Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hægir talsvert á hagvexti

Hröð fjölgun ferðamanna skýrir stærsta hluta hagvaxtar á öðrum ársfjórðungi. Að öðru leyti hefur hægt talsvert á vexti í hagkerfinu. Til að mynda hægir hratt á vexti einkaneyslu sem hefur verið helsti drifkraftur hagvaxtar síðustu ár.


Hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi var 4,5% samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem birtust í gær. Vöxturinn var að stærstum hluta drifinn áfram af vaxandi útflutningstekjum vegna verulegrar fjölgunar ferðamanna í ár. Miðað við tölur Hagstofunnar er að öðru leyti útlit fyrir hratt kólnandi hagkerfi. Þar skiptir sköpum að nú er tekið við tímabil þar sem samanburðarárið er ekki litað af áhrifum faraldursins líkt og verið hefur undanfarna fjórðunga.

Hægir hratt á einkaneysluvextinum

Einkaneysla jókst um 0,5% á öðrum ársfjórðungi miðað við sama fjórðung árinu áður. Það er talsvert breytt staða miðað við undangengna fjórðunga þar sem einkaneyslan hefur verið helsti drifkraftur hagvaxtar síðustu misseri. Miðað við þessar tölur hefur hægt talsvert hratt á einkaneysluvextinum og hafa ýmsir hagvísar á borð við kortaveltugögn undanfarið gefið góðar vísbendingar um það. Einnig er gott að hafa í huga að fólksfjölgun hérlendis hefur verið gífurleg síðustu misseri og því jafnvel gagnlegra að skoða einkaneyslu á hvern mann. Ef tekið er tillit til þess dregst einkaneysla saman um 2,8% á mann á 2. fjórðungi frá sama tíma í fyrra .

Ljóst er að áhrif mikillar verðbólgu og hækkandi vaxta eru farin að setja mark sitt á neyslu landsmanna. Virðast heimili landsins vera að stíga nokkuð þétt á neyslubremsuna eftir mikla neyslugleði undanfarinna missera. Útlit er fyrir að áfram muni hægja á einkaneysluvextinum og einkaneyslan er raunar líkleg til að dragast saman þegar líður á árið.

Fjölgun ferðamanna meginástæða hagvaxtar á öðrum fjórðungi

Útflutningur var helsti burðarás hagvaxtar á öðrum ársfjórðungi. Alls jókst útflutningur um tæp 8% að raungildi á fjórðungnum þar sem allur vöxturinn skrifast á þjónustuhliðina. Útflutningur þjónustu jókst um 19,5% milli ára á meðan útflutningur á vörum dróst lítillega saman eða um 1%. Mikil fjölgun ferðamanna skýrir þennan mikla vöxt í þjónustuútflutningi. Á fyrri helmingi ársins komu tæplega milljón ferðamenn hingað til lands í gegnum Keflavíkurflugvöll sem er um 50% aukning á milli ára.

Miklar líkur eru á því að þjónustuútflutningur haldi áfram að vaxa næsta kastið. Í þjóðhagsspá okkar spáðum við því að fjöldi erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll færi nokkuð yfir 2,1 milljón í ár og yrði 2023 þar með næstfjölmennasta árið frá upphafi á þessu leyti. Ágætar líkur eru á því að spáin sé í hóflegri kantinum og fjöldinn verði ívið meiri á árinu.

Innflutningur jókst um 1% miðað við sama ársfjórðung árinu áður og þar af leiðandi hægir talsvert á vexti innflutnings frá undanförnum fjórðungum. Leita þarf aftur til fyrsta fjórðungs 2021 til að finna minni vöxt. Vöruinnflutningur jókst um ríflega 2% á sama tíma og þjónustuinnflutningur dróst saman um 1%. Endurspeglar það minni eftirspurn íslendinga eftir utanlandsferðum en í fyrra. Á 2. fjórðungi þessa árs fækkaði utanferðum landsmanna þannig um rúm 7% frá sama tímabili 2022.

Atvinnuvegafjárfesting ástæða vaxtar í fjármunamyndun

Fjármunamyndun jókst um 1,6% á öðrum ársfjórðungi frá sama fjórðungi í fyrra. Var það alfarið vegna þess að atvinnuvegafjárfesting jókst um 7,5%. Hins vegar var samdráttur í fjárfestingu íbúðarhúsnæðis (-5,4%) sem og fjárfestingu hins opinbera (-9,0%). Hagstofan bendir þó á það að nokkur óvissa ríkir um gæði gagna á fjárfestingu íbúðarhúsnæðis en samdrátt í opinberri fjárfestingu megi að miklu leyti rekja til minna umfangs í opinberum framkvæmdum sveitarfélaga.

Svo mikill samdráttur í íbúðafjárfestingu kemur okkur nokkuð á óvart. Í ljósi þess hversu stórt hlutverk íbúðamarkaður leikur þessa dagana í verðbólgu- og hagþróun er óheppilegt að Hagstofan hefur undanfarið alltaf sett þann varnagla á að óvissa ríki um gæði gagnanna hvað varðar þessa tegund fjárfestingar. Það sem af er ári hafa ríflega 2.100 nýjar íbúðir komið inn á markaðinn samkvæmt mælaborði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar (HMS). Miðað við íbúðir í byggingu á síðasta framvindustigi gætu 700 nýjar íbúðir bæst við á árinu. Það er svipaður fjöldi og kom inn á markaðinn í fyrra þegar tæplega 2.900 nýjar íbúðir komu inná markaðinn.

Kólnandi hagkerfi

Miðað við þessar tölur Hagstofunnar er ljóst að loksins er farið að hægja talsvert á vaxtartaktinum í hagkerfinu. Vöxturinn skýrist einna helst á fjölgun ferðamanna og líklega mun sú þróun halda áfram komandi fjórðunga.  Hagvöxtur á fyrri helmingi ársins mælist nú 5,8%. Hagstofan endurskoðaði raunar einnig landsframleiðslutölur síðustu ára við birtinguna í morgun. Við þá endurskoðun reyndist vöxturinn til að mynda vera talsvert meiri í fyrra en áður var gert ráð fyrir eða 7,2% í stað 6,4% en sú breyting skýrist að stærstum hluta af meiri vexti útflutnings, fjárfestingar og samneyslu en fyrra mat gaf til kynna.

Í Þjóðhagsspá okkar í maí spáðum við í Greiningu Íslandsbanka því að hagvöxtur þessa árs yrði rétt um 3%. Miðað við þessar tölur er sú spá enn góð og gild. Við eigum von á því að það muni halda áfram að draga úr eftirspurnarvexti í hagkerfinu en útflutningsvöxtur halda áfram af krafti næsta kastið.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband