Söfnun gjaldeyriseigna lífeyrissjóða og annarra innlendra aðila átti stóran þátt í því að gengi krónu gaf talsvert eftir á síðasta ári þrátt fyrir myndarlegan viðskiptaafgang. Gjaldeyrisflæði vegna fjárfestinga inn og út úr hagkerfinu mun að mati okkar ekki ráða minna um gengisþróun en þróun viðskiptajafnaðar það sem eftir lifir árs. Því er ekki víst að frekari veiking krónu sé í kortunum í bili.
Sparnaður enn meiri en afgangur
Í nýlega birtu riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleiki, er að finna forvitnilegt yfirlit um stefnur og strauma á gjaldeyrismarkaði á síðasta ári. Seðlabankinn býr yfir ítarlegum upplýsingum um slíkt flæði vegna upplýsingaskyldu fjármálastofnana gagnvart bankanum.
Líkt og undanfarin ár var innflæði gjaldeyris vegna viðskiptajafnaðar myndarlegt í fyrra. Áætlar Seðlabankinn að það hafi alls numið 88 mö.kr. Við það bættist innflæði um fjármagnsjöfnuð, m.a. vegna nýrrar erlendrar lántöku (26 ma.kr.), hreinnar aukningar á nýfjárfestingu erlendra aðila hér á landi (21 ma.kr.), útlánum banka í gjaldeyri og lækkunar á gjaldeyriseignum þeirra (29 ma.kr.) og annarra smærri liða (5.ma.kr.).