Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hefur Seðlabankinn svigrúm til vaxtalækkunar í vor?

Ef hækkun launa í kjölfar kjarasamninga verður ekki óhófleg á komandi mánuðum eru vaxandi líkur á því að stýrivextir Seðlabankans muni lækka eftir því sem hægir á hjólum efnahagslífsins þetta vorið.


Ekki er víst að verðbólguhorfur séu til muna verri nú en þær voru fyrir fall Wow air. Ef hækkun launa í kjölfar kjarasamninga verður ekki óhófleg á komandi mánuðum eru vaxandi líkur á því að stýrivextir Seðlabankans muni lækka eftir því sem hægir á hjólum efnahagslífsins þetta vorið.

Er frekari veiking krónu endilega í kortunum?

Undanfarna daga hefur sú skoðun verið nokkuð útbreidd að gjaldþrot Wow air undir lok marsmánaðar muni leiða til meiri verðbólgu en ella á komandi fjórðungum. Helsta röksemd fyrir þessari skoðun er sú að tapaðar gjaldeyristekjur muni rýra viðskiptajöfnuðinn í ár það mikið að gengi krónu muni þurfa að gefa verulega eftir til mótvægis.

Fyrstu áhrif á gjaldeyrismarkaði eru þó ekki til þess fallin að hleypa stoðum undir þessa skoðun. Vissulega veiktist gengi krónu allnokkuð strax í kjölfar frétta af rekstrarstöðvun Wow þar til Seðlabankinn greip í taumana með gjaldeyrisinngripi sama dag. Síðan hefur hins vegar færst ró að nýju yfir gjaldeyrismarkað og er gengi krónu nú áþekkt og það var um miðjan janúarmánuð.

Staðreyndin er sú að aðrir kraftar en vöru- og þjónustuviðskipti vega oft á tíðum þyngra í skammtíma þróun gengis krónu. Má þar til að mynda nefna flæði um fjármagnsjöfnuð vegna fjárfestinga til og frá Íslandi. Lauslega má áætla að tapaðar gjaldeyristekjur vegna falls Wow air beint og óbeint gætu hlaupið á bilinu 50-80 ma.kr. í ár. Á móti kemur hins vegar að minni aðföng til öflunar þessara tekna ásamt minni innflutningi vöru og þjónustu vegna minni afleiddra umsvifa í hagkerfinu gætu numið allt að helmingi þessarar upphæðar. Við teljum því að eftir sem áður verði ekki halli af utanríkisviðskiptum í ár, nema þá að samdráttur í ferðaþjónustu verði mjög verulegur og langvinnur.

Í hagsögu undanfarinna ára höfum við bæði dæmi um ár þar sem krónan veiktist þrátt fyrir ágætan viðskiptaafgang (2018) og ár þar sem fór saman styrking krónu og umtalsverður viðskiptahalli (2004-2005). Vissulega toga þessar stærðir hvor í aðra og leita á endanum jafnvægis þótt það jafnvægi hverfi svo gjarnan jafnharðan þegar aðstæður breytast. Þegar það er haft í huga að gengi krónu hefur þegar lækkað um u.þ.b. 10% gagnvart helstu gjaldmiðlum frá miðju síðasta ári og að því gefnu að ekki verði halli á utanríkisviðskiptum í ár teljum við að færa megi góð rök fyrir því að flæði vegna fjárfestinga lífeyrissjóða og annarra innlendra aðila erlendis, og svo á hinn bóginn vegna fjárfestinga erlendra aðila í innlendum fyrirtækjum og verðbréfum geti riðið baggamuninn um hvort um frekari veikingu krónu verður að ræða í ár. Teljum við góðar líkur á að ekki verði veruleg veiking til viðbótar í ár.

Verðbólga gæti haldist hófleg..

Gefi gengi krónu ekki umtalsvert eftir það sem eftir lifir árs mun innflutt verðbólga hjaðna hægt og bítandi. Áhrifin af gengisfalli krónu á verð innfluttra vara hafa raunar enn sem komið er verið hóflegri en við áttum von á. Virk og vaxandi samkeppni í innlendri smásöluverslun hefur þar áhrif að okkar mati ásamt vaxandi blikum á lofti um innlenda eftirspurn. Að sama skapi hefur dregið úr þrýstingi íbúðaverðs á verðbólgu og eru horfur á að enn frekar hægi á hækkun íbúðaverðs. Þar hefur fall Wow meðal annars áhrif næsta kastið í gegn um minni umfang AirBnB-útleigu og hugsanlegan brottflutnings erlends vinnuafls héðan af landinu. Almennur eftirspurnarþrýstingur í hagkerfinu fer væntanlega að sama skapi minnkandi.

..ef niðurstaða kjarasamninga verður farsæl..

Samandregið er því í stórum dráttum fyrst og fremst einn þáttur, að því gefnu að gengi krónu haldi þokkalega sjó, sem getur þrýst verðbólgu umtalsvert upp á komandi fjórðungum. Það er launakostnaður íslenskra fyrirtækja. Laun á Íslandi hafa að jafnaði hækkað um tæplega 6% umfram verðbólgu á ári hverju undanfarin fimm ár. Kaupmáttur íslenskra heimila er því tæplega 30% meiri að jafnaði um þessar mundir en hann var í ársbyrjun 2014. Það má því teljast býsna jákvæð blanda að á sama tíma og gengisfall krónu á seinni hluta ársins 2018 hefur bætt talsvert samkeppnisstöðu útflutningsfyrirtækja hér á landi hefur það ekki orðið til þess að rýra kaupmátt heimila enn sem komið er, ólíkt því sem oft hefur verið uppi á teningnum í lok íslensku hagsveiflunnar. Í því ljósi mega þeir launþegar sem eru þokkalega settir ef til vill vel við una þótt kaupmáttur þeirra aukist ekki að marki í ár.

Ef kjarasamningum þeim sem nú standa yfir lyktar með hóflegum launahækkunum þar sem meginþunginn er í að bæta kjör þeirra sem minnst hafa, líkt og nú virðist vera í kortunum, teljum við ágætar líkur á því að verðbólga aukist ekki að marki það sem eftir lifir árs. Að því gefnu að fleiri deili þeirri skoðun okkar og verðbólguvæntingar hjaðni á nýjan leik, eins og merki virðast vera um á skuldabréfamarkaði, ætti hagstjórnin í vaxandi mæli að miðast við að örva efnahagslífið sem nú virðist vera á leið í töluvert hægari takt en verið hefur.

..og þá færi að hilla undir lækkun vaxta

Hvað Seðlabankann varðar felast slík viðbrögð í því að stuðla að lækkun raunvaxta. Lækki raunvextir ekki að ráði vegna hækkandi verðbólguvæntinga og/eða vaxandi verðbólgu væru því rökrétt viðbrögð Seðlabankans að huga að lækkun stýrivaxta þegar vorið gengur í garð.

Ef hins vegar niðurstaða kjarasamninga verður til þess að fyrirtækin ráða ekki við hana öðruvísi en með umtalsverðum verðhækkunum mun það mynda vaxandi þrýsting á gengi krónu og hin gamalkunna íslenska verðbólguskrúfa fer þá að snúa upp á sig eins og oft áður. Þá mun brún Seðlabankafólks þyngjast og hætt er við að þau munu kjósa að ýta upp raunvöxtum til þess að freista þess að bjarga trúverðugleika verðbólgumarkmiðs bankans. Vonandi kemur þó ekki til þess.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband