Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hefur verðbólga náð hámarki í bili?

Hækkun á verði eldsneytis og matvæla eru helstu skýringar þess að vísitala neysluverðs hækkaði í maí. Horfur eru á svipuðum verðbólgutakti á næstu mánuðum en verðbólguhorfur hafa almennt batnað eftir samþykkt kjarasamninga í aprílmánuði.


Það var fátt sem kom á óvart í nýbirtum tölum Hagstofunnar um vísitölu neysluverðs. Hækkun á verði eldsneytis og matvæla eru helstu skýringar þess að vísitala neysluverðs hækkaði í maí.  Horfur eru á svipuðum verðbólgutakti á næstu mánuðum en verðbólguhorfur hafa almennt batnað eftir samþykkt kjarasamninga í aprílmánuði. Þáttur íbúðaverðs í verðbólgunni hefur minnkað jafnt og þétt undanfarið. Við gerum ráð fyrir að verðbólgumarkmið Seðlabankans gæti verið í sjónmáli í lok þessa árs.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,2% í maí skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 3,6% en var 3,3% í apríl. VNV án húsnæðis hækkaði einnig um 0,2% í maí og miðað við þá vísitölu mælist 3,1% verðbólga undanfarna 12 mánuði. Mæling maímánaðar er í samræmi við birtar spár. Við spáðum 0,2% hækkun VNV milli mánaða, en spár bankanna voru á bilinu 0,1% – 0,2% hækkun. Allir helstu undirliðir þróuðust í takti við spá okkar og er fátt sem kemur okkur á óvart.

Eldsneyti, húsnæði og matur helstu liðir sem vega til hækkunar

Eldsneyti er sá liður sem vó mest til hækkunar í maímánuði eða um 3,1% milli mánaða (0,11% áhrif í VNV). Ástæðan er fyrst og fremst umtalsverð hækkun á heimsmarkaðsverði eldsneytis það sem af er ári en frá áramótum hefur til að mynda verðið á Brent-hráolíu hækkað um ríflega 30%. Einnig hækkaði húsnæðisliðurinn um 0,26% á milli mánaða (0,08% í VNV). Þar vegur þyngst að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar íbúðaverð að mestu, hækkaði um 0,33% á milli mánaða (0,05% í VNV) og greidd húsaleiga hækkaði um 0,53% (0,02% í VNV). Þá hækkaði verð á mat og drykkjarvörum í mánuðinum um 0,69% (0,09% í VNV).

Flugfargjöld lækka

Það helsta sem vegur til lækkunar í maí eru flugfargjöld en þau lækka um 8% milli mánaða (-0,15%). Flugliðurinn hækkaði um 20% í aprílmánuði, bæði vegna gjaldþrots WOW-air og árstíðabundinnar hækkunar vegna páskanna. Nú hefur sú hækkun að einhverju leyti gengið til baka sem þarf ekki að koma á óvart þar sem maímánuður er oft stund milli stríða í flugfargjöldum eftir páskatíð, en einnig má ætla að markaðurinn hafi róast eftir mikla tímabundna eftirspurn eftir flugi í kjölfar falls WOW-air.

Gerbreytt samsetning verðbólgunnar

Í maímánuði hækkuðu innfluttar vörur í verði um 0,54% sem er örlítið meiri hækkun en í aprílmánuði þegar þær hækkuðu um 0,44%. Frá miðju síðasta ári hafa innfluttar vörur hækkað í verði um 3%. Þessi hækkun telst hófleg í ljósi gengislækkunar krónu á seinni helmingi síðasta árs og skýrist það væntanlega að stórum hluta af harðnandi samkeppni í smásöluverslun og vaxandi blikum í lofti um eftirspurn neytanda á komandi mánuðum.

Samsetning verðbólgunnar hefur breyst gífurlega síðustu misseri. Af 3,6% verðbólgu í maí skýrir innflutt verðbólga um 1,15% af verðbólgunni og húsnæðisliður VNV um 1,3%. Fyrir rúmlega ári síðan var staðan hins vegar þannig að innfluttar vörur höfðu 1,2% verðhjöðnunaráhrif á meðan húsnæðisliðurinn vó til ríflega 3% hækkunar. Þá standa innlendar vörur að baki 0,5% verðbólgunnar í maí og þjónusta um 0,6%. Í grófum dráttum skýra því innflutningur, innlendur kostnaður og húsnæðiskostnaður hvert um sig u.þ.b. þriðjung af verðbólgu þessa dagana.

Skánandi verðbólguhorfur

Þótt verðbólga hafi aukist í maímánuði eru verðbólguhorfur á komandi fjórðungum að batna að mati okkar. Við spáum 0,5% hækkun í júní, 0,1% lækkun í júlí og 0,2% hækkun VNV í ágúst. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 3,4% í ágúst 2019.

Búast má við talsverðri hækkun flugfargjalda þegar sumarið gengur í garð og leggst þar á eitt hækkandi eldsneytisverð, aukin eftirspurn háannatímans og minni samkeppnisþrýstingur eftir fall Wow-air. Áfram mun draga úr hækkunartakti innfluttra vara að því gefnu að krónan veikist ekki á nýjan leik. Þá gerum við ráð fyrir að íbúðaverð muni hækka í svipuðum takti á komandi mánuðum og raunin hefur verið undanfarið.

Í kjölfarið teljum við að verðbólga muni hjaðna nokkuð á seinni helmingi þessa árs. Nýgerðir kjarasamningar virðast til þess fallnir að valda minni skammtíma verðbólguþrýstingi en við höfðum óttast. Óvissa um launaþróun á almennum vinnumarkaði hefur því minnkað verulega síðustu vikurnar. Efnahagshorfur hafa dökknað talsvert og hjaðnandi eftirspurnarþrýstingur í hagkerfinu mun væntanlega draga úr launaskriði og viðhalda þrýstingi á álagningu innlendra fyrirtækja. 

Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði komin niður í 2,9% í lok þessa árs og í 2,8% í árslok 2020. Verðbólgumarkmið Seðlabankans verður því í sjónmáli í lok ársins, gangi spá okkar eftir.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Sérfræðingur í Greiningu


Senda tölvupóst