Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hvaða áhrif hefur breytt fæðingarorlof?

Breytingarnar árið 2000 juku orlofstöku feðra og voru stórt skref í átt að markmiðum laganna um að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu og atvinnulíf.


Nú í ár og því næsta verða gerðar breytingar á hámarkslengd fæðingarorlofs. Við getum flest verið sammála um að réttur foreldra til orlofstöku sé nauðsynlegur, en munu breytingarnar skila þeim árangri sem af þeim er ætlast?

Markmiðið er að auka jafnrétti

Um aldamótin var hámarkslengd orlofs aukin úr sex í níu mánuði og skipt á milli foreldra. Hvort foreldri um sig fékk þrjá mánuði og sameiginlega gátu þau nýtt þrjá til viðbótar. Fyrir þær breytingar höfðu foreldrar sameiginlegan sex mánaða rétt, sem móðirin nýtti sér í flestum tilvikum. Í kjölfar breytinganna jókst orlofsdagafjöldi feðra að meðaltali úr 39 árið 2001 í 101 árið 2007.

Í fyrstu var ekkert þak á greiðslum, en þær gátu þó ekki numið hærri fjárhæð en 80% tekna. Nokkuð hátt þak var innleitt árið 2004 og hafði lítil áhrif á orlofstöku en í kjölfar efnahagshrunsins var þakið lækkað verulega. Feður tóku sífellt styttra orlof og juku jafnvel við sig vinnu. Draga má þá ályktun að greiðsluþakið hafi þar haft umtalsverð áhrif og spilar launamunur kynja vafalaust þar inn í.

Í tillögum starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum segir m.a. að fæðingarorlofskerfið hér á landi eigi að tryggja jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði auk þess að skapa jöfn skilyrði fyrir foreldra til að annast börn sín. Markmiðunum verði meðal annars náð með því að gera feðrum kleift að taka sér tíma frá vinnu til að njóta samvista með börnum sínum á fyrstu mánuðum ævi þeirra.

Staðan í dag og breytingar í vændum

Frá árinu 2016 hefur hámark fæðingarorlofsgreiðslna hækkað um 62% og er í dag 600.000 kr. á mánuði en þó aldrei meira en 80% af launum. Greiðslan verður ekki lægri en 184.119 kr. fyrir einstakling í fullu starfi.

Frá árinu 2008 til 2015 lækkaði hlutfall þeirra feðra sem tóku lengra orlof en 90 daga úr 23% í 13% en jókst síðan aftur lítillega samhliða hækkun hámarksgreiðsla. Á alla mælikvarða hefur munur á orlofstöku mæðra og feðra aukist umtalsvert frá hruni og þrátt fyrir mikla hlutfallslega hækkun þaksins undanfarin ár er það enn talsvert undir meðaltekjum í landinu.

Brýnt er að draga eins og unnt er úr tekjumissi foreldra samhliða orlofi ef á annað borð á að hvetja til orlofstöku, en í dag má áætla ríflega 17% tekjutap aðila með meðaltekjur, sem eykst með hækkandi tekjum. Þegar hámarksgreiðslur voru sem hæstar árið 2009 var fæðingartíðni hér 2,2 börn á hverja konu en er í dag um 1,7. Þessi tala þarf að hækka til að tryggja nauðsynlega fólksfjölgun hér á landi.

Á næsta ári munu breytingar á rétti foreldra til fæðingarorlofs taka gildi að fullu þar sem fæðingarorlofið lengist í tólf mánuði. Tveimur mánuðum deila foreldrar en fá fimm hvort um sig.

Munu þessar breytingar á fæðingarorlofi stuðla að jafnrétti?

Breytingarnar árið 2000 juku orlofstöku feðra og voru stórt skref í átt að markmiðum laganna um að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Afturför hefur hins vegar orðið undanfarinn áratug samhliða lágu greiðsluþaki og því miður má ætla að lítil breyting verði þar á nú.

Lenging orlofs hefur sennilega takmörkuð áhrif á feður, sem í dag taka að jafnaði innan við helming dagafjölda mæðra. Þakið verður áfram óbreytt, talsvert undir meðallaunum, og fyrirsjáanlegt tekjutap hlýtur að draga úr líkum þess að foreldrar nýti báðir sinn hámarksrétt.

Er kannski líklegra að markmiðum fæðingarorlofs væri náð með lengra orlofi en jafnframt hækkun gólfs og þaks? Annars er hætt við að litið verði á konur sem óstöðugra vinnuafl þar sem þær eru lengur frá vinnu og karlar njóti síður samvista með börnunum sínum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Senda tölvupóst