Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Gjaldeyrisforði Seðlabankans myndarlegur þrátt fyrir mikið útflæði

Seðlabankinn hefur selt jafnvirði 167 milljarða króna úr gjaldeyrisforða sínum frá því Kórónukreppan skall á í því skyni að skapa stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og mæta spurn innlendra og erlendra aðila eftir gjaldeyri. Gjaldeyrisforði bankans er þó enn drjúgur og áhætta vegna fjármagnsflótta hefur minnkað umtalsvert. Þokkalegt jafnvægi ríkir á gjaldeyrismarkaði um þessar mundir og innflæði er líklegt að aukast þegar ferðaþjónustan kemur undir sig fótum á nýjan leik.


Umtalsvert gjaldeyrisútflæði hefur orðið undanfarið ár vegna sölu erlendra aðila á íslenskum verðbréfum. Samkvæmt nýlega birtu riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika, var hrein nýfjárfesting neikvæði um 57 ma.kr. á árinu 2020 og um 58 ma.kr. á fyrsta fjórðungi þessa árs. Fram kemur í ritinu að tvær stórar hreyfingar erlendra aðila skýri meginhluta þessarar þróunar:

  • Stór skuldabréfasjóður sem í ársbyrjun 2020 átti helming allra ríkisbréfa sem á annað borð voru í erlendri eigu seldi öll ríkisbréf sín á síðasta ári. Salan fór að stærstum hluta fram á haustmánuðum og greindi Seðlabankinn raunar frá því að bankinn hefði á endanum haft samband við þennan aðila og gert samkomulag um að leggja til gjaldeyri í viðskiptunum til að draga úr þrýstingi á gjaldeyrismarkaði.
  • Erlend sjóðafyrirtæki losuðu stöðu sína í hlutabréfum Arion banka á fyrsta fjórðungi þessa árs. Til að mynda seldi vogunarsjóðurinn Taconic, sem í ársbyrjun var stærsti einstaki hluthafi í bankanum, allan sinn hlut í bankanum samkvæmt umfjöllun í Fjármálastöðugleika.

Þessa þróun má glöggt greina í myndinni hér fyrir ofan sem sýnir flæði vegna nýfjárfestinga sem skráðar hafa verið hjá Seðlabanka Íslands undanfarin ár. Hér ber þó að hafa í huga að ef fjárfestingar framangreindra aðila hafa að hluta verið varðar með gjaldeyrisskiptasamningum í upphafi kann gjaldeyrisflæði vegna þeirra að vera talsvert minna en fjárhæðirnar á myndinni gefa til kynna. Kann þetta að skýra að hluta hvers vegna framangreind hlutabréfasala virðist ekki hafa valdið umtalsverðum þrýstingi á gengi krónu á fyrsta fjórðungi þessa árs.

Lífeyrissjóðir seldu gjaldeyri á aðventunni

Auk erlendra aðila hafa lífeyrissjóðir verið að jafnaði nokkuð umfangsmiklir kaupendur gjaldeyris undanfarið enda fara sjóðirnir ört stækkandi og þörf þeirra fyrir kaup á erlendum verðbréfum því umtalsverð. Þróunin síðustu fjórðunga hefur hins vegar verið býsna athyglisverð ef marka má tölur Seðlabankans.

Glöggt má sjá áhrif samkomulags sjóðanna við Seðlabankans um að gera hlé á meginhluta gjaldeyriskaupa frá miðjum mars fram í september á myndinni hér að ofan. Hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóða voru jafnvirði 3 ma.kr. að jafnaði í mánuði hverjum á tímabilinu apríl – ágúst 2020 samanborið við ríflega 9 ma.kr. á mánuði 12 mánaða tímabilið þar á undan. Samkomulagið rann svo sitt skeið í september og tóku þá sjóðirnir aftur til við gjaldeyriskaup af svipuðum krafti og verið hafði fyrir COVID-faraldurinn. Undir árslok 2020 kom hins vegar annað hljóð í strokkinn og í desember nam hrein gjaldeyrissala lífeyrissjóða, þ.e. sala umfram gjaldeyriskaup, tæplega 2 mö.kr.

Fram kemur í Fjármálastöðugleika að skýringin á þessu gæti legið í því að hlutfall erlendra eigna í safni sumra sjóða hefði verið komið nálægt innri viðmiðum þeirra fyrir hlutfall af heildareignum. Hlutfall erlendra eigna af heildareignum lífeyrissjóða var tæp 34% í lok síðasta árs samkvæmt Seðlabankanum og hækkaði hlutallið um tæp 4% á árinu 2020.

Viðamikil sala úr gjaldeyrisforðanum..

Seðlabankinn hefur brugðist bæði við hléi á gjaldeyrisinnflæði frá ferðaþjónustunni vegna faraldursins og framangreindu útflæði vegna fjármagnsviðskipta með sölu á gjaldeyri úr forða sínum. Hér að ofan má sjá hvernig bankinn hefur mætt síðarnefnda útflæðinu með tímabundnum inngripum auk þess að leggja gjaldeyrismarkaði reglulega til evrur allt frá miðjum septembermánuði. Alls nemur þessi gjaldeyrissala bankans jafnvirði 167 ma.kr. frá því faraldurinn skall á og fram til loka marsmánaðar síðastliðins. Á kauphliðinni voru m.a. erlendir aðilar sem seldu hlutabréf fyrir 62 ma.kr. og ríkisbréf fyrir 29 ma.kr. á tímabilinu, auk 23 ma.kr. af aflandskrónum sem leituðu út um gjaldeyrismarkað. Þá námu hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóða á sama tíma alls tæpum 56 mö.kr. Samanlagt gæti því spurn þessara aðila eftir gjaldeyri hafa verið í námunda við þá fjárhæð sem Seðlabankinn seldi. Þó er aftur rétt að minna á að einhver hluti verðbréfaeignar erlendra aðila kann að hafa verið varinn fyrir gjaldmiðlaáhættu með framvirkum samningum.

..en gjaldeyrisstaðan enn sterk

Þessi umfangsmikla gjaldeyrissala hefur óhjákvæmilega sett mark sitt á gjaldeyrisforða Seðlabankans. Hreinn forði bankans nam 4,7 mö. evra, jafnvirði nærri 640 ma.kr., í ársbyrjun 2020. Í lok mars sl. var hreinn gjaldeyrisforði Seðlabankans, þ.e. gjaldeyriseignir að frátöldum skuldum í gjaldeyri, 3,4 ma. evra sem samsvarar tæplega 510 mö.kr. Minni breytingar hafa hins vegar orðið á brúttóforða Seðlabankans þar sem ríkissjóður lagði inn í bankann í upphafi árs 750 m. evra sem hann hafði aflað með skuldabréfaútboði. Heildarforðinn nam í lok mars jafnvirði 857 mö.kr. samanborið við 822 ma.kr. í ársbyrjun 2020 á stundargengi.

Einhverjir kunna að velta því fyrir sér hvort Seðlabankinn sé að fara full frjálslega með gjaldeyrisforðann í ljósi þess að fljótandi örmynt eins og íslensku krónunni er alger nauðsyn að búa við það skjól sem myndarlegur gjaldeyrisforði getur veitt. Það er þó ekki raunin að okkar mati heldur eru gild rök fyrir aðgerðum bankans undanfarið. Gjaldeyrisforði Seðlabankans er enn býsna drjúgur og sé hann settur í samhengi við aðrar hagstærðir verður ekki annað séð en að hann sé í flestum skilningi nægur og rúmlega það.

Hlutverk gjaldeyrisforðans er vitaskuld að hluta það að varna óhóflegum gjaldeyrissveiflum vegna tímabundins útflæðis, til dæmis tengt sölu á auðseljanlegum krónueignum erlendra aðila. Slíkar eignir eru í algeru lágmarki um þessar mundir enda hafa þær leitað út í umtalsverðu magni undanfarið ár eins og rakið er hér að framan.

Á myndinni hér að ofan má sjá einfaldaðan samanburð á stöðu vegna nýfjárfestinga erlendra aðila frá ársbyrjun 2015 annars vegar, og gjaldeyrisforðanum hins vegar. Ekki verður annað séð en að bankanum ætti að reynast það létt að útvega gjaldeyrismarkaði gjaldeyri vegna allra slíkra eigna sem eftir eru hérlendis. Hér má einnig nefna að samkvæmt Fjármálastöðugleika er gjaldeyrisforðinn um þessar mundir 168% af samsettu forðaviðmiði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem ætlað er að segja til um hvort forðinn sé nægur til þess að afstýra umtalsverðu gengisfalli eða gjaldeyriskreppu ef til áfalls kemur.

Gjaldeyrisforðinn er heldur ekki einn um þá hitu að skapa krónunni styrkar undirstöður um þessar mundir. Erlend staða þjóðarbúsins í heild er gríðarsterk og námu erlendar eignir umfram skuldir þriðjungi af VLF um síðustu áramót. Þessi góða staða dregur mikið úr líkunum á því að illviðráðanlegt útflæði muni eiga sér stað um gjaldeyrismarkaðinn á næstunni.

Þegar COVID-faraldurinn lætur á endanum undan síga og ferðaþjónusta tekur við sér á nýjan leik mun innflæði gjaldeyristekna væntanlega aukast verulega og Seðlabankinn væntanlega geta sleppt hendinni af gjaldeyrismarkaði. Gjaldeyrisflæði undanfarnar vikur hefur raunar verið í ágætis jafnvægi og hefur bankinn þegar dregið umtalsvert úr umsvifum sínum á markaði, bæði með minni reglulegri gjaldeyrissölu og fátíðum óreglulegum inngripum. Jafnvel gæti bankinn fyrr en síðar komist í svipaða stöðu og árin 2016-2017 þar sem hann keypti háar fjárhæðir á gjaldeyrismarkaði í því skyni að stækka gjaldeyrisforðann og hægja á styrkingu krónu á þeim tíma.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband