Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Gjaldeyriseignum safnað af miklum móð í fyrra

Söfnun gjaldeyriseigna lífeyrissjóða og annarra innlendra aðila átti stóran þátt í því að gengi krónu gaf talsvert eftir á síðasta ári þrátt fyrir myndarlegan viðskiptaafgang.


Söfnun gjaldeyriseigna lífeyrissjóða og annarra innlendra aðila átti stóran þátt í því að gengi krónu gaf talsvert eftir á síðasta ári þrátt fyrir myndarlegan viðskiptaafgang. Gjaldeyrisflæði vegna fjárfestinga inn og út úr hagkerfinu mun að mati okkar ekki ráða minna um gengisþróun en þróun viðskiptajafnaðar það sem eftir lifir árs. Því er ekki víst að frekari veiking krónu sé í kortunum í bili.

Sparnaður enn meiri en afgangur

Í nýlega birtu riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleiki, er að finna forvitnilegt yfirlit um stefnur og strauma á gjaldeyrismarkaði á síðasta ári. Seðlabankinn býr yfir ítarlegum upplýsingum um slíkt flæði vegna upplýsingaskyldu fjármálastofnana gagnvart bankanum.

Líkt og undanfarin ár var innflæði gjaldeyris vegna viðskiptajafnaðar myndarlegt í fyrra. Áætlar Seðlabankinn að það hafi alls numið 88 mö.kr. Við það bættist innflæði um fjármagnsjöfnuð, m.a. vegna nýrrar erlendrar lántöku (26 ma.kr.), hreinnar aukningar á nýfjárfestingu erlendra aðila hér á landi (21 ma.kr.), útlánum banka í gjaldeyri og lækkunar á gjaldeyriseignum þeirra (29 ma.kr.) og annarra smærri liða (5.ma.kr.).

Það útflæði sem þyngst vó á móti skv. tölum Seðlabankans voru gjaldeyriskaup lífeyrissjóða sem námu u.þ.b. 109 mö.kr. Hækkun á gjaldeyrisinnstæðum heimila og fyrirtækja nam 31 ma.kr. og hækkun banka á gnóttstöðu á móti framvirkum samningum viðskiptavina nam 17 mö.kr. Þá voru greiddar afborganir af erlendum lánum sem nam 53 mö.kr.

Í sem stystu máli, og með talsverðri einföldun, má því segja að ráðstöfun sparnaðar út úr íslenskri krónu ásamt hreinni uppgreiðslu erlendra lána hafi vegið upp viðskiptaafgang og fjárfestingainnflæði og gott betur á síðasta ári.

Gjaldeyrisbaukurinn tæmdur á aðventu

Íslenskir lífeyrissjóðir keyptu alls gjaldeyri fyrir 110 ma.kr. á síðasta ári. Var það u.þ.b. 9 mö.kr. minna en árið áður.  Eins og sjá má af myndinni var hins vegar ólíkt eftir tímabilum hvernig ráðstöfun gjaldeyrisins var háttað. Á fyrstu sjö mánuðum ársins jukust gjaldeyrisinnstæður sjóðanna í innlendum bönkum að jafnaði um ríflega 3 ma.kr. í mánuði hverjum og erlend verðbréfafjárfesting þeirra nam að jafnaði tæpum 8 mö.kr. á mánuði á sama tíma. Í ágústmánuði juku sjóðirnir hins vegar við gjaldeyrisinnstæður sínar um 24 ma.kr. Með öðrum orðum jukust innstæðurnar meira í þessum eina mánuði en mánuðina sjö á undan samanlagt. Þessum innstæðum var síðan að stórum hluta ráðstafað til verðbréfakaupa í desembermánuði  enda voru gjaldeyriskaup þeirra á síðasta þriðjungi ársins minni en mánuðina á undan.

Það voru reyndar ekki bara lífeyrissjóðir sem söfnuðu gjaldeyri  í sarpinn á haustdögum. Af ríflega 30 ma.kr. aukningu gjaldeyrisinnlána heimila og fyrirtækja á síðasta ári átti helmingurinn sér stað á haustmánuðum.

Er frekari veiking krónu í kortunum?

Ljóst er að gjaldþrot Wow air og sú fækkun ferðamanna sem af því hlýst leiðir til þess að viðskiptajöfnuður verður nokkru rýrari í ár en áður var útlit fyrir. Ekki er þó víst að okkar mati að tímabil viðskiptaafgangs sé á enda.

Horfur um minni viðskiptaafgang ættu alla jafna að mynda þrýsting til lækkunar raungengis. Þá verður líka að hafa í huga að áfram munu lífeyrissjóðir og aðrir fjárfesta utan landsteinana í því skyni að dreifa áhættu næstu árin. Líklega mun slíkt útflæði verða nokkru meira næstu misserin en sem nemur viðskiptaafgangi.

Við teljum hins vegar varasamt að álykta sem svo að vegna þessa muni krónan óhjákvæmilega veikjast umtalsvert á komandi fjórðungum. Gengi krónu gaf talsvert eftir á síðasta ári þrátt fyrir myndarlegan viðskiptaafgang, enda má sjá af ofangreindum tölum að innlendir aðilar voru býsna duglegir að safna í gjaldeyrissarpinn á seinni hluta ársins. Raungengi krónu var í febrúar síðastliðnum ríflega 8% lægra en í sama mánuði árið 2018 á mælikvarða hlutfallslegs verðlags. Raungengið er á svipuðum slóðum og það var síðsumars árið 2016. Gengið er því töluvert nær jafnvægi en það var framan af síðasta ári og teljum við raunar að núverandi gengi sé í sjónmáli við einhvers konar jafnvægisgengi.  

Þá eru ágætar líkur á því að fjárfestingar erlendra aðila hér á landi eigi eftir að verða talsverðar á komandi fjórðungum. Í Fjármálastöðugleika Seðlabankans kemur til að mynda fram að hreint innflæði vegna erlendrar fjárfestingar í innlendum verðbréfum nam 9 mö.kr. í marsmánuði. Hið svokallaða fjárstreymistæki, sem takmarkaði umtalsvert hvata erlendra aðila til að fjárfesta í íslenskum skuldabréfum og innlánum, var núllstillt í byrjun marsmánaðar og hefur sú breyting greinilega haft áhrif í þessa veru.

Gott báðum megin?

Við skilyrði frjálsra fjármagnsflutninga er bæði eðlilegt og mikilvægt að fjárfestingaflæði til og frá landinu sé gagnkvæmt. Þótt vissulega sé jákvætt að þjóðhagslegur sparnaður hafi verið meiri en fjárfesting og erlend staða þjóðarbúsins hafi batnað jafnt og þétt síðustu árin er það mat okkar að gjaldeyrisþörf vegna ráðstöfunar sparnaðar út úr íslensku hagkerfi verði í vaxandi mæli mætt með innflæði vegna fjárfestinga og lánveitinga erlendra aðila hingað til lands. Þannig ætti að vera hægt að nálgast hið gullna jafnvægi milli þess að halda allmyndarlegum kaupmætti á alþjóðavísu í nútíð og á sama tíma búa í haginn fyrir komandi tíð með alþjóðlega dreifðum langtímasparnaði.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband