Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Heldur Amazon toppsætinu?

Microsoft, Apple, Alphabet (Google) og Amazon hafa öll verið verðmætust bandarískra fyrirtækja á einhverjum tímapunkti undanfarinn áratug.


Eftir heilmiklar lækkanir á hlutabréfaverði tæknifyrirtækja Vestanhafs hefur röðun þeirra verðmætustu riðlast nokkuð upp á síðkastið. Það vakti mikla athygli þegar Amazon náði forystunni fyrir skömmu og þar situr fyrirtækið enn þegar þetta er skrifað.

Microsoft, Apple, Alphabet (Google) og Amazon hafa öll verið verðmætust á einhverjum tímapunkti undanfarinn áratug en með litlum hléum hefur Apple borið af hvað varðar markaðsverðmæti og fór það hæst yfir 1.100 milljarða bandaríkjadollara, sem jafngildir yfir 40 faldri landsframleiðslu Íslands. Frá þeim hápunkti hefur verðmætið lækkað um rösklega þriðjung eða 400 milljarða dollara.

30. nóvember síðastliðin dró til tíðinda þegar Microsoft var metið á um 4 milljörðum dollara meira en Apple, í fyrsta sinn síðan 2010. Það var svo 7. janúar sem Jeff Bezos og félagar í Amazon hirtu efsta sætið en í eins miklum sveiflum og verið hafa er aldrei að vita hverjir sitja á toppnum á morgun.

Nú er svo komið að Apple rekur lestina í þessum hópi. Síðasta uppgjör olli vonbrigðum, einkum vegna lítils vaxtar í sölu iPhone síma. Nóg er til af varasjóðum og félagið skilar enn heilmiklum hagnaði, en það þarf að gera betur til að gleðja fjárfesta.

Nú stendur hin árlega Consumer electronics show (CES) yfir í Las Vegas og kynna fyrirtækin þar til leiks nýjungar í vöru- og þjónustuframboði sínu. Meðal þess sem áhugavert verður að sjá er samstarf Amazon og Google við hina ýmsu raftækjaframleiðendur á sviði gervigreindar. Fjöldinn allur af tækjum getur nú tengst Alexu (Amazon) og Google Assistant en búist er við sprengingu í slíkri tengingu á þessu ári. Til mikils er að vinna fyrir fyrirtækin, meðal annars vegna síaukinnar vefverslunar og því keppast þau við að koma gervigreind sinni í sem flest sjónvörp, hátalara og bíla, svo eitthvað sé nefnt.

Hlutabréfaverð byggir á væntingum um árangur í framtíðinni og því hljóta fjárfestar að fylgjast grannt með.

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Fræðslustjóri


Senda tölvupóst