Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Fyrstu bláu og grænu skuldabréfin

Brim hefur í samstarfi við Íslandsbanka lokið við útgáfu skuldabréfa fyrir fimm milljarða króna sem falla undir sjálfbæran fjármögnunarramma félagsins og eru kennd við grænan og bláan lit.


Skuldabréfin hafa verið tekin til viðskipta á markaði Nasdaq Iceland fyrir sjálfbær skuldabréf.

Með útgáfunni fjármagnar Brim verkefni sem stuðla að sjálfbærni og hafa jákvæð áhrif á umhverfið, en blá skuldabréf snúa að verkefnum tengdum hafi og vatni. Skuldabréfin eru þau fyrstu sinnar tegundar sem gefin eru út af Brimi og jafnframt þau fyrstu á Íslandi sem falla undir bláan og grænan fjármögnunarramma.

Loftslagsmálin eru ein af helstu áskorunum samtímans og við þurfum öll að bregðast við. Lykillinn að árangri eru stórauknar fjárfestingar í nýsköpun og þróun verkefna á sviði umhverfis- og loftlagsmála. Þess vegna er mikilvægt að virkja fjármálamarkaðinn til samvinnu við okkur og festa í sessi faglegt verklag sem tryggir að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi við mat á fjárfestingum okkar.

Guðmundur Kristjánsson
Forstjóri Brims

Með sjálfbærum fjármögnunarramma geta kaupendur skuldabréfa reitt sig á að fjárfestingar þeirra renni til verkefna sem stuðla að sjálfbærni og hafi jákvæð áhrif á umhverfið. Þannig er fjárfest í verkefnum sem til að mynda draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka mengun og stuðla að umhverfisvænni flutningsmátum. Undir þessa þætti falla til dæmis verkefni tengd orkuskiptunum, sem eru eitt af stærri verkefnum samtímans.

Birna Einarsdóttir

Bankastjóri Íslandsbanka

Meðal verkefna Brims eru fjárfesting í búnaði sem eykur nýtingu og verðmæti afla ásamt því að draga úr umhverfisáhrifum, sorpflokkunarstöðvar þar sem allt sem fellur til í starfseminni á sjó og landi er flokkað og uppbygging á umhverfisgagnagrunni með það að markmiði að hafa yfirsýn yfir losun og hvar hún verður til í starfseminni.

Íslandsbanki hafði umsjón með sölu skuldabréfanna, lýsingu og töku þeirra til viðskipta. Úttektaraðili (e. second opinion provider) sjálfbæra fjármögnunarramma Brims er alþjóða ráðgjafafyrirtækið Sustainalytics, sem er í eigu Morningstar í Bretlandi. Ráðgjöf við uppsetningu fjármögnunarrammans veitti CIRCULAR Solutions, nú sjálfbærniráðgjöf KPMG. Nánari upplýsingar um fjármögnunarrammann og álit Sustainalytics er að finna á vef Brims.