Gott að vita

Þegar þú skrifar ferilskrá og ert að undirbúa þig fyrir atvinnuviðtal eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga.


Gerð fer­il­skrár

Engar heilagar reglur gilda um gerð ferilskrár, hún er oft það fyrsta sem atvinnuveitandinn sér frá þér. Þess vegna er mikilvægt að vanda til verka. Frágangur og uppsetning umsóknar gætu haft áhrif á möguleika á viðtali.

Tilgangur ferilskrár er að vinnuveitandi geti séð hvort umsækjandi uppfylli þær meginkröfur sem gerðar eru til starfsins. Ef til viðtals kemur mun gefast tækifæri til að fjalla nánar um það sem í henni stendur.

Einfalt og skýrt eru lykilorðin við gerð ferilskrár.  Æskilegt er að hún sé ekki meira en ein til tvær síður. Lengd hennar miðast þó við hvort umsækjandi hefur nýlega lokið námi eða hefur verið lengi á vinnumarkaði.

Persónuupplýsingar

Hér eru settar inn helstu persónuupplýsingar.

Menntun

Byrjað er á því námi sem síðast var lokið. Helstu upplýsingar sem þurfa að koma fram eru skóli, heiti náms, gráða, einkunnir og námstími. Einnig getur verið gott að tilgreina þau fög sem umsækjandi lagði áherslu á í námi. Ef umsækjandi hefur sótt námskeið sem skipta máli í því starfi sem hann sækir um er það sett inn hér.

Starfsferill

Nýjasta eða núverandi starf er sett inn fyrst.  Helstu upplýsingar sem þurfa að koma fram eru vinnustaður, stöðuheiti og tímalengd í starfi, ásamt upplýsingum um helstu verkefni og ábyrgðarsvið.

Persónutengd atriði

Auk ofangreindra upplýsinga getur umsækjandi getið um annað sem skiptir máli, s.s. tölvukunnáttu, tungumálakunnáttu, áhugamál, félagsstörf eða markmið. Ef umsækjandi hefur ákveðnar skoðanir á því hvers konar verkefnum hann hefur áhuga á, eða telur sig vera sterkan á ákveðnum sviðum, er gott að geta þess í fáeinum orðum til að lesandi átti sig á því hvar innan fyrirtækisins kraftar viðkomandi myndu nýtast best.

Umsagnaraðilar

Vinnuveitendur óska eftir umsögn frá aðilum sem geta nefnt bæði styrkleika og veikleika. Umsagnaraðilar ættu að vera a.m.k. tveir og skal gefa upp nafn þeirra, stöðu og símanúmer. Ef atvinnuleit á að fara leynt í byrjun þarf að koma fram ef umsagna skuli ekki leita án samráðs við umsækjanda.

Starfs­við­töl

Tilgangur starfsviðtals er fyrst og fremst þríþættur:

Auka við þær upplýsingar sem fyrir liggja um menntun og fyrri reynslu.
Leggja mat á hvers kyns eiginleika sem gert er ráð fyrir að tengist frammistöðu í starfi.
Kynna starfið og fyrirtækið fyrir umsækjanda.

Mikilvægt er að líta á viðtalið sem tækifæri fyrir báða aðila til að miðla og safna upplýsingum. Umsækjandi ætti því að vera tilbúinn að greina bæði frá styrkleikum og veikleikum. Ekkert okkar er fullkomið og er því mikilvægt að finna réttu hæfileikanna fyrir starfið.

Í viðtali byrjar vinnuveitandi yfirleitt á því að kynna starfið og fara nánar yfir þær upplýsingar sem fram komu í umsókninni. Vinnuveitandi spyr gjarnan spurninga sem hjálpa við mat á umsækjanda.   

Mikilvægt er að mæta á réttum tíma, vera snyrtilegur til fara og hafa kynnt sér fyrirtækið áður en til viðtals kemur.  Þannig er umsækjandi líklegri til að geta skýrt frá því sem hann hefur fram að færa og hvernig það gæti gagnast fyrirtækinu.

Gott er að undirbúa nokkrar spurningar.  Undirbúningur fyrir viðtal gefur til kynna hversu vel umsækjandi undirbýr sig fyrir önnur verkefni.