Það var fátt sem kom á óvart í nýbirtum tölum Hagstofunnar um vísitölu neysluverðs. Hækkun á verði eldsneytis og matvæla eru helstu skýringar þess að vísitala neysluverðs hækkaði í maí. Horfur eru á svipuðum verðbólgutakti á næstu mánuðum en verðbólguhorfur hafa almennt batnað eftir samþykkt kjarasamninga í aprílmánuði. Þáttur íbúðaverðs í verðbólgunni hefur minnkað jafnt og þétt undanfarið. Við gerum ráð fyrir að verðbólgumarkmið Seðlabankans gæti verið í sjónmáli í lok þessa árs.
Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,2% í maí skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 3,6% en var 3,3% í apríl. VNV án húsnæðis hækkaði einnig um 0,2% í maí og miðað við þá vísitölu mælist 3,1% verðbólga undanfarna 12 mánuði. Mæling maímánaðar er í samræmi við birtar spár. Við spáðum 0,2% hækkun VNV milli mánaða, en spár bankanna voru á bilinu 0,1% – 0,2% hækkun. Allir helstu undirliðir þróuðust í takti við spá okkar og er fátt sem kemur okkur á óvart.