Þegar hugbúnaður er þróaður er oft talað um beta útgáfur,beta hugbúnað eða einfaldlega beta vöru. Varan kemst á slíkt stig þegar hún er á ákveðnum stað í þróunarferlinu.
Alpha
Beta kemur úr grísku og er annar stafurinn í gríska stafrófinu en fyrsti stafurinn er alpha. Áður en vara kemst á beta stig þarf hún því fara í gegnum alpha stig. Ferlið skiptist svona upp:
- Hugmyndavinna
- Greiningarvinna og undirbúningur
- Hugbúnaðurinn eða varan smíðuð.
Þetta eru fyrstu skrefin í ferlinu og þá er varan á alpha stigi.
Beta
Þegar vara er komin á beta stig er hún tilbúin til prófunar en þó ekki fullkomin. Það er búið að vinna grunnvinnuna eða alpha stigið en varan er samt ekki alveg tilbúin. Varan er hins vegar nægilega tilbúin til að notendur geti prófað hana en það á eftir laga einhverjar villur og fínpússa ýmislegt og besta leiðin til að fá upplýsingar um hvað þarf að laga er að fá notendur til að prófa vöruna.
Hvers vegna eiga notendur að prófa vöru sem er ekki tilbúin?
Varan getur verið hlutur en oftar en ekki er hún hugbúnaður eins og vefur, kerfi, snjallsímaforriti (e.app) eða tölvuleikur. Þegar varan er komin á beta stig er heilmikil vinna búin að eiga sér stað en til að vera viss um að þörfum notenda sé vissulega mætt sem best þarf að spyrja þá. Notendur eru í langflestum tilvikum viðskiptavinir sem hafa mögulega notað aðrar vörur frá sama fyrirtæki áður og hafa því vonandi miklar skoðanir á hvað þeir vilja. Notendur prófa því vöruna á beta stigi og gegna lykilhlutverki í að finna mögulegar villur og koma með ábendingar um hvað mætti gera betur.
Sem dæmi má nefna að í hvert sinn sem við bætum við aðgerð í öppin okkar erum við með beta hóp sem prófar aðgerðina áður en hún fer í loftið og verður aðgengileg öllum viðskiptavinum. Einnig erum við að þróa nýjan vef fyrir bankann og munum hafa hann aðgengilegan í beta útgáfu fyrir alla.
Ef þú færð tækifæri til að taka þátt í að prófa vöru á beta stigi getur þú mögulega haft áhrif á þróun vörunnar og gert hana þar með betri. Það er engin krafa um reynslu eða þekkingu til að vera beta notandi og því ættu allir sem fá tækifæri til þess að grípa það.
(Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í beta prófunum hjá Íslandsbanka getur þú sent tölvupóst á beta@islandsbanki.is)