Hæg hjöðnun verðbólgunnar í febrúar

Vísitala neysluverðs hækkaði meira í febrúar en spár gerðu ráð fyrir. Þrátt fyrir það hjaðnaði ársverðbólga smávegis og mælist nú 6,6%. Útsölulok eru helsta ástæða mikillar hækkunar en líklega verða útsöluáhrifin minni í mars fyrir vikið. Einnig hækkuðu sorphirðugjöld talsvert í mánuðinum. Verðbólga mun halda áfram að hjaðna á næstu fjórðungum samkvæmt spá okkar.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði nokkuð óvænt um 1,3% í febrúar samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hjaðnar þó úr 6,7% í 6,6%. Verðbólga miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis hjaðnar úr 5,2% í 4,7% undanfarna 12 mánuði.

Mæling febrúarmánaðar er yfir öllum birtum spám. Spár voru á bilinu 0,8 – 1,0% hækkun vísitölunnar og við spáðum 0,8% hækkun. Það helsta í mælingunni sem kom okkur á óvart eru að áhrif útsöluloka eru meiri en við væntum. Þau áhrif verða þá líklega minni í marsmælingunni fyrir vikið.

Sorphirðugjöld hækka og vega þungt

Húsnæðisliðurinn vegur þyngst til hækkunar á vísitölunni í febrúar. Ekki er þó allt sem sýnist þar sem hækkun í reiknuðu húsaleigunni er nokkuð hófleg eða um 0,7% (0,13% áhrif á VNV). Það sem vegur aftur á móti þyngst til hækkunar er undirliðurinn „annað vegna húsnæðis“ sem hækkar um 11% (0,18% áhrif á VNV) og er það að mestu vegna 17% hækkunar á sorphirðugjöldum.

Hækkunin á reiknuðu húsaleigunni er í takti við okkar spá. Þar vegur vaxtaþátturinn þyngra og vegur til tæplega 0,6% hækkunar en markaðsverðið hækkar einungis um 0,1% á milli mánaða. Þetta er talsverð breytt staða frá því sem var þegar verðhækkun á íbúðamarkaði var einn helsti drifkraftur hækkunar á vísitölunni.

Það verður áhugavert á fylgjast með þróuninni á íbúðamarkaði næstu mánuði. Við teljum að uppkaup ríkisins á eignum í Grindavík muni hafa einhver áhrif til hækkunar líkt og við fjölluðum um í þjóðhagsspá okkar. Gæti farið svo að íbúðaverð á Suðurnesjum muni hækka meira en annarsstaðar þar sem útlit er fyrir að margir íbúar Grindavíkur vilji búa á því svæði. Ef það verður raunin munum við líklega sjá markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækka hraðar en vísitölu íbúðaverðs sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun reiknar þar sem Hagstofan mælir íbúðaverð um allt land en vísitalan nær einungis til höfuðborgarsvæðisins.

Áhrif útsöluloka eru mikil

Útsölulok vógu þungt til hækkunar vísitölunnar í mánuðinum eftir drjúgar útsölur í janúar. Föt og skór hækkuðu í verði um 8,4% (0,30% áhrif á VNV) og húsgögn og heimilisbúnaður um 5,5% (0,31% áhrif á VNV). Einnig hækkaði liðurinn tómstundir og menning um 1,2% (0,12% áhrif á VNV), að mestu vegna útsöluloka í undirliðnum sjónvörp, tölvur og fleira.

Aðrir helstu liðir sem hækkuðu í mælingunni voru matar- og drykkjarvörur um 0,7% (0,10% áhrif á VNV) og flugfargjöld sem hækkuðu um 2,3% (0,04% áhrif á VNV) eftir töluverða lækkun í síðasta mánuði. Verð á hótelum og veitingastöðum hækkaði einnig um 0,6% (0,03% áhrif á VNV).

Undirliggjandi verðbólga minnkar

Það má segja að jákvæðu fréttirnar varðandi þessar verðbólgutölur eru þær að undirliggjandi verðbólga lækkar á alla mælikvarða. Undirliggjandi verðbólga undanskilur sveiflukennda liði og horfir Seðlabankinn m.a. talsvert til undirliggjandi verðbólgu til að meta verðbólguþrýsting í aðdraganda vaxtaákvarðana.

Af 6,6% ársverðbólgu í febrúar skýrir húsnæðisliðurinn stærstan hluta eða 3%, þjónusta skýrir næstmest af verðbólgunni eða um 1,9%, innlendar vörur um 1% og innfluttar vörur um 0,9%. Þetta er talsverð breytt staða frá því sem áður var þegar húsnæðisliðurinn og innfluttar vörur voru megindrifkraftar verðbólgunnar.

Horfurnar á næstunni

Þrátt fyrir þessa nokkuð óvæntu hækkun vísitölunnar í febrúarmælingunni hjaðnar verðbólga smávegis. Það virðist sem mestöll útsöluáhrifin hafi komið fram nú í mælingunni og verði minni fyrir vikið í marsmánuði. Samkvæmt spá okkar mun verðbólga hjaðna hratt á næstu mánuðum. Við uppfærum því aðeins bráðabirgðaspá okkar með tilliti til þessa og gerum ráð fyrir 0,4% hækkun vísitölu neysluverðs í mars í stað 0,6%. Þá gerum við ráð fyrir hækkun upp á 0,7% í apríl og 0,3% í maí. Gangi það eftir mun verðbólga mælast 5,7% í maí. Helstu óvissuþættir í skammtímaspánni okkar er gengi krónunnar og verðþróun á íbúðamarkaði. Hagstofan birtir greinargerð um nýja aðferð við mælingu á reiknuðu húsaleigunni í mars en áhrif á mælinguna fyrst um sinn er einnig stór óvissuþáttur

Í langtímaspá okkar gerum við ráð fyrir að verðbólga verði 5,6% að jafnaði á þessu ári, 3,3% árið 2025 og 3,1% árið 2026. Verðbólga mun því ekki ná markmiði Seðlabankans en vera í námunda við það á seinni hluta spátímans. Helsti óvissuþáttur til lengri tíma er að okkar mati hvernig kjarasamningar munu þróast.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband