Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hvernig munum við nýta gögn til ákvarðanatöku og þjónustu árið 2050?

Snertingar okkar við umheiminn skilja eftir sig slóð gagna


Árið 2050 er rúmlega kvartöld fram í tímann, en á þeim tíma getur heimurinn þróast ansi mikið og í ýmsar áttir. Í dag eigum við öll snjallsíma og getum nýtt okkur gervigreind í fremstu röð eins og spjallmennið Chat GPT til þess að einfalda okkur lífið. Eitthvað sem fáir hefðu getað séð fyrir ef við lítum jafn mörg ár aftur í tímann, til ársins 1996. Því er nánast ómögulegt að segja hvernig heimurinn verður orðinn árið 2050.

En óháð því hvaða tækni verður til staðar árið 2050 er ljóst að allar þessar snertingar okkar við umheiminn skilja eftir sig slóð af gögnum. Gögn eru undirstaðan fyrir margar tækninýjungar og Chat GPT væri ekki mjög gagnlegt ef það hefði ekki haft nein gögn til þjálfunar.

Hingað til hafa mörg fyrirtæki verið dugleg að byggja ákvarðanir á tilfinningum. Í framtíðinni verðum við öll farin að treysta betur á gögnin til þess að leiðbeina okkur við þróun á vörum og hugbúnaði, við stórar viðskiptaákvarðanir og í allri þjónustu við viðskiptavini.

Ég vann eitt sinn með konu sem keypti sér alltaf kaffi á sama kaffihúsinu á leiðinni í vinnuna. Einn daginn þegar röðin var komin að henni var starfsmaðurinn búinn að setja pöntunina hennar af stað og það eina sem hún þurfti að gera var að borga og taka við bollanum. Starfsmaðurinn vissi nákvæmlega hvað þyrfti að gera fyrir viðskiptavininn, án þess að hafa verið beðinn um neitt.

Þetta er upplifunin sem við viljum að allir okkar viðskiptavinir hafi. Íslandsbanki ætlar að nýta gagnadrifnar aðferðir til að sjá fyrir hvað viðskiptavinir þurfa, nánast áður en þeir vita það sjálfir. Það getur enginn sagt með vissu hver heimsmynd okkar verður árið 2050, en það er alveg ljóst að gögnin munu vera aðalhráefnið sem við notum þá.

Höfundur


Kristín Björk Lilliendahl

Sérfræðingur í gagnavísindum