Dregið hefur úr kaupmáttarvexti launa undanfarna fjórðunga. Þó hefur kaupmáttur íslenskra heimila aukist meira undanfarið en gengur og gerist í nágrannalöndum. Nýgerðir kjarasamningar munu svo skila nokkurri aukningu kaupmáttar á komandi fjórðungum. Hóflegur kaupmáttarvöxtur og fremur lítil fólksfjölgun mun líklega leiða til minni aukningar einkaneyslu í ár en verið hefur síðustu árin enda virðast íslensk heimili almennt ekki á þeim buxunum að fjármagna einkaneysluvöxt með lánsfé nú um stundir.
Hægari hækkunartaktur launa og kaupmáttar
Launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 0,2% í marsmánuði. Hefur vísitalan þar með hækkað um 5,5% undanfarna 12 mánuði. Dregið hefur úr hækkunartaktinum hægt og bítandi undanfarna mánuði enda hefur dregist á langinn að semja um kaup og kjör stórra launþegahópa eftir að samningar þeirra runnu út um áramót.
Þar sem vísitala neysluverðs hækkaði um 0,5% í mars jafngildir framangreind hækkun launavísitölu því að kaupmáttur launa hafi minnkað um 0,3% í marsmánuði. Undanfarna 12 mánuði hefur kaupmáttur launþega hins vegar aukist um 2,5% á þennan kvarða.