Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Halli á viðskiptum með vörur og þjónustu í hámarki í ársbyrjun

Halli mældist á þjónustuviðskiptum við útlönd á upphafsfjórðungi ársins í fyrsta sinn frá árinu 2007. Samanlagður halli á vöru- og þjónustuviðskiptum var sömuleiðis sá mesti í rúm þrettán ár. Horfur eru á viðsnúningi í þessum efnum á seinni helmingi ársins og ríflegum afgangi af slíkum viðskiptum næstu tvö ár.


Halli á þjónustujöfnuði var tæplega 11 ma.kr. á fyrsta fjórðungi ársins. Er það í fyrsta sinn frá árinu 2007 sem halli mælist á þjónustuviðskiptum við útlönd. Hér er jafnframt um verulegan viðsnúning að ræða frá fjórðungunum á undan þar sem talsverður afgangur mældist á þjónustujöfnuði þrátt fyrir hrun í þjónustutekjum vegna ferðamanna.

Engin ein ástæða er fyrir óvenju óhagstæðum þjónustujöfnuði á 1F 2021. Næstu fjórðunga höfðu annars vegar tekjur vegna þeirra ferðamanna sem heimsóttu landið í júlí og ágúst í fyrra, og hins vegar miklar tekjur af útflutningi hugverka í lyfjaiðnaði, dregið vagninn í þeim talsverða þjónustuafgangi sem þá mældist. Nú varð hins vegar enginn slíkur búhnykkur til bjargar.

Myndarlegan afgang af þjónustujöfnuði við útlönd undanfarin ár má að langstærstum hluta þakka miklum útflutningstekjum af ferðamönnum eins og sjá má af myndunum. Sem dæmi má nefna að árið 2019 var þjónustuafgangur 260 ma.kr. en afgangur vegna ferðalaga og farþegaflutninga með flugi var á sama tíma ríflega 266 ma.kr. Undanfarna fjórðunga hefur þessi afgangur að mestu horfið eins og dögg fyrir sólu sem vonlegt er. Var halli vegna þessara liða tæplega 3 ma.kr. á 1F 2021.

Samsetning útflutningstekna hefur breyst mikið eftir að COVID-19 faraldurinn skall á. Góðu heilli hefur útflutningur sjávarafurða að mestu haldið sjó og útflutningur iðnaðarvara verið í járnum síðustu fjórðunga. Fyrrnefnda greinin skilaði ríflega 66 mö.kr. í útflutningstekjum og sú síðarnefnda tæplega 57 mö.kr. á 1. fjórðungi ársins. Þannig voru útflutningstekjur vegna sjávarafurða tæplega 30% af heildartekjum á tímabilinu og tekjur af útflutningi áls og álafurða ríflega 25% heildartekna, en tekjur af erlendum ferðamönnum voru tæplega 4% heildarteknanna. Til samanburðar voru tekjur af erlendum ferðamönnum 34% heildar útflutningstekna árið 2019 en sjávarafurðir skiluðu 19% og ál 16% af heildartekjunum það ár.

Á fyrsta ársfjórðungi mældist halli á bæði vöruskiptum og þjónustuviðskiptum í fyrsta skipti síðan á lokafjórðungi ársins 2007. Reglan hefur nánast verið sú undanfarin ár að þjónustuafgangur hefur vegið þyngra en halli á vöruskiptum. Alls var halli á slíkum viðskiptum tæpir 33 ma.kr. á 1F.

Líklega verður aftur halli á vöru- og þjónustujöfnuði á 2. fjórðungi ársins. Ferðamenn eru þó farnir að skila sér í vaxandi mæli til landsins og líkur eru á að hallinn á 2F reynist talsvert minni en á 1F.

Við gerum hins vegar ráð fyrir viðsnúningi í þessum efnum á seinni helmingi ársins. Í nýútkominni þjóðhagsspá spáum við því að heildarfjöldi ferðamanna hingað til lands verði um 700 þúsund. Mun langstærstur hluti þeirra skila sér á seinni árshelmingi og þjónustutekjur vegna þeirra þar með margfaldast frá því sem verið hefur undanfarið. Ekki er heldur loku fyrir það skotið að hugverkatekjur í lyfjaiðnaði hífi myndarlega upp tekjutölur lokafjórðungs ársins líkt og undanfarin ár. Á móti er líklegt að ferðagleði landans vaxi hröðum skrefum eftir faraldurinn. Þá kalla aukin umsvif ferðaþjónustunnar og vaxandi innlend eftirspurn á talsvert meiri innflutning en verið hefur. Alls gerum við ráð fyrir að vöru- og þjónustuviðskipti verði nánast í jafnvægi þetta árið. Í kjölfarið er hins vegar útlit fyrir talsverðan afgang næstu ár þegar ferðaþjónustan kemst á fullan skrið að nýju.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband