Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hausverkur, heimsendir og hefðbundin bankastarfsemi

Stundum velti ég fyrir mér hvernig bankastarfsemi væri ef hún væri fundin upp í tækniumhverfi nútímans. Myndum við þurfa svona marga bankareikninga? Þyrftum við að muna hvaða kort ætti að nota til að njóta fríðinda? Og þyrftum við í alvöru að kunna skil á lagaheitum í stað þess að fá upplýsingar á mannamáli?


Ísland og heimaland mitt Suður-Afríka virðast við fyrstu sýn ekki eiga margt sameiginlegt. Veðrið er líkast til augljósasti munurinn og alltaf vinsælt umræðuefni. En þegar allt kemur til alls er fleira sem sameinar okkur en sundrar. Suður-Afríka, og Afríkulöndin almennt, hafa um langt skeið þurft að takast á við áskoranir – stundum naumast náð jaðarhagvexti og því er nýsköpun mikilvæg til að tryggja samkeppnishæfni landanna.

Áður en ég flutti til Íslands stýrði ég stóru tækniteymi í fjölþjóðlegum banka í Afríku og hafði lengi fylgst með tækniþróun í alþjóðlega bankageiranum. Ég var sannfærður um að þegar kæmi að nýsköpun væri Ísland land tækifæranna. Hér var einstök orka og aðstæður virtust kjörnar til að endurhugsa bankastarfsemi. Nýsköpunargeirinn er sterkur og með víðtækan stuðning stjórnvalda, fyrirtækja og háskóla.

Verandi útlendingur hafði ég hins vegar ekki hugmynd um með hvaða hætti Hrunið endurskilgreindi íslenska bankageirann. Afleiðing þess er, skiljanlega, vænn skammtur af varkárni sem sumir myndu jafnvel kalla íhaldssemi, líka þegar kemur að nýsköpun. Áhersla á regluverk, ábyrga viðskiptahætti og varkárni er hryggjarstykkið í bankastarfsemi. Áskorunin sem við stöndum frammi fyrir er að nýta tækniframfarir undanfarinna ára til nýsköpunar í þágu viðskiptavina bankanna og um leið gæta þess að allt sem við gerum sé með öryggi þessara sömu viðskiptavina í fyrirrúmi.

Við þurfum að nýta gervigreindartækni, sem nú þegar hefur breytt heiminum, og tryggja hag viðskiptavina okkar. Þó það sé kannski ekki einfalt þá er klárlega hægt að gera hvoru tveggja. Ísland er í fararbroddi þegar kemur að stafrænni umbreytingu hefðbundinnar bankaþjónustu – og heilbrigð samkeppni stóru bankanna og nýliða á borð við Indó hefur haldið okkur við efnið. Við höfum verið óhrædd við nýjungar á borð við spjallmenni, sem aðstoða starfsfólk við að veita þjónustu, og bankaútibúin hafa meira og minna breyst í smáforrit í símanum. Kjarni málsins er hins vegar sá að allt þetta er takmarkað við hefðbundna bankaþjónustu. Við lifum enn og hrærumst í heimi debetkorta, kreditkorta, húsnæðislána og hefðbundinna verðbréfaviðskipta.

Stundum velti ég fyrir mér hvernig bankastarfsemi væri ef hún væri fundin upp í tækniumhverfi nútímans. Myndum við þurfa svona marga bankareikninga? Þyrftum við að muna hvaða kort ætti að nota til að njóta fríðinda? Og þyrftum við í alvöru að kunna skil á lagaheitum í stað þess að fá upplýsingar á mannamáli? Mér finnst það ólíklegt.

Það eitt að hugsa um bankastarfsemi þarf ekki valda hausverk. Tökum sem dæmi DBS í Singapúr, sem er fremstur í flokki stafrænna banka á heimsvísu. Kjörorð bankans eru „Make Banking Joyful“ (Gerum bankastarfsemi gleðilega), sem sýnir að í atvinnugreininni er kallað eftir breytingum. Ég held að skapandi gervigreind (e. Generative AI) sé lausnin, að hún hafi burði til að hjálpa okkur að feta nýjar brautir á þessari vegferð og geti jafnvel orðið sú grundvallarbreyting sem bankageirinn þarf á að halda.

Ég þarf hins vegar að fara fram á að þið hunsið alla vitleysuna sem borin er fram á fréttaveitum eða á samfélagsmiðlum dag hvern. Skapandi gervigreind mun hvorki leysa öll heimsins vandamál né valda heimsendi. Málið er öllu flóknara. Gervigreind er gríðarlega öflug vél sem býr til efni á borð við myndir, texta, tónlist og myndbönd, og getur fléttað saman gjörsamlega gölnum hugmyndum sem okkur myndi ekki einu sinni detta í hug að reyna að blanda saman. Því er ekki að undra að margir framleiðendur og lyfjafyrirtæki nýti tæknina nú þegar til þróunar og nýsköpunar. 

Skapandi gervigreind er ofurkraftur flókinnar efnissköpunar, sem áður krafðist starfskrafta mannfólks. En þið getið alveg andað rólega því ég get fullvissað ykkur um að mönnuð störf eru langt frá því að hverfa. Þau eru einfaldlega að breytast. Við getum mögulega nýtt skapandi gervigreind til að losa okkur við mikið af vinnu sem í dag felur í sér sífelldar endurtekningar fyrir sérfræðinga okkar sem þurfa að svara sömu spurningunum aftur og aftur. Sjálfvirk spurningasvörun, sem byggir á skapandi gervigreind, gerir þessum mannauði kleift að nýta tíma sinn, þekkingu og reynslu til að búa til nýjar lausnir og þjónustu sem bæta líf viðskiptavina.

Við lifum á spennandi tímum og möguleikarnir eru óþrjótandi. Það er hins vegar brýnt að huga strax að því hvernig við gerum fólki á vinnumarkaði kleift að tileinka sér nýja hæfni – og ekki síður hvernig nauðsynlegt regluverk verður þróað. Það hefur enginn áhuga á að búa í dystópísku samfélagi alræðis þar sem vélmenni stjórna öllu, síst af öllu fjármálunum okkar. Ísland hefur allt sem þarf til að vera í fararbroddi þegar kemur að hagnýtingu skapandi gervigreindar. Við erum nógu fá til að láta ekki viðráðanleg vandamál buga okkur, á sama tíma erum við mjög framarlega í nýtingu stafrænnar tækni og með aðgang að gríðarlegri þekkingu og færni.

Eftir sjö ár á Íslandi er ég enn þeirrar skoðunar að Ísland sé landið þar sem hægt er að endurhugsa bankastarfsemi. Það gerist þó ekki án þess að við séum tilbúin til að styðja við og nýta þá möguleika sem eru til nýsköpunar í bankakerfinu, í þágu viðskiptavina bankanna, í umhverfi þar sem öryggi þessara sömu viðskiptavina er í fyrirrúmi. Ef við getum nýtt skapandi gervigreind, stærstu tæknibyltingu okkar tíma, tryggjum við ekki bara samkeppnishæfni einstakra banka – og alls bankakerfisins – heldur samkeppnishæfni íslensks samfélags.

Við stöndum frammi fyrir ýmsum áskorunum sem samfélag og við þurfum, eins og Suður-Afríka, á hagvextinum, sem aukin samkeppnishæfni veitir okkur, að halda. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að taka tæknibyltingunni fagnandi, þora að skapa nýjar lausnir - og umbylta hefðbundinni bankaþjónustu.

Höfundur


Riaan Dreyer

Framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og gagnastýringar


Senda tölvupóst