Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hóflegri kaupmáttarvöxtur í kortunum

Dregið hefur úr kaupmáttarvexti launa undanfarna fjórðunga. Þó hefur kaupmáttur íslenskra heimila aukist meira undanfarið en gengur og gerist í nágrannalöndum.


Dregið hefur úr kaupmáttarvexti launa undanfarna fjórðunga. Þó hefur kaupmáttur íslenskra heimila aukist meira undanfarið en gengur og gerist í nágrannalöndum. Nýgerðir kjarasamningar munu svo skila nokkurri aukningu kaupmáttar á komandi fjórðungum. Hóflegur kaupmáttarvöxtur og fremur lítil fólksfjölgun mun líklega leiða til minni aukningar einkaneyslu í ár en verið hefur síðustu árin enda virðast íslensk heimili almennt ekki á þeim buxunum að fjármagna einkaneysluvöxt með lánsfé nú um stundir.

Hægari hækkunartaktur launa og kaupmáttar

Launavísitala Hagstofunnar hækkaði  um 0,2% í marsmánuði. Hefur vísitalan þar með hækkað um 5,5% undanfarna 12 mánuði. Dregið hefur úr hækkunartaktinum hægt og bítandi undanfarna mánuði enda hefur dregist á langinn að semja um kaup og kjör stórra launþegahópa eftir að samningar þeirra runnu út um áramót.

Þar sem vísitala neysluverðs hækkaði um 0,5% í mars jafngildir framangreind hækkun launavísitölu því að kaupmáttur launa hafi minnkað um 0,3% í marsmánuði. Undanfarna 12 mánuði hefur kaupmáttur launþega hins vegar aukist um 2,5% á þennan kvarða.

Talsvert hefur hægt á vexti kaupmáttar launa undanfarin misseri eftir afar myndarlega kaupmáttaraukningu upp úr miðjum yfirstandandi áratug. Hámarki náði vöxturinn á árinu 2016 en þá óx kaupmáttur launa að jafnaði um 9,5% frá árinu á undan. Þessi hraði vöxtur kom til af því að laun hækkuðu verulega það ár en verðbólga hélst á sama tíma hófleg, fyrst og fremst vegna mikillar styrkingar krónu. Á síðasta ári var kaupmáttarvöxturinn hins vegar að jafnaði 3,7% og liggur skýringin á hægari vexti í fyrra bæði í minni vexti nafnlauna og meiri verðbólgu en árin á undan.

Þarna fara því saman áhrif af framhlöðnum kjarasamningum sem gerðir voru um miðbik áratugarins annars vegar, og ólíkum áhrifum gengisþróunar krónu á verðbólgu hins vegar. Því má segja að sá kaupmáttarvöxtur sem innistæða var fyrir í góðærinu um miðjan áratug hafi að stærstum hluta verið tekinn út fyrr en síðar. Það er þó rétt að halda því til haga að 3,7% kaupmáttarvöxtur er býsna myndarlegur í alþjóðlegu tilliti.

Kaupmáttur og einkaneysla haldast í hendur

Kaupmáttarþróun er einn helsti gangráður einkaneyslu í íslensku hagkerfi. Fyrir rúmum áratug dofnaði það samband reyndar verulega þar sem mikill einkaneysluvöxtur var að stórum hluta fjármagnaður með lántöku íslenskra heimila. Það hefur hins vegar ekki verið uppi á teningnum undanfarin ár eins og sjá má bæði á ágætri fylgni kaupmáttarvaxtar og einkaneyslu og einnig á þeirri jákvæðu staðreynd að skuldir heimila hafa á heildina litið minnkað umtalsvert í yfirstandandi hagsveiflu.

Nú liggur fyrir að nýgerðir kjarasamningar á stórum hluta almenns vinnumarkaðar hafa verið samþykktir af viðkomandi verkalýðsfélögum. Samþykki atvinnurekendur einnig samningana, eins og miklar líkur eru á, munu laun viðkomandi launþega hækka talsvert frá og með apríl. Enn er raunar ósamið um kaup og kjör hjá ýmsum samtökum iðnaðarmanna og opinberra starfsmanna en vonir okkar standa þó til að samningar á þeim bænum verði í stórum dráttum á keimlíkum nótum og þeir samningar sem þegar hafa verið samþykktir af launþegum. Þar er þó engan veginn á vísan að róa þar sem samningar byggðir á flatri krónutöluhækkun kunna að henta síður þeim launþegum sem staddir eru í hærri þrepum launastigans.

Horfur á hægum einkaneysluvexti í ár

Í nýjustu verðbólguspá okkar gerum við ráð fyrir því að laun verði að jafnaði  5,2% hærri í ár en í fyrra, og verðlag reynist 3,3% hærra. Kaupmáttur launa mun miðað við þær forsendur aukast um 1,8% í ár. Það er hægari kaupmáttaraukning en verið hefur undanfarin 5 ár þótt launþegar nágrannalandanna myndu líklega margir hverjir hrósa happi yfir slíkum kaupmáttarvexti. Þegar við bætist að fólksfjölgun verður væntanlega hægari í ár en undanfarin ár ef miðað er við mannfjöldaspá Hagstofunnar verður niðurstaðan sú að einkaneysla mun að öllum líkindum vaxa hægar í ár en hún hefur gert síðustu árin.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband