Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hvaða áhrif gæti bakslag í Bretlandi haft á Ísland?

Ef efnahagslægð verður veruleg í Bretlandi á komandi vetri gæti það haft talsverð áhrif á íslenskar útflutningsgreinar á komandi fjórðungum. Enn eru þó ekki merki um að versnandi efnahagshorfur þar í landi hafi áhrif á spurn eftir Íslandsferðum eða íslensku sjávarfangi.


Umtalsverðar blikur eru á loft í efnahag Bretlands. Ört hækkandi orkuverð hefur keyrt upp verðbólgu ásamt ýmsum fleiri þáttum, líkt og raunin er víðast hvar í löndunum í kring um okkur. Nýjasta spá Englandsbanka, sem út kom í ágúst, áætlar að verðbólga í Bretlandi fari hæst í rúm 13% á lokafjórðungi þessa árs og verði umtalsverð allt næsta ár. Ýmsir greiningaraðilar eru raunar enn svartsýnni á verðbólguhorfur þar í landi og hvað lengst gengur Goldman Sachs fjárfestingarbankinn sem telur að verðbólga gæti farið yfir 20% í Bretlandi ef orkuverð heldur áfram að hækka.

Þá gerir Englandsbanki ráð fyrir ríflega 2% samdrætti í breska hagkerfinu frá þriðja fjórðungi þessa árs fram til sama fjórðungs á næsta ári. Sá samdráttur verði ekki síst tilkominn vegna umtalsverðrar rýrnunar á kaupmætti ráðstöfunartekna breskra heimila þar sem mikil verðbólga étur upp hækkun nafnlauna og gott betur. Auk heldur eru horfur á að atvinnuleysi vaxi jafnt og þétt en um þessar mundir er atvinnuástand raunar gott í Bretlandi líkt og hér á landi. Hrina verkfalla gengur auk þess yfir landið og verulegur halli hefur verið bæði á utanríkisviðskiptum og fjármálum hins opinbera, sá síðarnefndi þó auðvitað að stórum hluta vegna viðbragða við faraldrinum eins og víða um lönd. Bresk stjórnvöld undirbúa nú aðgerðir til þess að hlífa almenningi við mesta sársaukanum af háu orkuverði, en þær aðgerðir verða væntanlega fjármagnaðar með lántöku og bætast því við verulega skuldsetningu ríkisins þar í landi.

Hverju skiptir efnahagslægð í Bretlandi okkur?

Bretland er ein helsta viðskiptaþjóð Íslands og því getur það haft talsverð áhrif á efnahagshorfur hér ef slæmt bakslag verður í efnahag þar í landi. Vissulega eru efnahagsveður válynd víðar, sér í lagi á meginlandi Evrópu en einnig vestan hafs. Bretland hefur hins vegar nokkra sérstöðu sem viðskiptaþjóð okkar og því gagnlegt að skoða möguleg áhrif af höggi á eftirspurn frá þarlendum almenningi og fyrirtækjum á hagkerfi okkar.

Undanfarin ár hafa Bretar verið meðal fjölmennustu þjóða í ferðalögum til Íslands. Það sem af er ári hafa 14% erlendra ferðamanna hér á landi komið frá Bretlandi og hafa einungis Bandaríkjamenn verið fjölmennari. Fram að faraldri var þetta hlutfall Breta af heildarfjölda enn hærra, eða 15,5%. Þar við bætist að Bretar eru afar duglegir að sækja Ísland heim utan háannatímans. Um þrír fjórðu hlutar allra Íslandsferða Breta árin fyrir faraldur voru utan háannar og voru þeir oftar en ekki fjölmennasta þjóðin meðal erlendra ferðamanna yfir háveturinn.

Eftir myndarlegt síðsumar í ferðaþjónustunni skiptir það greinina miklu máli að ferðamannastraumurinn á komandi vetri verði einnig nokkuð myndarlegur enda fyrirtæki innan hennar mörg hver að endurbyggja efnahag sinn og rekstur eftir tvö mögur faraldursár. Því gæti það komið greininni illa ef breskur almenningur sækir Ísland lítið heim í vetur. Þar ber líka að hafa í huga að Kínverjar, sem voru mikilvægur hluti af vetrarferðamennsku hér á landi fyrir faraldur, hafa enn ekki látið sjá sig í teljandi mæli enda eru enn miklar hömlur á ferðalögum þeirra erlendis.

Bretland er einnig mikilvægur kaupandi útflutningsafurða frá íslenskum framleiðendum, sér í lagi sjávarfangs. 16-17% allra útflutningstekna sjávarútvegs hefur komið frá Bretlandi undanfarin ár. Í fyrra nam vöruútflutningur til Bretlands 56 ma.kr. og þar af voru 45 ma.kr. vegna sjávarafurða. Ekkert land keypti sjávarafurðir af íslenskum útflytjendum fyrir hærri fjárhæð það ár. Vitaskuld myndu íslenskir útflytjendur væntanlega finna aðra kaupendur að sjávarafurðum sínum fyrr eða síðar ef Bretar myndu draga umtalsvert úr fiskkaupum. Það gæti þó tekið einhvern tíma og söluverðið yrði væntanlega talsvert lægra, að minnsta kosti tímabundið.

Ef litið er til ársins 2019, þ.e. síðasta heila ársins áður en faraldurinn skall af fullum þunga á heimsbyggðinni, nam samanlagður útflutningur vöru og þjónustu til Bretlands 150 ma.kr. sem jafngilti 11% af heildarútflutningi það ár.

Það er því ljóst að töluverð áskorun getur falist í því ef spurn eftir Íslandsferðum, íslensku sjávarfangi og öðrum útflutningsvörum og -þjónustu dalar verulega á komandi vetri vegna skerts kaupmáttar breskra heimila. Góðu heilli eru þó enn fá ef nokkur merki þess að þessi áhrif séu að koma fram ef marka má nýlegt viðtal við Ferðamálastjóra, þótt alls ekki sé hægt að útiloka að þau skjóti upp kollinum þegar líður á haustið.

Sem fyrr segir er efnahagsútlitið tvísýnt víðar en í Bretlandi. Fyrir lítið opið hagkerfi eins og Ísland skiptir það miklu hvernig helstu viðskiptalöndum reiðir af. Það er því huggun harmi gegn að almennt er gert ráð fyrir því að verðbólga hjaðni og ástand batni í heimsbúskapnum þegar frá líður. Rétt er því að vera viðbúinn töluverðum mótvindi í ýmsum útflutningsgreinum á komandi vetri en vonandi þróast hann þó með talsvert hagfelldari hætti á heimsvísu en svartsýnustu spár teikna upp.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband