Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Íbúðaverð helsta ástæða þrálátari verðbólgu

Líkt og flesta undanfarna mánuði skýrir hækkun íbúðaverðs drjúgan hluta hækkunar neysluverðs í september. Verðbólga mælist 4,4% og er nálægt þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Við teljum að verðbólga verði við efri þolmörkin á næstu mánuðum en taki að hjaðna í byrju næsta árs og verði komin við markmið á lokafjórðungi ársins 2022.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,47% í september skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga mælist nú 4,4% en var 4,3% í ágúst. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 2,9% undanfarna 12 mánuði.

Mæling septembermánaðar er í takti við okkar spá, en við spáðum 0,5% hækkun VNV milli mánaða. Það helsta sem skilur á milli okkar spár og mælingar Hagstofu er húsnæðisliðurinn sem hækkaði meira en við væntum en á móti lækkuðu flugfargjöld til útlanda sem við höfðum ekki gert ráð fyrir.

Íbúðamarkaður í sumarskapi

Reiknaða húsaleigan er sá liður sem kom okkur einna mest á óvart í septembermælingu Hagstofunnar á VNV. Liðurinn hækkaði um 1,7% milli mánaða en hann endurspeglar að langstærstum hluta þróun íbúðaverðs. Enn og aftur virðist íbúðamarkaður þróttmeiri en flestir væntu miðað við mælingu Hagstofunnar á markaðsverði íbúðarhúsnæðis. Milli mánaða hækkaði íbúðaverð um 1,75% og var hækkunin mest á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu (2,7% milli mánaða) en íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem og húsnæði á landsbyggðinni hækkaði um hálfa aðra prósentu á sama tíma.

Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 14,7% og hefur hækkunartakturinn ekki verið hraðari frá árslokum 2017. Hröðust er hækkunin á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu (18,2%) en hækkun íbúða í fjölbýli nemur 14,5% og húsnæði á landsbyggðinni hefur hækkað um 12,2% á sama tíma.

Rétt er að halda því til haga að mælingin nú tekur til kaupsamninga sem gerðir voru á tímabilinu júní-ágúst svo enn er áhrifa vaxtahækkunar Seðlabankans í ágústlok ekki farið að gæta í henni. Verður fróðlegt að sjá hvort ágústhækkunin, og sá allharði tónn sem þar var sleginn um mögulega frekari hækkun vaxta, nái að slá eitthvað á kaupgleðina á íbúðamarkaði. Líklega mun hann þó reynast líflegur eitthvað áfram.

Ýmsir liðir til hækkunar

Að húsnæðisliðnum undanskildum hafði liðurinn föt og skór mest áhrif til hækkunar vísitölunnar í september. Liðurinn hækkaði um 4,1% (0,15% áhrif á VNV) vegna áhrifa af útsölulokum sem teygðust fram yfir ágústmælingu Hagstofunnar. Matur og drykkjarvörur hækkuðu um 0,50% (0,07% áhrif á VNV) á milli mánaða þar sem verð á grænmeti og ávöxtum hafði mest áhrif til hækkunar. Ætla má að hér sé meðal annars að gæta áhrifa á miklum hækkunum á flutningskostnaði á heimsvísu undanfarið.

Aðrir liðir sem hækkuðu í verði á milli mánaða eru tómstundir og menning um 0,4% (0,04% áhrif á VNV) og aðrar vörur og þjónusta sem hækkaði einnig um 0,4% (0,03% áhrif á VNV).

Flugfargjöld til útlanda til lækkunar

Liðurinn ferðir og flutningar lækkaði um 0,5% (-0,07% áhrif á VNV) á milli mánaða. Þar togast á annars vegar flugfargjöld til útlanda og hins vegar bílar og eldsneyti.  Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 7% á milli mánaða (-0,10% áhrif á VNV) og hefur þessi liður nú lækkað um samtals 9% síðustu tvo mánuði. Má ætla að helsta ástæða fyrir lækkun í þessum lið sé vegna Delta-bylgju faraldursins sem olli því að ferðavilji fólks varð takmarkaður eftir mitt sumar. Auk þess gætir væntanlega einhverra ástíðaráhrifa. Á móti hækkaði verð á bílum um 0,3% (0,02% áhrif á VNV) og eldsneytisverð hækkaði um 1,1% (0,03% áhrif á VNV). Eldsneytisverð hefur nú hækkað um 14,4% frá áramótum enda hefur heimsmarkaðsverð á olíu og eldsneyti hækkað mikið frá ársbyrjun.

Aðrir liðir sem lækkuðu á milli mánaða voru húsgögn og heimilisbúnaður um 0,5% (-0,03% áhrif á VNV) og póstur og sími um 1,9% (-0,03% áhrif á VNV).

Horfur fyrir næstu mánuði

Útlit er fyrir að verðbólga verði við 4,0% efri þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans enn um sinn. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,3% hækkun VNV í október, 0,2% í nóvember og 0,3% hækkun vísitölunnar í desember. Miðað við þá spá verður verðbólga 4,4% í desember. Í kjölfarið er útlit fyrir að verðbólgan láti undan síga jafnt og þétt. Áætlum við að 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði loks náð að nýju á 3. ársfjórðungi 2022.

Forsenda þess að spá okkar gangi eftir er styrking krónunnar á komandi fjórðungum. Eins og við höfum nefnt gerum við ráð fyrir að krónan styrkist þegar ferðamenn taka að streyma til landsins í auknum mæli. Á móti virðist ekkert lát vera á íbúðaverðshækkunum um þessar mundir. Það getur vegið til aukinnar og þrálátari verðbólgu ef heldur áfram sem horfir. Auk þess gæti verðbólga verið þrálátari ef launahækkanir fara fram úr öllu hófi þótt dregið hafi úr óvissu í þeim efnum með nýlegri staðfestingu á gildistíma Lífskjarasamningana fram á lokafjórðung næsta árs.

Einnig höfum við töluverðar áhyggjur af innfluttri verðbólgu um þessar mundir. Áhrif faraldursins á verðlag hafa verið með þeim hætti að verð ýmissa vara hefur hækkað meira en góðu hófi gegnir og þá hefur flutningskostnaður aukist verulega. Miklar verðhækkanir erlendis verða til þess að verð á innfluttum vörum hækkar hér á landi þrátt fyrir styrkingu krónu og verði ekkert lát á þeim hækkunum gæti innflutt verðbólga orðið meiri en hér er spáð.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband