Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íbúðaverð leiðir aukna verðbólgu í október

Húsnæðisliðurinn skýrir nær helming 0,6% hækkunar vísitölu neysluverðs í októbermánuði. Ekkert lát er á hækkun íbúðaverðs en verðbólguþrýstingur á sér þó talsvert fleiri rætur þessa dagana. Skammtíma verðbólguhorfur hafa versnað undanfarna mánuði en þó eru enn horfur á að verðbólga hjaðni að markmiði Seðlabankans fyrir lok næsta árs.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,59% í október samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 4,5% en var 4,4% í september. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,47% í október og m.v. þá vísitölu mælist 3,0% verðbólga undanfarna 12 mánuði. Það er því talsverður munur á verðbólgu með eða án húsnæðis, en á hinn bóginn sýnir síðarnefnda mælingin að verðbólguþrýstingur er fremur almennur um þessar mundir.

Mæling októbermánaðar er í efri kantinum miðað við opinberar spár.  Við spáðum 0,5% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,5% – 0,6% hækkun milli mánaða.  Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur meðal annars í húsnæðislið VNV, bæði reiknaðri húsaleigu og viðhaldskostnaði, ásamt húsgagna- og heimilisbúnaðarliðnum en þessir liðir hækkuðu nokkuð umfram okkar spá. Á móti lækkuðu flugfargjöld talsvert á milli mánaða ólíkt því sem við væntum.

Húsnæðisliðurinn verðbólguvaldur

Líkt og undanfarna mánuði var húsnæðisliður VNV atkvæðamestur í hækkun hennar í október. Í heild hækkaði liðurinn um um tæp 0,9% (0,28% í VNV) og skýrir hækkun hans nærri helming heildarhækkunar VNV milli mánaða. Þar munar mestu um liðinn reiknuð húsaleiga sem hækkaði um 1,4% frá síðasta mánuði (0,23% í VNV). Viðhaldsliðurinn á húsnæði hækkaði einnig um 0,8% (0,05% í VNV) en greidd húsaleiga stóð aftur á móti í stað milli mánaða samkvæmt mælingu Hagstofunnar.

Reiknuð húsaleiga endurspeglar að langstærstum hluta þróun íbúðaverðs og birtir Hagstofan samhliða VNV mælingu sína á markaðsverði íbúðarhúsnæðis. Mest var mánaðarhækkunin á landsbyggðinni (2,7%) en á höfuðborgarsvæðinu hækkaði verð sérbýla um 0,8% milli mánaða og verð íbúða í fjölbýli um 1,1%.

Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 15,1% á mælikvarða Hagstofunnar. Svo hröð hefur hækkun íbúðaverðs ekki verið í fjögur ár. Mest hefur hækkunin verið á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu (18,8%) en íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæði hefur hækkað um ríflega 14% og sömu sögu er að segja af íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni. Ekkert lát er því enn sem komið er á verðþrýstingi á íbúðamarkaði og verður fróðlegt að sjá hvort vaxtahækkun og þrengri reglurammi um greiðslubyrði íbúðalána sem Seðlabankinn tilkynnti á haustdögum slær eitthvað á eftirspurnina á komandi vikum og mánuðum.

Verðbólgan er víða

Þótt húsnæðisliðurinn hafi skýrt stóran hluta hækkunar VNV að þessu sinni er verðþrýstingur þó talsvert víðar ef hinir ýmsu liðir vísitölunnar eru skoðaðir. Þar eru innfluttir vöruflokkar nokkuð áberandi. Eldsneytisverð hækkaði til að mynda um 4,2% á milli mánaða (0,13% í VNV) og er það mesta mánaðarhækkun þessa liðar í sex og hálft ár. Þá hækkun má rekja til heimsmarkaðsverðs á eldsneyti sem hefur hækkað gríðarlega frá áramótum og sér í lagi hefur hækkunartakturinn verið hraður nú á haustdögum.

Þá má nefna að verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækkaði um 1,3% milli mánaða (0,09% í VNV) , föt og skór um 1,0% (0,04% í VNV) og matvælaverð hækkaði um 0,4% (0,06% í VNV).

Fátt var um fína drætti hvað verðlækkun varðar í októbermánuði en þó lækkaði verð á flugfargjöldum um 3,6% (-0,05% í VNV).

Samsetning verðbólgunnar hefur breyst mikið undanfarið ár eins og sjá má af myndinni hér að neðan. Hefur húsnæðisliðurinn tekið við af innfluttum vörum sem þungamiðjan í verðbólgunni. Af 4,5% verðbólgu í október eru 2,0% vegna húsnæðisliðar, innlend þjónusta skýrir 1,1%, innfluttar vörur 1,0% og innlendar vörur ríflega 0,4%.

Það er þó ekki svo að verðbólguþrýstingurinn þessa dagana sé eingöngu bundinn við húsnæðisliðinn eins og sést best á því að verðbólga án húsnæðis (3,0%) mælist einnig yfir 2,5% markmiði Seðlabankans. Til að mynda hefur opinber þjónusta hækkað í verði um 3,4% undanfarið ár, önnur innlend þjónusta um 3,7%, innfluttar vörur um 3,0% og innlendar vörur um 2,9%. Verðbólgan á sér því margar rætur um þessar mundir þótt sú gildasta liggi vissulega niður í í húsnæðismarkaðinn.

Skammtíma verðbólguhorfur hafa versnað

Verðbólguhorfur til skemmri tíma litið hafa versnað jafnt og þétt undanfarna mánuði og svo er einnig nú, þar sem ekki sér enn fyrir endann á verðþrýstingi á íbúðamarkaði og áhrif hækkunar á aðfangaverði og flutningskostnaði erlendis frá eiga enn eftir að koma fram að fullu.

Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,3% hækkun í nóvember, 0,4% hækkun í desember og 0,2% lækkun vísitölunnar í janúar. Ef sú spá gengur eftir mun verðbólga mælast 5,0% í árslok en 4,8% í janúar. Í kjölfarið gerum við ráð fyrir því að styrking krónu, meiri verðstöðugleiki og hugsanlega verðlækkun á ýmsum innfluttum vörum og hægari hækkun íbúðaverðs leiði til hjöðnunar verðbólgu á komandi ári. Þó er ekki útlit fyrir að 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði náð fyrr en á lokafjórðungi næsta árs. Það ræðst svo ekki síst af niðurstöðu kjarasamninga að ári liðnu og því hvort jafnvægi næst á íbúðamarkaði með tímanum hvort verðbólgumarkmiðið heldur misserin þar á eftir.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband