Uppskeruhátíð áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka 2024 fór fram í höfuðstöðvum bankans í Norðurturni fimmtudaginn 17. október sl. Þar komu saman fulltrúar góðgerðafélaga, hlauparar, starfsmenn og stuðningsaðilar hlaupsins til að fagna árangri áheitasöfnunarinnar sem fram fór á vefnum hlaupastyrkur.is.
Met var slegið í söfnun áheita, en heildarupphæðin sem nú hefur verið safnað í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka frá því áheitasöfnun hófst árið 2006 er komin í rúmlega 1,8 milljarða króna. Í ár söfnuðust tæpar 255,4 milljónir króna.
Solaris, björgunarsveitir og styrktarfélag
Haraldur Ingi Þorleifsson safnaði mest allra einstaklinga, eða tæplega 2,1 milljón króna fyrir Solaris. Næstmestu safnaði Berglind Sigurðardóttir, rúmum 1,4 milljónum króna fyrir björgunarsveitirnar Dagrenningu og Bróðurhönd. Í þriðja sæti í söfnun einstaklinga var svo Nanna Björg Lúðvíksdóttir, sem safnaði ríflega 1,4 milljónum króna fyrir Styrktarfélag Alexöndru P. Barkardóttur.
Hlaupahópurinn sem mestu safnaði hljóp í minningu Leós Ásgeirssonar og aflaði Krýsuvíkursamtökunum tæplega 4,4 milljónum króna.
Í ár söfnuðu 169 góðgerðafélög áheitum og hafa þau verið greidd til félaganna. Öll áheit fara beint til félaganna þar sem Íslandsbanki greiðir allan kostnað við söfnunina.
Ljósið, Gleym-mér-ei og Píeta samtökin
Félögin sem fengu flest áheit í hlaupinu í ár eru Ljósið - endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda sem safnaði rúmum 22,8 milljónum króna, Gleym-mér-ei styrktarfélag sem safnaði tæpum 16,9 milljónum króna og Píeta samtökin, sjálfsvígs- og sjálfsskaða forvarnir sem safnaði rúmum 12,9 milljónum króna.
Þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoninu í ár voru um 14 þúsund talsins og seldist upp í hálft maraþon og í 10 km hlaupið. Hlaupið er lykilfjármögnunarviðburður fjölmargra góðgerðarfélaga sem um leið styður við fjölmörg af heimsmarkmiðunum. Íslandsbanki er stoltur af stuðningi sínum við hlaupið og íslensk góðgerðarfélög.
Fleiri myndir frá uppskeruhátíðinni sem Íslandsbanki bauð til í Norðurturni má sjá hér: https://flickr.com/photos/ithrottabandalag/albums/72177720321290382/