Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hófleg hækkun vísitöluneysluverðs í desember

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði hóflega í desember miðað við síðustu mánuði en styrking krónunnar á undanförnum vikum hefur dregið úr verðbólguþrýstingi. Verðbólguþrýstingur mun hjaðna frekar eftir því sem líður á næsta ár.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,2% í desember líkt og við í Greiningu höfðum spáð. Mælist 12 mánaða verðbólga nú 3,6% en var 3,5% í nóvember og 3,6% í október. Að undanskildum síðastliðnum 2 mánuðum hefur verðbólgan aukist hressilega á árinu og var til samanburðar 1,7% í janúar. Við reiknum með því að verðbólguþrýstingur verði nokkur enn um sinn en minnki síðan jafnt og þétt með hækkandi sól.

Vísitala neysluverðs hækkar um 0,2% í desember

Verðbólga miðað við vísitöluneysluverðs án húsnæðis mælist nú 4% en var 4,2% í nóvember. Húsnæðisliðurinn er því enn að draga úr verðbólgu í desember en útlit er fyrir staðan verði öfug þegar lengra líður á næsta ár. Matur og drykkjarvara lækkaði í verði um 0,34% (-0,05% áhrif í VNV) en þar munar mest um ávexti sem lækkuðu um rúm 4% á milli mánaða. Föt og skór hækkuðu hins vegar í verði um 1,51% (0,05% áhrif í VNV) en liðurinn hafði lækkað um 0,7% í nóvember. Ferðir og flutningar hækkuðu um 0,56% (0,08% áhrif í VNV) þar sem rekstur ökutækja og flutningar í lofti vógu hvað þyngst til hækkunar. Yfir hátíðirnar er talsvert af einstaklingum sem ýmist vinna eða sækja nám erlendis sem fljúga til síns heimalands. Eftirspurn þeirra einstaklinga fremur óteygin og hafa því flugfélögin kost á að hækka verð þrátt fyrir dræma eftirspurn. Eldsneytisverð hækkaði um 1,03% (0,03% áhrif í VNV) á milli mánaða eftir talsverða lækkun fyrr á árinu. Helst það í hendur við umtalsverða verðhækkun eldsneytis á alþjóðamörkuðum síðustu vikur en styrking krónunnar hefur væntanlega dregið töluvert úr áhrifunum hér á landi.

Raftæki lækka á milli mánaða

Það helsta sem greinir á milli spár Greiningar Íslandsbanka og desembertalna Hagstofunnar er ofmat okkar á hækkun liðarins raftæki. Síðastliðin 2 ár hefur sá liður vegið til hækkunar VNV í desember en þetta árið lækkaði hann um -1,13% (-0,02% áhrif í VNV). Svipaða sögu er að segja af húsgögnum, heimilisbúnaði o.fl. en sá liður vegur einnig til lækkunar VNV sem hefur ekki gerst í desember frá því árið 2016. Föt og skór hækkuðu meira í verði en reiknuðum með. Matur og drykkjarvörur lækkuðu hins vegar í verði en við höfðum gert ráð fyrir minniháttar hækkun. Þar munaði mestu um talsverða verðlækkun á ávöxtum og grænmeti.

Seigla á markaðsverði húsnæðis

Markaðsverð húsnæðis á landinu öllu hefur nú hækkað samfleytt 7 mánuði í röð í fyrsta sinn síðan árið 2018. 12 mánaða hækkunartaktur á verði fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu er nú 7,7% og hefur ekki verið viðlíka hár síðan í apríl 2018 (8%). Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hafa hækkað í verði um 9,4% undanfarna 12 mánuði og var hækkunartaktur þeirra síðast hraðari í júlí 2018 (9,8%). Mikið líf hefur verið á fasteignamarkaði á árinu þrátt fyrir sögulega hátt atvinnuleysi hér á landi. Ástæðu þess má eflaust rekja að hluta til þess að húsnæðislán hafa aldrei fyrr borið jafn hagstæð kjör og einmitt núna sem hefur kynt undir eftirspurn á fasteignamarkaði. Þá var fjárhagsstaða þorra heimila fremur sterk við upphaf Kórónukreppunnar og burðir þeirra til þess að nýta sér hagstæða fjármögnun því meiri en ella.

Líkt og fyrr var reifað hefur verið mikil seigla á fasteignamarkaði með tilheyrandi hækkun á húsnæðisverði. Fyrr á árinu var hækkunin mest á landsbyggðinni en 12 mánaðatakturinn jafnaðist eftir því sem líða tók á árið. Hæstur var takturinn að jafnaði á landsbyggðinni (9,4%) og minnstur í fjölbýlum á höfuðborgarsvæðinu (5,5%). Samtök iðnaðarins hafa lýst yfir áhyggjum af framboðsskorti húsnæðis á næstu árum. Ætla má að húsnæðisverð muni fyrr en síðar vega til hækkunar verðbólgunnar á nýjan leik eftir því sem annar verðbólguþrýstingur minnkar.

Verðbólgutoppurinn í augnsýn?

12 mánaða verðbólgan jókst eilítið á milli mánaða eftir lækkun í síðasta mánuði. Við í Greiningu teljum topp verðbólguskotsins enn framundan á allra næstu mánuðum en að í kjölfarið muni verðbólga hjaðna jafnt og þétt að nýju. Við gerum ráð fyrir að verðbólgan verði að jafnaði 2,9% á næsta ári og 2,3% árið 2022. Jákvæðar fréttir af þróun og dreifingu bóluefna hafa veitt landsmönnum ástæðu til að vera bjartsýnni til lengra tíma litið en þó ríkir enn töluverð óvissa með framhaldið allra næstu mánuði. Veiking íslensku krónunnar fyrr á árinu hefur að hluta gengið til baka á síðustu vikum en á móti vegur að hrávöruverð hefur hækkað. Ef hins vegar bólusetning hér á landi gengur vel og hjarðónæmi næst fyrir mitt ár 2021 gæti Ísland þótt ákjósanlegur staður fyrir erlenda ferðamenn, svo lengi sem ferðavilji einstaklinga taki skjótt við sér með tilkomu bóluefna. Endurkomu ferðaþjónustunnar mun svo fylgja vaxandi innflæði gjaldeyris sem á endanum leiðir til styrkingar krónu og þar með hjöðnunar verðbólgu.

Við þökkum samfylgdina á árinu.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband