Í gegnum brimskaflinn

Íslandsbanki og Reykjavik Economics hafa gefið út skýrsluna Í gegnum brimskaflinn – Efnahagur lítilla og meðalstórra fyrirtækja (LMF), þar sem farið er yfir rekstur og efnahag LMF á Íslandi. Skýrslan varpar bæði ljósi á eiginfjárstöðu og arðsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja hér á landi, en skoðar jafnframt áhrif vaxtahækkana, regluverks ásamt stöðu nýsköpunar, hugverkaiðnaðarins og jafnréttismála í viðskiptalífinu.


Helstu niðurstöður:

  • Hlutdeild LMF í atvinnulífinu er mikil – um 96% allra fyrirtækja tilheyra þessum flokki og þar starfar um 45%  alls starfsfólks í viðskiptahagkerfinu.
  • Eiginfjárhlutfall lítilla og meðalstórra fyrirtækja hefur styrkst á undanförnum árum.
  • Arðsemi minnkaði á milli 2022 og 2023, en var enn yfir langtímameðaltali.
  • Launakostnaður á föstu verðlagi hefur tvöfaldast frá 2010.
  • Gjaldþrot fyrirtækja hafa ekki verið fleiri frá því 2011 ef miðað er við fjölda þeirra á árinu 2023.
  • Vaxandi framleiðni bendir til bættrar nýtingar á mannauði meðal LMF.

Rekstrarumhverfi og helstu tölur
Fram kemur að eiginfjárhlutfall LMF hafi styrkst á tímabilinu þrátt fyrir ólíka stöðu fyrirtækja eftir atvinnugreinum. Velta fyrirtækja dróst aðeins saman milli ára, en launakostnaður á föstu verðlagi hefur tvöfaldast á síðasta áratug og náði meðallaunakostnaður á starfsmann um 9,7 m.kr. árið 2023.

Þrautseigja lítilla og meðalstórra fyrirtækja
Fyrirtækin sýndu mikla þrautseigju en arðsemi hefur gefið eftir og var að jafnaði miðað við rekstrartekjur um 8,8% frá 2011 til 2023. Arðsemin á árinu 2023 var 7,8% miðað við 11,6% á árinu 2022. Skýrsluhöfundar draga þá ályktun að rekstrarárið 2024 verið mörgum fyrirtækjum þungbært. Vaxtalækkunarferlið sem nú er hafið ætti að bæta hag fyrirtækja til framtíðar en óvissuþættir í viðskiptaumhverfinu eins og tollastríð geti þó haft neikvæð áhrif á afkomu fyrirtækjanna.

Vinnumarkaður í örum vexti
Í skýrslunni kemur fram að rúmlega 43 þúsund störf hafi bæst við viðskiptahagkerfið frá árinu 2011.  Flest þeirra starfa hafa orðið til í ferðaþjónustugeiranum.  Alls hefur landsmönnum fjölgað um 63 þúsund á sama tíma.

Mikilvægi einfaldara regluverks
Flókið regluverk og rík tilkynningarskylda hafa afar neikvæð áhrif á daglegan rekstur LMF, þar sem „gullhúðun“ reglugerða og langdregnir leyfisferlar auka kostnað og seinka allri uppbyggingu og hamla vexti.  Skýrslan vísar til Draghi-skýrslu ESB sem mælir með einfaldri stjórnsýslu, greiðara aðgengi að fjármagni og skýrara regluverki til að styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja.

Nýsköpun og hugverkaiðnaður eflist
Hugverkaiðnaðurinn er talinn fjórða stoð hagkerfisins og nam hlutdeild hans í heildariðnaðarframleiðslu  um 30% árið 2024, en var 23% árið 2008. Fjárfestingar í nýsköpunarsjóðum hafa aukist og íslensk fyrirtæki á borð við Alvotech, Kerecis og Controlant vakið alþjóðlega athygli. Skýrslan undirstrikar að mannauður og fjármögnun séu hornsteinar framtíðarvaxtar í greininni .

Hlutfallslega fleiri konur í framkvæmdastjórn stærri fyrirtækja
Lítil breyting hefur verið á fjölda kvenna í framkvæmdastjórn smærri fyrirtækja (1-50 stm.) á meðan  hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum hjá meðalstórum fyrirtækjum (50-100 stm.) hefur vaxið úr 14% árið 2016 í 20% árið 2024.  Sömu sögu er að segja hjá stærri fyrirtækjum (100+ stm). Framgangur kvenna hefur því  verið hraðari í stærri fyrirtækjum en þeim smærri.

Horfur í rekstri
Í skýrslunni kemur fram að rekstrarárið 2024 hafi reynst mörgum fyrirtækjum krefjandi vegna hækkandi vaxta og hárrar verðbólgu.  Vísað er til Fjármálastöðuleikaskýrslu Seðlabankans þar sem fram kemur að verðbólga og háir vextir hafir reynt á viðnámsþrótt fyrirtækja en að vanskilatölur bendi til þess að hann hafi verið nægur til að sporna við greiðsluerfiðleikum.  Þar segir einnig að  horfur fyrir árið 2025 séu óvissar en væntingar um mjúka lendingu hagkerfisins, hóflegan vöxt einkaneyslu, hjöðnun verðbólgu og vaxtalækkanir gefi von um að vanskil fyrirtækja hafi ef til vill þegar náð hámarki.