Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hvað er peningaþvætti?

Ríkar skyldur hvíla á fjármálafyrirtækjum til að varna því að starfsemi þeirra sé misnotuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka auk þess sem upplýsa ber yfirvöld um slíka háttsemi.


Hvers vegna eru öll þessi formlegheit og allar þessar spurningar þegar til stendur að opna einn lítinn bankareikning? Af hverju þarf ég að leggja fram skilríki til að sanna hver ég er? Svarið er einfalt:  Á  fjármálafyrirtækjum hvíla ríkar skyldur til að varna því að starfsemi þeirra sé misnotuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka auk þess sem upplýsa ber yfirvöld um slíka háttsemi. Sömu skyldur hvíla á fleiri aðilum, til dæmis lögmönnum þegar þeir veita tiltekna þjónustu, endurskoðendum, líftryggingafélögum og fasteignasölum. 

Ekki bara harðsvíraðir glæpamenn

Með peningaþvætti reyna brotamenn að láta illa fengið fé líta út fyrir að vera löglega fengið og nýta það þar af leiðandi í viðskiptum án grunsemda.  Þó gerast ekki eingöngu harðsvíraðir glæpamenn sekir um peningaþvætti því samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka þurfum við ekki sjálf að hafa framið það brot, sem peningar verða til við, svo sem rán eða fíkniefnasölu. Nóg væri til dæmis að taka við peningum fyrir veitta þjónustu, ef grunur er um að þeir séu illa fengnir.

Þekktasta leiðin til að þvætta peninga er að koma þeim inn í fjármálafyrirtækin með að leggja þá inn á bankareikning og senda milli mismunandi reikninga og landa, nota þá í sýndarviðskiptum og svo framvegis. þannig að sífellt erfiðara verður að rekja slóð þeirra til afbrotsins.  Að lokum enda peningarnir í höndum þeirra sem raunverulega hagnast á brotastarfseminni, til dæmis „toppanna“ í fíkniefnaheiminum. 

Upplýsingaöflun

Fjármálafyrirtækin verða því að kynnast viðskiptavinum sínum til að geta metið hvort hætta er á að þeir þvætti peninga hjá þeim. Til þess þurfa þeir t.d. að afla persónuupplýsinga um einstaklinga og láta þá sanna á sér deili með framvísun persónuskilríkja. Einnig er kallað eftir opinberum gögnum um fyrirtæki, hverjir stýra þeim og eiga þau. Þá ríkir sérstök skylda til að kanna hvort einstaklingar hafi stjórnmálaleg tengsl, það er gegni opinberri stöðu, sitji til dæmis á Alþingi eða í bæjarstjórn, eða hafi náin tengsl við slíka einstaklinga, því þeir eru taldir útsettari fyrir spillingu og mútuþægni en aðrir.

Frumvarp til nýrra laga var samþykkt í desember síðastliðnum og tók gildi 1. janúar. Viðbúið er að með gildistökunni munu fjármálafyrirtækin standa enn fastar á sínu en áður þegar kemur að öflun upplýsinga og gagna frá viðskiptavinum, því með nýjum lögum koma inn skýr viðurlagaákvæði. Munu fjármálafyrirtæki eiga yfir höfði sér stjórnvaldssektir frá 5 til 800 milljóna króna ef þau standa sig ekki í stykkinu. 

Að lokum ber að nefna að tilkynningar til yfirvalda um grunsamleg viðskipti teljast hvorki brot á persónuvernd viðskiptavina né þagnarskyldu bankastarfsmanna. Hinir samfélagslegu hagsmunir af því að þeir síðarnefndu geti upplýst yfirvöld um grunsamleg viðskipti, án þess að gera sig samtímis seka um lögbrot, þykja réttlæta það. Þannig geta fjármálafyrirtækin lagt sitt af mörkum til að ná því sem í raun er stefnt að með lögunum, að draga úr hvatanum til að fremja lögbrot með því að torvelda brotamönnum að nýta sér ágóðann af þeim.  Um það markmið hljótum við öll að vera sammála.

Höfundar


Aldís Bjarnadóttir

Lögfræðingur í regluvörslu Íslandsbanka


Senda tölvupóst

Anna Ragnhildur Halldórsdóttir

Lögfræðingur í regluvörslu Íslandsbanka


Senda tölvupóst