Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 14,7% og hefur hækkunartakturinn ekki verið hraðari frá árslokum 2017. Hröðust er hækkunin á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu (18,2%) en hækkun íbúða í fjölbýli nemur 14,5% og húsnæði á landsbyggðinni hefur hækkað um 12,2% á sama tíma.
Rétt er að halda því til haga að mælingin nú tekur til kaupsamninga sem gerðir voru á tímabilinu júní-ágúst svo enn er áhrifa vaxtahækkunar Seðlabankans í ágústlok ekki farið að gæta í henni. Verður fróðlegt að sjá hvort ágústhækkunin, og sá allharði tónn sem þar var sleginn um mögulega frekari hækkun vaxta, nái að slá eitthvað á kaupgleðina á íbúðamarkaði. Líklega mun hann þó reynast líflegur eitthvað áfram.
Ýmsir liðir til hækkunar
Að húsnæðisliðnum undanskildum hafði liðurinn föt og skór mest áhrif til hækkunar vísitölunnar í september. Liðurinn hækkaði um 4,1% (0,15% áhrif á VNV) vegna áhrifa af útsölulokum sem teygðust fram yfir ágústmælingu Hagstofunnar. Matur og drykkjarvörur hækkuðu um 0,50% (0,07% áhrif á VNV) á milli mánaða þar sem verð á grænmeti og ávöxtum hafði mest áhrif til hækkunar. Ætla má að hér sé meðal annars að gæta áhrifa á miklum hækkunum á flutningskostnaði á heimsvísu undanfarið.
Aðrir liðir sem hækkuðu í verði á milli mánaða eru tómstundir og menning um 0,4% (0,04% áhrif á VNV) og aðrar vörur og þjónusta sem hækkaði einnig um 0,4% (0,03% áhrif á VNV).