Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hver verða áhrif Úkraínustríðs á íslenskan efnahag?

Innrás Rússa í Úkraínu og viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum munu án efa hafa talsverð áhrif á efnahagsþróun hérlendis. Ísland er þó betur sett varðandi bein efnahagsáhrif en ýmis önnur lönd og ólíklegt virðist að efnahagsbatinn sem hófst á síðasta ári snúist upp í samdrátt.


Kunnara er en frá þurfi að segja að verð á margvíslegum hrávörum hefur rokið upp eftir að stríðið skall á í Úkraínu. Á það ekki síst við um jarðefnaeldsneyti, ýmsa málma, kornvörur og matarolíu enda eru Rússar og/eða Úkraínumenn stórir útflytjendur slíkra vara. Til að mynda kemur nærri 30% alls hveitis á heimsmarkaði frá löndunum tveimur og Rússland er næststærsti útflytjandi olíu á heimsvísu.

Eins og sjá má af myndinni höfðu ýmsar hrávörur þegar hækkað talsvert þegar innrás Rússa hófst. Þar er sumpart um að ræða áhrif af vaxandi eftirspurn og framleiðsluhnökrum á endaspretti Covid-faraldursins sem þegar var farin að setja mark sitt á seinni helming síðasta árs, auk þess sem árásarhugur Rússa í aðdraganda stríðsins hafði talsverð hækkunaráhrif vikurnar fyrir innrás.

Þessi þróun hefur margháttuð áhrif hérlendis líkt og í öðrum löndum sem á annað borð stunda utanríkisviðskipti í einhverjum mæli.

Áhrif á verðbólguþróun

Hækkun á hrávöru- og orkuverði mun að öðru óbreyttu þrýsta verðbólgu talsvert upp hér á landi. Samkvæmt Hagstofunni er vægi innfluttra vara í vísitölu neysluverðs u.þ.b. 1/3. Þar af er vægi eldsneytis ríflega 3% í VNV og vægi innfluttra mat- og drykkjarvara 3,4%. Vert er að hafa í huga að innflutt aðföng vega einnig talsvert þungt í ýmsum öðrum undirliðum VNV, t.d. fólksflutningum og innlendri matvöru. Sem dæmi má nefna að hin mikla verðhækkun á hveiti mun jöfnum höndum birtast í verði á innlendu brauðmeti og erlendu bakkelsi.

Þótt innfluttir liðir vegi enn ekki ýkja þungt í 12 mánaða verðbólgutaktinum eins og myndin sýnir er sú mynd nær örugglega að fara að breytast hratt. Áhrifanna verður væntanlega fyrst vart í eldsneytis- og matvöruverði og smitast í kjölfarið yfir í flugfargjöld og annan ferðakostnað. Á endanum kemur þróunin í meira eða minna mæli fram í flestum innfluttum undirliðum VNV á u.þ.b. 6-9 mánaða tímabili. Vitaskuld er enn gríðarleg óvissa um hversu langvinn hækkunin erlendis verður og í hvaða mæli styrking krónu gæti vegið á móti. Þessum áhrifum verða gerð frekari skil í verðbólguspá okkar sem áætlað er að komi út á komandi dögum.

Áhrif á utanríkisviðskipti

Snörp hækkun á verði innfluttra vara hefur að öðru jöfnu talsvert neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð þar sem viðskiptakjör, þ.e. kaupmáttur útflutningstekna gagnvart innflutningi, versna að sama skapi. Ísland þarf því að flytja út meira magn eða fá hærra verð fyrir útflutningsafurðir og útflutta þjónustu til þess að standa undir sama magni innflutnings.

Stærstu flokkar vöruútflutnings frá landinu eru annars vegar afurðir orkufreks iðnaðar og hins vegar sjávarafurðir. Á síðasta ári nam fyrrnefndi útflutningurinn 308 ma.kr. en sá síðarnefndi 327 ma.kr. Þar er þó ekki öll sagan sögð því hærra hlutfall útflutningstekna sjávarafurða endurspeglar innlendan virðisauka en raunin er með iðnaðarútflutninginn.

Mikil hækkun álverðs hefur einmitt verið hluti af þeirri þróun hrávöruverðs sem lýst var hér að framan. Viðmiðunarverð á áltonni er nú rúmlega 3.400 Bandaríkjadollarar og hefur verðið hækkað um 22% frá áramótum. Raunar hafði álverð þegar hækkað um ríflega 40% á árinu 2021 og hagur álframleiðenda hér á landi því vænkast umtalsvert.

Þá hefur verð á sjávarafurðum einnig tekið allmyndarlega við sér undanfarið ár og talsverðar líkur á því að sú verðhækkun haldi áfram næsta kastið.

Þessu til viðbótar mun verða a.m.k. tímabundin röskun á útflutningi, sér í lagi sjávarafurða. Samkvæmt upplýsingum á vef Stjórnarráðsins nam útflutningur til Rússlands, Hvíta-Rússlands og Úkraínu um 2% (20-25 ma.kr.) á árinu 2021. Langstærstur hluti þessa útflutnings er uppsjávarfiskur á borð við loðnu, síld og makríl og fór 5% af heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða til landanna þriggja. Líkur eru þó á að með tímanum finni útflytjendur aðra markaði fyrir þessar afurðir líkt og gerðist eftir að viðskiptaþvinganir voru settar gagnvart Rússum fyrir 8 árum síðan.

Enn er ógerningur að átta sig á áhrifum ófriðarins í Úkraínu á ferðaþjónustuna. Samkvæmt nýlegum fréttum hefur lítið verið um afbókanir erlendra ferðamanna og enn er útlit fyrir að fjölgun ferðamanna í ár verði umtalsverð þótt vissulega setji stríðið strik í reikninginn. Þar koma bæði til áhrif af mikilli hækkun eldsneytisverð sem vafalítið á eftir að ýta upp flugfargjöldum á komandi mánuðum en einnig kann ferðavilji almennings í Evrópu og Bandaríkjunum að minnka vegna óvissu um þróun átakanna og minnkandi kaupmáttar í kjölfar verðbólguskots erlendis. Á móti hefur verið bent á að Ísland sé býsna öruggur áfangastaður enda hefur það til að mynda sýnt sig þegar rofað hefur til í faraldrinum að landið er ofarlega í huga ferðaþyrstra nágrannaþjóða.

Samantekið er líklegt að stríðið hafi neikvæð áhrif á utanríkisviðskipti á heildina litið og dragi þar með út gjaldeyrisinnflæði vegna slíkra viðskipta á yfirstandandi ári. Hversu mikil þau áhrif verða veltur svo vitaskuld á framgangi átakanna.

Áhrif á vaxtastig

Stríðið í Úkraínu hefur aukið umtalsvert óvissuna um hvert stefnir í peningastefnu Seðlabankans. Versnandi skammtíma verðbólguhorfur eru bankanum auðvitað ekki gleðiefni en þar á bæt veit fólk vitaskuld að verðbólguskot vegna hrávöruverðhækkunar er utan áhrifastefnu bankans. Það eru því fyrst og fremst afleidd áhrif mikillar skammtímaverðbólgu á langtíma verðbólguvæntingar og innlendan kostnaðarþrýsting til meðallangs tíma sem gætu orðið til að flýta hækkun vaxta. Á móti myndi hægari vöxtur innlendrar eftirspurnar draga úr þörf fyrir hækkun vaxta.

Það veltur því annars vegar á óbeinum áhrifum hrávöruhækkananna og hins vegar á framgangi ófriðarins og áhrifum hans á heimsbúskapinn í hvorn fótinn Seðlabankinn stígur varðandi peningalega aðhaldið á komandi fjórðungum. Þar er Ísland á svipuðum báti og löndin í kring um okkur þar sem vextir á skuldabréfamarkaði hafa sveiflast mikið en endurspegla í stórum dráttum enn væntingar um hækkandi stýrivexti á komandi fjórðungum.

Áhrif á hagvöxt

Talsverðar líkur eru á að hagvöxtur verði minni en ella vegna stríðsátakanna og viðbragða gegn þeim. Hér að ofan er rakið að útflutningsvöxtur gæti orðið hægari en vænst var vegna stríðsins. Þá má gera því skóna að einkaneysla muni fyrir vikið vaxa eitthvað minna. Aukin innflutt verðbólga dregur úr kaupmætti heimilanna og líklegt er að væntingar landsmanna, eins og þær eru mældar af Gallup, muni dala talsvert í næstu mælingum. Allsterk fylgni er milli þróunar væntinga og einkaneyslu enda halda heimilin frekar að sér höndum í útgjöldum þegar óvissa og svartsýni eykst.

Það er þó rétt að halda til haga að ýmsir þættir eru líklegir til að draga úr neikvæðum áhrifum á hagþróun hér á landi:

  • Ísland er hrávöruútflytjandi ekki síður en -innflytjandi og vegast áhrif af verðhækkun á heimsmarkaði því á að hluta eins og rakið er að ofan
  • Efnahagsleg tengsl við Rússland eru lítil miðað við margar aðrar Evrópuþjóðir
  • Efnahagsbatinn er kominn á góðan skrið og því minni líkur á að mótvindur í afmörkuðum geirum vegna átakanna smiti út um gervallt hagkerfið. Til að mynda er umtalsverður fjöldi lausra starfa í boði fyrir fólk sem kann að verða fyrir atvinnumissi vegna áhrifa stríðsins.
  • Húshitun og rafmagnsnotkun heimila hér á landi kemur alfarið frá innlendum orkuframleiðendum og slíkur kostnaður mun vart hækka þótt heimsmarkaðsverð á orku hafi rokið upp.
  • Talsvert svigrúm er enn til staðar hjá stjórnvöldum til mótvægisaðgerða ef bakslag virðist munu koma í efnahagsbatann. Faraldurinn var til dæmis ríkissjóði nokkru léttbærari en á horfðist og Seðlabankinn gæti snúið af braut vaxtahækkana og slakað á fjármálalegum skilyrðum þyki honum horfurnar dökkna verulega.

Sem fyrr segir er óvissa um framgang ófriðarins í Úkraínu og áhrif stríðsins gríðarleg og veltur bæði á þróun átakanna sjálfra og stöðunni sem uppi verður í Úkraínu, Rússlandi og Hvíta-Rússlandi að þeim loknum. Það er hins vegar ólíklegt að okkar mati að íslenskur efnahagur verði fyrir búsifjum í líkingu við þær sem faraldurinn olli okkur og mestar líkur eru á að efnahagsbatinn haldi áfram hér á landi þótt hann kunni að verða tímabundið nokkuð hægari fyrir vikið.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband