Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Fyrirhuguð stórkaup almennings aldrei minni

Brún landsmanna léttist nokkuð á milli mánaða en er enn undir meðaltali síðustu 12 mánaða ef marka má Væntingavísitölu Gallup. Meirihluti neytenda reiknar með að aðstæður í hagkerfinu verði betri að hálfu ári liðnu en þær eru nú. Vísitala fyrirhugaðra fasteignakaupa lækkaði á milli fjórðunga og er það fyrsti samdráttur hennar frá því í desember 2019. Samdrátturinn nær einnig til ferðalaga en aldrei hafa færri haft fyrirætlanir um utanlandsferðir frá því mælingar hófust.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Af Væntingavísitölu Gallup (VVG) að dæma eru landsmenn tiltölulega brattir miðað við síðastliðna 6 mánuði en vísitalan hækkar um tæplega 17 stig á milli mánaða og mælist nú 60,6 stig. Mælingin er þó nokkuð undir jafnvægisgildinu 100 sem markar skilin á milli þess hvort bjartsýni eða svartsýni gæti almennt meðal landsmanna. Síðustu 5 mánuði hafa væntingar almennings til aðstæðna í hagkerfinu eftir 6 mánuði mælst hærri en mat þeirra á núverandi ástandi. Það vekur sérstaka athygli vegna þess þar áður hafði mat á núverandi ástandi mælst hærra en hið fyrrnefnda síðan í febrúar 2016. Þessi viðsnúningur einkennir samdráttartíma og má gera ráð fyrir að 6 mánaða væntingarnar verði áfram hærri en mat á núverandi ástandi þar til verulega er farið að birta til í hagkerfinu.

Frekari samdráttur í einkaneyslu?

Nokkuð sterkt samband ríkir á milli þróunar VVG og einkaneyslu enda ræður tilfinning almennings fyrir stöðu og horfum efnahagsumhverfinu miklu um neysluákvarðanir til skemmri tíma litið. Einkaneysla almennings dróst saman um 8,4% á milli ára á öðrum ársfjórðungi en á sama tíma lækkaði vísitalan um rúm 33%. Lækkun VVG á þriðja ársfjórðungi nam 44% og mætti því ætla að samdráttur einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi geti orðið talsverður. Hins vegur verður að taka til greina að á öðrum ársfjórðungi ársins var hér samkomubann sem setti strik í reikninginn hvað einkaneyslu varðar. Á þriðja ársfjórðungi voru einkaneyslunni ekki settar sömu skorður og því spáir Greining minni samdrætti á þriðja ársfjórðungi en ella hefði verið enda lítur út fyrir að eftirspurn almennings hafi tekið nokkuð vel við sér í sumarbyrjun og beinst m.a. í ríkum mæli að innlendri þjónustu og vörum tengdum viðhaldi húsnæðis, tómstundaiðkun og fleira af því tagi.

Lægð í fyrirhuguðum stórkaupum

Á hverjum ársfjórðungi birtir Gallup mælingu á stórkaupavísitölu sinni samhliða Væntingavísitölunni. Í henni eru könnuð fyrirhuguð kaup íbúða, bifreiða og utanlandsferða. Stórkaupavísitalan lækkaði á milli fjórðunga fimmta skiptið í röð og hefur hún aldrei mælst eins lág frá því mælingar hófust. Gildi hennar á þriðja ársfjórðungi nemur 33,6 stigum og slær við fyrra lágmarki sem hafði staðið frá fyrsta ársfjórðungi 2009 (39,8 stig).

Aldrei færri í ferðahug

Á öðrum ársfjórðungi mældist vísitala fyrirhugaðra utanlandsferða sú lægsta frá upphafi en nýjasta mæling hennar slær þeirri fyrri við. Um 32,2% svarenda telja líklegt að farið verði utan á næstunni en á öðrum ársfjórðungi stóð þetta hlutfall í 41% og var um 66% á þeim fyrsta. Þetta kemur líklega fæstum á óvart í ljósi þeirrar skorða sem utanlandsferðum eru settar auk annarra áhættuþátta sökum heimsfaraldursins COVID-19. Ekki liggur fyrir hvenær bóluefni við COVID lítur dagsins ljós en líklegt þykir að ferðavilji fólks taki fljótt við sér þegar dregur úr faraldrinum.

Fleiri huga að kaupum fasteigna en bifreiða.

Svipaða sögu er að segja frá vísitölu fyrirhugaðra bifreiðakaupa en hún hefur ekki mælst jafn lág síðan á þriðja ársfjórðungi 2013. Vísitalan er sem stendur 18,3 stig en meðaltal hennar frá 2014-2019 var 26,8. Þó mikið hafi dregið úr bæði fyrirhuguðum utanlandsferðum og bifreiðakaupum sést aftur á móti varla högg á vatni varðandi fyrirhuguð húsnæðiskaup. Meðaltal hennar það sem af er ári nemur 11,3 stigum sem er hærra en öll ársmeðaltöl síðan árið 2007. Sögulega lágt vaxtastig spilar veigamikinn þátt en lánsfjármögnun húsnæðiskaupa hefur aldrei verið hagstæðari. Þó lækkaði vísitalan á milli fjórðunga en einungis um 0,1 stig. Hlutfall þeirra sem telja sig líklega til húsnæðiskaupa stóð í stað á milli fjórðunga í 7,7%.

Utan húsnæðiskaupa gefur hin nýja mæling Gallup at mati okkar vísbendingu um að landsmenn hyggjast draga allnokkuð saman seglin í neyslu sinni á næstunni. Vert er að nefna að verðbólgan hefur stigið talsvert á síðustu mánuðum og mun líklega vinna gegn einkaneyslunni á komandi mánuðum. Í nýrri þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka sem væntanleg er í lok mánaðar verður fjallað ítarlega um þróun einkaneyslu og aðra þætti en í sem stystu máli teljum við hana koma til með að eiga talsvert undir högg að sækja næstu mánuði.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband