..ef niðurstaða kjarasamninga verður farsæl..
Samandregið er því í stórum dráttum fyrst og fremst einn þáttur, að því gefnu að gengi krónu haldi þokkalega sjó, sem getur þrýst verðbólgu umtalsvert upp á komandi fjórðungum. Það er launakostnaður íslenskra fyrirtækja. Laun á Íslandi hafa að jafnaði hækkað um tæplega 6% umfram verðbólgu á ári hverju undanfarin fimm ár. Kaupmáttur íslenskra heimila er því tæplega 30% meiri að jafnaði um þessar mundir en hann var í ársbyrjun 2014. Það má því teljast býsna jákvæð blanda að á sama tíma og gengisfall krónu á seinni hluta ársins 2018 hefur bætt talsvert samkeppnisstöðu útflutningsfyrirtækja hér á landi hefur það ekki orðið til þess að rýra kaupmátt heimila enn sem komið er, ólíkt því sem oft hefur verið uppi á teningnum í lok íslensku hagsveiflunnar. Í því ljósi mega þeir launþegar sem eru þokkalega settir ef til vill vel við una þótt kaupmáttur þeirra aukist ekki að marki í ár.
Ef kjarasamningum þeim sem nú standa yfir lyktar með hóflegum launahækkunum þar sem meginþunginn er í að bæta kjör þeirra sem minnst hafa, líkt og nú virðist vera í kortunum, teljum við ágætar líkur á því að verðbólga aukist ekki að marki það sem eftir lifir árs. Að því gefnu að fleiri deili þeirri skoðun okkar og verðbólguvæntingar hjaðni á nýjan leik, eins og merki virðast vera um á skuldabréfamarkaði, ætti hagstjórnin í vaxandi mæli að miðast við að örva efnahagslífið sem nú virðist vera á leið í töluvert hægari takt en verið hefur.