja sæti, á pari við Sviss sem var í fjórða sæti yfir Evrópuþjóðir með hæsta verðlagið fyrir ferðamenn. Þá var verðlag hér á landi um þriðjungi hærra (32%) en að meðaltali í aðildarríkjum ESB. Munur á verðlagi hér og að meðaltali hjá aðildarríkjum ESB hefur því hækkað um 52 prósentustig frá árinu 2010. Krónan styrktist á sama tímabili um 35% og má því gróflega áætla að gengisáhrif skýri um tvo þriðju hluta áðurgreindrar hækkunar. Restin hlýtur þá að skýrast af innlendum verðlagshækkunum umfram þær sem áttu sér stað hjá öðrum þjóðum sem hér eru til samanburðar.

Áfengir drykkir þrefalt dýrari hér en innan ESB

Verðlag er hæst hér á landi í sex af sjö vöru- og þjónustuflokkum sem hér eru til skoðunar samanborið við allar þjóðir sem gagnagrunnur Eurostat nær til. Eina tilfellið þar sem hæsta verðlagið er ekki á Íslandi er í flokknum matur og óáfengir drykkir en þar er verðlag hærra í Sviss og Noregi. Áðurgreind hækkun á verðlagi hérlendis samanborið við verðlag annarra Evrópuþjóða er að mestu vegna hækkunar á áfengum drykkjum og gisti- og veitingaþjónustu. Þessir tveir liðir eru bæði þeir dýrustu m.v. verðlag annarra Evrópuþjóða og hafa einnig hækkað mest.

Hátt verðlag skerðir samkeppnishæfni Íslands sem áfangastað fyrir ferðamenn

Í skýrslu World Economic Forum sem gefin var út árið 2017 um samkeppnishæfni landa í ferðaþjónustu er Ísland í 25. sæti af 136 löndum. Þeir þættir sem Ísland skorar hátt í er öryggi, vinnumarkaður og mannauður auk forgangsröðunar stjórnvalda á ferðaþjónustu. Hins vegar skorar Ísland lágt á sviði verðlags, samgangna á landi, menningarverðmæta og ráðstefnutengdri ferðamennsku. Ísland mælist langlægst í samkeppnishæfni í verðlagi og er á meðal ósamkeppnishæfustu þjóða, í 132. sæti í þeim flokki.

Hátt verðlag lands og góð lífsskilyrði íbúa þess hanga saman

Ósamkeppnishæft verðlag hér á landi ætti ekki að koma á óvart í ljósi þess að Ísland er nú dýrasti áfangastaður Evrópu og að öllum líkindum einn sá dýrasti á heimsvísu. Þær þjóðir sem teljast með samkeppnishæfasta verðlagið eru í flestum tilfellum með lága verga landsframleiðslu (VLF) á hvern íbúa. VLF á hvern íbúa er oft notað sem mælikvarði á lífsgæði milli landa. Einu löndin sem skora hærra í VLF á hvern íbúa og einnig í samkeppnishæfu verðlagi í ferðaþjónustu eru Noregur, Írland og Lúxemborg. Hátt verðlag og aukin lífsgæði hanga því að talsverðu leyti saman. Í því ljósi er það ekki alslæmt að Ísland sé ósamkeppnishæft í verðlagi á vörum og þjónustu í ferðaþjónustu. Það felur í sér ríkara svigrúm til að bjóða íbúum landsins aukin lífsgæði, m.a. í formi hærri launa, en þekkist víðast hvar annars staðar.

Gengisáhrifin lita upplifun ferðamanna

Ferðamannapúls Gallup hefur mælt heildarupplifun ferðamanna af Íslandsferðinni frá árinu 2016 og byggir mælingin á fimm vísitölum sem allar vega jafnt. Meðalgildi allra vísitalnanna lækkaði á árinu 2017 en hækkaði svo aftur á árinu 2018. Mesta hreyfingin átti sér stað á vísitölunni sem mælir hvort ferðamenn telji ferðina peninganna virði og hafði sú vísitala því mest áhrif á heildarupplifun ferðamanna af dvöl sinni hérlendis. Þegar gengisvísitalan er skoðuð samhliða hreyfist hún í takt við upplifun ferðamanna af verðlaginu, styrkist þegar ferðamaðurinn telur verðlag fara versnandi og veikist þegar ferðamaðurinn telur verðlag fara batnandi hér á landi. Þannig lita gengisáhrifin upplifun ferðamanna af dvöl sinni hér á landi að einhverju leyti. Gengisvísitalan styrktist þó meira en sem nemur verri upplifun ferðamanna af verðlagi landsins en hún var að jafnaði um 7% sterkari á árinu 2018 miðað við árið 2016. Virðist því sterkari króna ekki endurspeglast að fullu í verri upplifun ferðamanna af verðlagi hér á landi. Er það jákvætt fyrir greinina enda felur það í sér minni skerðingu á samkeppnishæfni greinarinnar en ella.

Versnandi ánægja ferðmanna með verðlagið hér á landi

Meðaltal vísitölunnar sem mælir ánægju ferðamanna með verðlag stóð einna hæst hjá Bandaríkjamönnum. Bandarískir ferðamenn upplifðu verðlagið þó um 4% verr á síðastliðnu ári en að jafnaði yfir árið 2016. Allir ferðamenn, óháð þjóðerni, upplifðu verðlagið um 2% verra á síðastliðnu ári en á árinu 2016 að jafnaði. Hefur því upplifun bandarískra ferðamanna af verðlagi landsins versnað meira en upplifun ferðamanna annarra þjóða. Írar, Frakkar og Bretar upplifa verðlagið hér á landi verst allra ferðamanna og hefur upplifun ferðamanna frá áðurgreindum þjóðum af verðlagi landsins einnig versnað meira en upplifun ferðamanna almennt. Í ljósi dvínandi ánægju ferðamanna með verðlag hér á landi, sem nú er orðið það hæsta í Evrópu og eitt það ósamkeppnishæfasta í heimi, verður að teljast líklegt að lítið sem ekkert svigrúm sé fyrir frekari verðlagshækkanir umfram aðrar þjóðir gagnvart ferðamönnum sem hingað ferðast.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna hér á landi sem gefin verður út fimmtudaginn 2. maí næstkomandi.

Áhugasamir geta skráð sig á útgáfufund skýrslunnar á Hilton Reykjavík Nordica kl. 08:30 hér.

Höfundur


Elvar Orri Hreinsson

Sérfræðingur í Greiningu Íslandsbanka


Senda tölvupóst