Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hvað er að frétta með krónuna?

Hröð styrking krónu síðustu vikur hefur orðið til þess að stór hluti veikingar hennar gagnvart helstu gjaldmiðlum er genginn til baka. Sér í lagi á það við um Bandaríkjadollar og breska pundið. Líklegar skýringar á þróuninni er innflæði vegna fjárfestinga og breyttar væntingar. Gengi krónu verður líklega fremur lágt fram á næsta vor en með endurreisn ferðaþjónustunnar mun krónan á endanum styrkjast að nýju.


Miklar sviptingar hafa verið í gjaldeyrisflæði á markaði undanfarna mánuði. Eftir linnulítinn þrýsting á krónuna í ágúst, september og stærstan hluta októbermánaðar brá svo við að vindar snarsnerust gagnvart krónunni. Hefur hún upp frá því notið myndarlegs meðbyrs sem náði hámarki með mikilli styrkingarhrinu á 10 daga tímabili í kring um mánaðamót nóvember og desember. Frá 25. nóvember fram til 4. desember styrktist krónan um 6,6% gagnvart helstu gjaldmiðlum að jafnaði.

Ekki hefur komið fram einhlít skýring á þessari hröðu styrkingu undanfarnar vikur. Líklegt má þó telja að hún eigi sér rætur í fjármagnsjöfnuðinum, þ.e. endurspegli tilfærslu á fjármunum úr gjaldeyriseignum yfir í krónueignir fremur en flæði vegna tekna og gjalda. Þar má til dæmis nefna að upplýsingatæknifyritæki Sensa var nýverið selt norskum aðilum fyrir ríflega 3 ma.kr. Ólíklegt er þó að það skýri eitt og sér þessa hreyfingu nema að takmörkuðu leyti. Þá var halli á vöruskiptum með hóflegra móti í nóvembermánuði, eða 5,5 ma.kr. miðað við bráðbirgðatölur Hagstofunnar. Ólíklegt er hins vegar að þjónustuviðskipti hafi skilað umtalsverðum afgangi í síðasta mánuði, enda sýna tölur það sem af er ári að þeir mánuðir sem undirlagðir hafa verið af faraldrinum og aðgerðum gegn honum hafa skilað jafnvægi eða lítilsháttar halla á þjónustujöfnuði.

Ekki má heldur vanmeta þátt væntinga á gengisþróunina. Þótt fáar leiðir séu til hreinnar spákaupmennsku á gjaldeyrismarkaði um þessar mundir hafa ýmsir töluverðan sveigjanleika í því hvernig þeir haga sínum gjaldeyrisviðskiptum. Má þar bæði nefna útflytjendur og eigendur fjármagns sem hafa hug á að færa eignir sínar á milli gjaldmiðla. Jákvæðar fréttir af bóluefnum gegn COVID-19 og fjárfestingum inn í landið ásamt viðsnúningi í gengisþróun á fyrstu vikum nóvembermánaðar kann að hafa ýtt við ýmsum sem höfðu hug á að skipta gjaldeyri yfir í krónur og þannig stuðlað að eins konar snjóboltaáhrifum þar sem áframhaldandi styrking krónu myndar hvata fyrir enn fleiri að selja gjaldeyri sinn áður en verð hans lækkar enn frekar.

Rykið blásið af kauptakka Seðlabankans

Með auknum meðvindi með krónunni hefur Seðlabankinn hins vegar átt öllu náðugri daga hvað varðar afskipti af gjaldeyrismarkaði. Bankinn hefur þó haldið uppteknum hætti við reglulega sölu evra inn á markaðinn í því skyni að auka dýpt hans. Líklegt má telja að gjaldeyrissala bankans, sem nam alls 87 m. evra, hafi farið langt með að svala gjaldeyrisþörf lífeyrissjóða vegna fjárfestinga þeirra erlendis . Að reglulegu inngripunum slepptum nam gjaldeyrisala Seðlabanka 24 m. evra og hafa slík óregluleg inngrip ekki verið minni frá júní sl.

Til tíðinda dró svo í síðustu viku þegar bankinn brást við hinni hröðu styrkingu með kaupum á 18 m. evra eftir að hafa selt sínar vanabundnu 3. evra í dagsbyrjun. Var það í fyrsta sinn frá júní sl. sem bankinn kaupir gjaldeyri á markaði. Með kaupunum sýndi bankinn að hann hefur vilja til að draga úr skammtímasveiflum til styrkingar ekki síður en veikingar, sér í lagi ef tímabundnir einskiptisþættir eru rótin af slíkum hreyfingum.

Frá áramótum nemur hrein sala Seðlabankans á gjaldeyri úr forða sínum tæplega 680 m. evra. Jafngildir það ríflega 11% heildarforðans eins og hann stóð í ársbyrjun. Það er þó enn af nógu af taka á þeim bænum. Í upphafi árs var gjaldeyrisforði Seðlabankans ríflega 6 ma. evra og á móti honum stóðu gjaldeyrisskuldir upp á 1,4 ma. evra, fyrst og fremst gjaldeyrisinneign ríkissjóðs í bankanum. Í nóvemberlok var staða forðans ríflega 5,4 ma. evra og að frátöldum gjaldeyrisskuldum nam hann 3,8 mö. evra. Á flesta mælikvarða, s.s. í hlutfalli við innflutning, erlendar skammtímaskuldir eða landsframleiðslu, er því forðinn enn býsna drjúgur og svigrúm Seðlabankans til þess að bregðast við skammtímasveiflum með gjaldeyrisinngripum umtalsvert.

Stór hluti veikingar gagnvart dollar og pundi gengið til baka

Gengisstyrking síðustu vikna hefur tekið til baka umtalsverðan hluta af þeirri veikingu krónu sem orðið hafði á árinu fram að því. Þróunin hefur enn fremur verið býsna mismunandi eftir ólíkum myntum enda talsverðar sviptingar á erlendum gjaldeyrismörkuðum í kjölfar Kórónukreppunnar. Sem dæmi má nefna að miðað við dagslok 7. desember kostaði evran 153 krónur og hafði hækkað í verði um 12,5% frá áramótum. Bandaríkjadollar kostaði hins vegar 126 krónur sem jafngildir 4% hækkun frá áramótum. Á sama tíma hafði breska pundið hækkað um ríflega 6% og kostaði 169 krónur á gjaldeyrismarkaði.

Það er því umtalsverður munur á því hversu mikið innfluttur kostnaður hefur aukist eftir því í hvaða mynt hann er upprunninn.  Innflutningur af evrusvæði er m.ö.o. ríflega 12% dýrari en í upphafi árs þessa dagana á meðan innflutningur frá Bandaríkjunum er rúmlega 4% dýrari. Að sama skapi hefur gengishagnaður vegna erlendra eigna þróast með ólíkum hætti eftir myntum. Þar má hafa í huga að býsna stór hluti erlendra eigna lífeyrissjóða er í dollaraeignum enda bandaríski verðbréfamarkaðurinn sá stærsti í heimi.

Hvað er framundan í krónunni?

Styrking krónu er væntanlega mörgum kærkomin eftir veikingarkafla haustsins. Hún dregur úr skammtíma kostnaðarþrýstingi vegna innfluttra vara og reynslan sýnir að styrking krónu fer gjarnan saman við vaxandi væntingar í hagkerfinu og öfugt. Hún getur þó verið blendin blessun enda rýrir hún samkeppnisstöðu útflutningsgreina frá því sem ella væri. Það er líka óheppilegt þegar sveiflur í krónunni eru jafn snarpar og verið hefur síðustu vikur án þess að afdráttarlausar skýringar séu á hreyfingunum. Það eykur á óvissu þeirra sem standa frammi fyrir verulegum gjaldeyrisáhrifum á rekstur eða eignastöðu. Í því ljósi eru inngrip Seðlabankans til þess að mýkja sveiflurnar að okkar mati af hinu góða enda óvissan um skammtímahorfur víst nóg samt.

Við teljum hins vegar að krónan muni enn um sinn vera veikari að jafnaði en verið hefur síðustu ár. Enn vantar um þriðjung þeirra útflutningstekna sem flætt hafa inn í hagkerfið undanfarin ár og á meðan ferðaþjónustan liggur í dvala mun viðskiptajöfnuður eiga nokkuð á brattann að sækja. Vafalaust munu þó skammtímasveiflur vegna fjárfestinga, lánahreyfinga milli gjaldmiðla og breytinga á væntingum áfram lita gjaldeyrismarkað fram á vorið.

Lægra raungengi krónu er heppilegt um þessar mundir að því leyti að það gefur útflutningsgreinunum meiri viðspyrnu. Sér í lagi er það ákjósanlegt að ferðaþjónustan búi við fremur lágt gengi krónu þegar ferðahugur byrjar að glæðast á alþjóðavísu og erlendir ferðamenn fara að bera saman ferðakosti í fyrstu ferðalögum sínum eftir Kórónufaraldurinn.

Það er hins vegar skoðun okkar að með hækkandi sól á næsta ári muni gjaldeyristekjur aukast jafnt og þétt með endurkomu ferðaþjónustunnar sem lykilaðila við öflun gjaldeyristekna. Jákvæðar fréttir af þróun bóluefna og mögulegum framgangi bólusetningar styrkja þá skoðun okkar. Þegar lengra líður á næsta ár eru því verulegar líkur á að utanríkisviðskipti verði aftur farin að skila afgangi og krónan mun á endanum draga dám af því og styrkjast. Hversu mikið og hvenær leiðir svo tíminn í ljós.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband