Þegar ljóst varð að COVID-19 faraldurinn og viðbrögð við honum myndu greiða hagkerfinu þungt högg var að sama skapi viðbúið að hið opinbera myndi þurfa að halla sér að afli gegn hagsveiflunni og beita sveiflujafnandi hagstjórn til að mýkja höggið eftir megni. Stóra myndin skýrðist svo töluvert með birtingu fjárlagafrumvarps 2021 og fjármálaáætlunar fyrir árin 2021 – 2025.
Í áætluninni kemur fram að til að fjármagna fjárlagahalla komandi ára auk afborgana af núverandi skuldastabba ríkissjóðs þurfi að afla 1.431 ma.kr. á næstu fimm árum. Sé hins vegar horft fram hjá afborgunum lána, sem ætla má að núverandi lánardrottnar muni að stærstum hluta reynast fúsir til að endurlána ríkissjóði, stendur eftir rúmlega 900 ma.kr., jafngildi nærri þriðjungs af áætlaðri VLF þessa árs, af nýju fé sem ríkissjóður þarf að afla fram á miðjan áratuginn. Hvar í ósköpunum á að finna slíka risafjárhæð?
ÍL-sjóður
Sem betur fer finnast djúpir vasar víða, bæði innan lands og utan. Einn slíkur vasi er til að mynda til húsa í Arnarhváli sjálfum, þar sem ÍL-sjóður er til húsa um þessar mundir. Þangað hyggst ríkissjóður sækja 95 ma.kr. á yfirstandandi ári og annað eins á næsta ári. Ekki er þó gert ráð fyrir frekari lántöku úr þeirri áttinni eftir árið 2021.
Seðlabankinn
Seðlabankinn hefur lýst því yfir að hann sé reiðubúinn að kaupa ríkisbréf fyrir allt að 150 ma.kr. í því skyni að þrýsta langtímavöxtum neðar en ella væri. Er það í samræmi við aðgerðir seðlabanka um víða veröld sem hafa gripið til slíkrar óbeinnar peningaprentunar í stórum stíl undanfarið. Sumir þeirra hafa raunar aldrei sagt skilið við prentunarhrinuna sem hófst þegar fjármálakreppan skall á fyrir 12 árum síðan. Aðrir hafa svo endurræst prentvélarnar eftir að Kórónukreppan skall á og látið þær ganga sem mest þær mega.
Ef Seðlabankinn fullnýtir yfirlýst svigrúm sitt til ríkisbréfakaupa jafngildir það því að hann leggi ríkissjóði til sjöttu hverja krónu í nýrri fjármögnun á komandi fimm árum. Bankinn hefur hins vegar farið fetið í þessum kaupum enn sem komið er og nema kaup hans innan við 1 ma.kr. Í ljósi þess hversu mikið langtíma krafa á skuldabréfamarkaði hefur hækkað síðustu mánuði hlýtur hann því að fara að hugsa sér til hreyfings fyrr en síðar.