Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Heimilin halda fastar um budduna á nýju ári

​Viðsnúningur hefur orðið í þróun einkaneyslu undanfarna mánuði ef marka má tölur um kortaveltu.


Viðsnúningur hefur orðið í þróun einkaneyslu undanfarna mánuði ef marka má tölur um kortaveltu. Samdráttur hefur tekið við af myndarlegum vexti ef leiðrétt er fyrir verðlagi og gengi krónu. Þetta er skýr vísbending um að íslensk heimili haldi nú að sér höndum í ljósi vaxandi óvissu um skammtímahorfur í íslensku hagkerfi. Líklegt er að vöxtur einkaneyslu í ár verði sá hægasti í sex ár.

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans yfir kortaveltu í janúar síðastliðnum nam kortavelta íslenskra heimila alls 68,8 mö.kr. í mánuðinum. Er það tæplega 1,2 ma.kr. aukning frá sama mánuði í fyrra. Þar verður þó að taka með í reikninginn að innlent verðlag hefur hækkað um 3,4% undanfarið ár og gengi krónu var u.þ.b. 9% lægra miðað við gengisvísitölu í nýliðnum janúarmánuði en það var fyrir ári síðan. Sé leiðrétt fyrir þróun verðlags og gengis krónu kemur á daginn að innlend kortavelta dróst saman um ríflega 5% á milli ára á meðan kortavelta á erlendri grundu jókst um ríflega 3%. Í heild dróst því kortavelta saman á þennan mælikvarða um nærri 4% á milli ára.

Úr örum vexti í samdrátt á einu ári

Janúarmánuður var þriðji mánuðurinn í röð þar sem kortavelta dróst saman að raungildi á milli ára. Allt fram á mitt síðasta ára var vöxtur veltunnar hins vegar myndarlegur á þennan kvarða. Óx veltan til að mynda um 8,6% á fyrri helmingi síðasta árs frá sama tíma 2017 á framangreindan mælikvarða og á árinu 2017 nam vöxturinn ríflega 11% að jafnaði. Síðan hefur dregið allhratt úr vaxtartaktinum og var lokafjórðungur síðasta árs fyrsti ársfjórðungurinn frá því snemma árs 2013 þar sem samdráttur varð í verðlags- og gengisleiðréttri kortaveltu milli ára.

Það kom okkur talsvert á óvart í fyrra hversu seigt var í einkaneysluvextinum lungann af árinu þrátt fyrir hríðlækkandi væntingar neytenda og hægari kaupmáttarvöxt. Miðað við þróun kortaveltu, væntinga og kaupmáttar virðist þó nánast óhjákvæmilegt að íslensk heimili hafi stigið á bremsuna í einkaneyslunni á lokafjórðungi ársins. Sama virðist svo uppi á teningnum í upphafi nýs árs ef marka má þróun kortaveltunnar.

Verður haldið fastar um heimilisbudduna í ár?

Við gáfum nýverið út uppfærða þjóðhagsspá. Það spáum við 2,7% vexti einkaneyslu á yfirstandandi ári og 3,4% vexti árið 2020. Vöxturinn í ár verður sá hægasti frá árinu 2013 samkvæmt spánni. Meðal helstu áhrifaþátta á þróun einkaneyslu eru þróun kaupmáttar annars vegar og mannfjölda hins vegar. Að okkar mati er útlit fyrir að vöxtur kaupmáttar launa muni nema tæpum 2% í ár. Samkvæmt miðspá mannfjöldaspár Hagstofunnar munu landsmenn að jafnaði verða 1,8% fleiri í ár en þeir voru í fyrra. Er það nokkuð hægari fjölgun en verið hefur síðustu ár.

Þessir tveir lykilþættir munu því báðir vega til minni einkaneysluvaxtar í ár en síðustu ár. Við bætist svo aukin svartsýni íslenskra neytenda upp á síðkastið, sem hefur tilhneigingu til að gera heimilin varari um sig við stærri neysluákvarðanir á borð við bifreiðakaup og utanlandsferðir. Þróun kortaveltu síðustu mánuðina er því í ágætu samræmi við þá mynd sem dregin er upp í þjóðhagsspánni: Að einkaneysla muni vaxa hóflega í ár en að meira líf færist í vöxtinn á næsta ári.