Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hagstæð vöruskipti í árslok

Myndarlegur útflutningur átti stóran þátt í því að vöruskiptaafgangur mældist í desember eftir tæp tvö ár af samfelldum halla. Innflutningur jafnt sem útflutningur skrapp líklega saman um u.þ.b. 1/10 á liðnu ári. Vöruskiptahalli var minni í fyrra en árið á undan, en líklegt er að hann verði áfram talsverður á komandi fjórðungum.


Afgangur upp á 1 milljarð króna var af vöruskiptum við útlönd í desember samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Er það fyrsti mánuðurinn frá janúar 2019 þar sem vöruútflutningur mælist meiri en innflutningur, en í ársbyrjun 2019 seldi WOW air tvær farþegaþotur úr landi og hafði það mikil áhrif á mánaðartölurnar þá.

Myndarlegur útflutningur og hóflegur innflutningur

Vöruútflutningur í desember nam 58,6 mö.kr. og í krónum talið var mánuðurinn í þriðja sæti yfir verðmæti vöruútflutnings á síðasta ári. Þar munaði mestu um myndarlegan útflutning á sjávarafurðum og iðnaðarvörum. Heimsmarkaðsverð á áli hefur tekið töluverðan fjörkipp á síðustu mánuðum og á það efalítið þátt í drjúgum útflutningstekjum af iðnaðarvörum. Sambærileg þróun hefur hins vegar ekki orðið í verði sjávarafurða og skrifast því aukið útflutningsverðmæti þeirra líklega frekar á magn en verð. Eins og sjá má af myndunum sker lokaþriðjungur ársins sig úr hvað varðar myndarlegan útflutning og hefur sú þróun bætt vöruskiptin talsvert þrátt fyrir að innflutningur hafi einnig aukist í krónum talið á þessu tímabili.

Á innflutningshliðinni var innflutningur á eldsneyti og flutningatækjum með minna móti í desember en talsverður innflutningur var hins vegar á hrá- og rekstrarvörum í mánuðinum. Almennt hefur dregið úr innflutningi undanfarna mánuði reiknað á föstu gengi og á það einnig nokkurn þátt í hagfelldari vöruskiptum upp á síðkastið.

Minni vöruskiptahalli í fyrra

Á nýliðnu ári var vöruskiptahalli 95 ma.kr. miðað við bráðabirgðatölur desembermánaðar. Hallinn var þannig 23 mö.kr. minni en á árinu 2019 miðað við þessar tölur. Í krónum talið var vöruútflutningur 3% minni í fyrra en árið áður, en innflutningur skrapp saman um 6%. Hins vegar ber að hafa í huga að gengi krónu var að jafnaði 10% lægra gagnvart helstu gjaldmiðlum á árinu 2020 en var árið 2019. Því var samdrátturinn í útflutningi jafnt sem innflutningi vöru töluvert meiri í fyrra, mælt í erlendri mynt.

Hagstofan birti nýlega niðurbrot á þróun vöruútflutnings og -innflutnings á fyrstu 11 mánuðum síðasta árs. Þar kom fram að vöruútflutningur skrapp saman um nærri 10% í magni mælt frá sama tímabili árið 2019 en innflutningur um rúm 11% á sama kvarða. Gefa þær tölur væntanlega allskýra mynd af árinu í heild.

Á heildina litið hefur þróun vöruskipta frá því Kórónukreppan skall á verið nokkurn veginn í takti við væntingar okkar. Óhagstæð verðþróun á útflutningsvörum setti nokkuð strik í reikninginn á tímabili en sem betur fer hefur þar orðið breyting til hins betra, sér í lagi á álverði. Þá hefur samdráttur í innflutningi verið ívið meiri en vænta mátti.

Horfur á áframhaldandi halla

Á yfirstandandi ári má gera ráð fyrir að vöruskiptahalli verði áfram nokkur. Lítil breyting virðist í pípunum hvað varðar útflutning sjávarafurða, að eldisfiski undanskildum. Aftur á móti gæti útflutningsverðmæti álafurða orðið talsvert meira í ár en í fyrra þar sem verð hefur hækkað umtalsvert og ónýtt framleiðslugeta er fyrir hendi eftir samdrátt í framleiðslumagni undanfarin misseri. Á móti vegur að aukin fjárfesting segir fljótt til sín í innflutningstölunum og þá má gera ráð fyrir að einkaneysla taki einnig við sér þegar lengra líður á árið með tilheyrandi vexti í innflutningi neysluvara.

Stærsti óvissuþátturinn er þó hvenær, og hversu hratt, ferðaþjónustan tekur við sér á nýjan leik eftir COVID-faraldurinn. Þeirri þróun mun fylgja aukinn innflutningur, bæði á aðföngum fyrir greinina sjálfa og vegna áhrifa hennar á innlenda eftirspurn. Vöxtur í hreinum þjónustutekjum mun þó vega til muna þyngra í því reikningsdæmi. Þannig lítur út fyrir að viðskiptajöfnuður hafi verið nálægt jafnvægi á síðasta ári og eflaust verður sú áfram raunin meðan ferðaþjónustan liggur niðri. Með upprisu ferðaþjónustunnar eru hins vegar horfur á að afgangur myndist að nýju á utanríkisviðskiptum líkt og raunin var lengst af síðasta áratug.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband