Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Í ljósi umræðu

Í markaðsstefnu bankans er unnið eftir heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, jafnrétti kynjanna, nýsköpun og menntun.


Í ljósi umræðunnar vill Íslandsbanki árétta nokkur atriði:

Íslandsbanki hefur sett sér þá stefnu að vera hreyfiafl til góðra verka. Í kjölfar stefnumótunar bankans var í samræmi við hana ákveðið að vinna að fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna; loftslagsmálum, jafnrétti kynjanna, nýsköpun og menntun.

Þessi stefna er að mati bankans í fullu samræmi við eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. Í fyrstu grein eigandastefnunnar segir að þeir sem koma að starfsemi fjármálafyrirtækja fyrir hönd ríkisins skuli leitast við að vera í forystu á sviði góðra stjórnarhátta, viðskiptasiðferðis og samfélagslegrar ábyrgðar. Íslenska ríkið gerir þarna ríkar kröfur til stjórnenda banka í ríkiseigu og mælir beinlínis fyrir um að stefnt skuli að forystu á sviði samfélagslegrar ábyrgðar. Það rímar vel við stefnu bankans um að vera með viðskiptavinum sínum hreyfiafl til góðra verka.

Víða innan bankans er unnið að samfélagslegum markmiðum. Í vikunni var greint frá því í stuttri blaðagrein hvernig það er gert í markaðsmálum. Við innkaup bankans er unnið eftir innkaupastefnu þar sem meðal annars er horft til umhverfs-, jafnréttis- og mannréttindamála. Bankinn vekur þannig athygli viðsemjenda á því til hvaða þátta er horft áður en ákvörðun er tekin um viðskipti.

Íslandsbanki hefur einsett sér og vill vera hreyfiafl til góðra verka. Bankinn á og vill eiga samtöl um þessa samfélagslega mikilvægu málaflokka við viðskiptavini sína, birgja og aðra haghafa. Slík samtöl eru gagnleg og lærdómsrík fyrir alla aðila leiða gjarnan til umbóta sem hafa jákvæð samfélagsleg áhrif.